Gleðilegt sumar!

Fílharmónían lauk starfsári sínu þann 6. júní sl. með aðalfundi, þar sem farið var yfir starf vetrarins. Meðal þess sem fram kom, var að æfingar hefðu verið 48 talsins frá september fram í maí og má því segja að kórinn hafi ekki setið auðum höndum í vetur. Fjölmargir listamenn komu fram með kórnum, íslenskir sem erlendir og við kveðjum veturinn reynslunni ríkari.

Fimm tónleikar voru haldnir á tímabilinu, þrennir af þeim fóru fram tvisvar. 30. október flutti Fílharmónían tónlist eftir George Gershwin og Jassmessu eftir Vytautas Miškinis. Tónleikarnir voru fluttir í Norðurljósasal Hörpu. Aðventutónleikar fóru fram í Langholtskirkju dagana 11. og 13. desember. 16. og 17. febrúar flutti Sinfóníuhljómsveit Íslands Hringadróttinssinfóníu Howards Shore, ásamt Fílharmóníunni, Kór Áskirkju, Hljómeyki og Stúlknakór Reykjavíkur. Aldarminning Róberts Abrahams Ottóssonar, stofnanda kórsins, var heiðruð 19. apríl í Langholtskirkju og 21. apríl í Skálholtsdómkirkju. Flutt voru verk útsett af honum en einnig frumflutti kórinn verkið Náttsöng, sem Hildigunnur Rúnarsdóttir samdi af þessu tilefni. Starfsárinu lauk á Listahátíð í Reykjavík þann 25. maí með samstarfi Sinfóníuhljómsveitarinnar annars vegar og Fílharmóníunnar, Kór Áskirkju og Hljómeyki hins vegar við flutning á Rómeó og Júlíu eftir Hector Berlioz. Fóru tónleikarnir fram í Eldborgarsal Hörpu.

Söngfólk Fílharmóníunnar hleypur nú út í sumarið með bros á vör eftir annir vetrarins. Við taka sumarstörf, frí og fjölskyldulíf eins og vera ber. Við þökkum öllum þeim sem hafa unnið með okkur í vetur fyrir samstarfið, sem og þeim sem komu og hlýddu á tónleikana okkar. Þar ber ekki síst að nefna fyrrum félaga Fílharmóníunnar sem okkur þótti afar vænt um að fá að syngja fyrir og deila minningum með.

Við hlökkum til að takast á við ný verkefni á komandi hausti, með gömlum vinum og nýjum.

Gleðilegt sumar!

 

Rómeó og Júlía á Listahátíð

Söngsveitin Fílharmónía nýtur þess heiðurs með Kór Áskirkju og Hljómeyki að taka þátt í flutningi á sinfóníunni Rómeó og Julía eftir Hector Berlioz á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands föstudaginn 25. maí. Tónleikarnir eru liður í Listahátíð í Reykjavík og verða í Eldborgarsal Hörpu. Í kynningu á verkinu segir svo á heimasíðu hljómsveitarinnar: „Fjöldi ógleymanlegra tónverka hefur orðið til undir áhrifum af harmleikjum Shakespeares. Eitt hið stærsta og óvenjulegasta er Rómeó og Júlía eftir franska meistarann Hector Berlioz, sem hann kallaði „dramatíska sinfóníu“. Hér er sinfóníuformið teygt í ýmsar áttir svo úr verður eins konar bræðingur hljómsveitarverks og óperu. Helstu þættir verksins eru sungnir af mezzósópran, tenór og bassa, auk þess sem Berlioz notar stóran kór í verkinu. Eitt það sem gerir nálgun tónskáldsins svo óvenjulega er þó að margir dramatískustu þættir sögunnar túlkaðir af hljómsveitinni eingöngu.“

Þar með bætist sinfónían við þau verk sem Fílharmónían frumflytur hér á landi. Fer einkar vel á því einmitt núna þegar hundrað ár eru liðin frá fæðingu Róberts A. Ottóssonar sem stofnaði kórinn og stjórnaði honum til dauðadags árið 1974. Minningu hans heiðraði söngsveitin 19. og 21. apríl sl. á tónleikunum Náttsöngur – Aldarminning Róberts A. Ottóssonar í Langholtskirkju og Skálholti. Tónleikunum 19. apríl í Langholtskirkju verður útvarpað á fæðingardegi Róberts þann 17. maí kl. 19.00

Tónleikar – Náttsöngur

Aldarminning dr. Róberts A. Ottóssonar

Tónleikar Söngsveitarinnar Fílharmóníu í Langholtskirkju fimmtudaginn 19. apríl, sumardaginn fyrsta kl. 20.00 og í Skálholtsdómkirkju laugardaginn 21. apríl kl. 16.00.

Þá frumflytur Söngsveitin nýtt íslenst tónverk eftir Hildigunni Rúnarsdóttur, Náttsöng, sem samið er að beiðni kórsins til að heiðra aldarminningu dr. Róbert A. Ottóssonar, stofnanda kórsins. Nýja verkið er í fimm köflum fyrir kór, einsöngvara og orgel. Hallveig Rúnarsdóttir verður einsöngvari, Steingrímur Þórhallsson leikur á orgel og Magnús Ragnarsson stjórnar. Auk nýja tónverksins verða fluttar útsetningar dr. Róberts að sálmalögum og þjóðlögum.

Róbert Abraham kom til Íslands 1935, aðeins 23 ára. Hann var hæfileikaríkur og vel menntaður og hafði strax mikil áhrif á íslenskt tónlistarlíf.. Fyrstu fimm árin bjó Róbert á Akureyri og starfaði við kennslu, tónleikahald og kórstjórn. 1940 flutti hann til Reykjavíkur og varð strax áberandi í tónlistarlífi borgarinnar, einn af nokkrum þeim tónlistarmönnum sem komu frá Evrópu og settust hér að sem höfðu stórtæk áhrif á allt íslenskt tónlistarlíf. Róbert Abraham stjórnaði Sinfóníuhljómsveit Íslands á fyrstu tónleikum hennar í mars árið 1950. Árið 1959 átti Róbert ríkan þátt í því að stofna Söngsveitina Fílharmóníu í þeim tilgangi að flytja stór tónverk fyrir kór og hljómsveit. Stjórnaði hann fyrstu tónleikum kórsins, sem voru með Sinfóníuhljómsveitinni og Þjóðleikhúskórnum þegar hér á landi var frumflutt Carmina Burana eftir Carl Orff, í apríl 1960.

Róbert stjórnaði Söngsveitinni til dauðadags. Hann var mikill fræðimaður og varði doktorsritgerð um tíðasöng Þorláks biskups Þorlákssonar helga á Hólum, Þorlákstíðir. Þá sinnti dr. Róbert einnig ötullega kirkjutónlistarstarfi, var dósent við guðfræðideild Hákóla Íslands og var Söngmálastjóri Þjóðkirkjunnar til dauðadags.

Undir stjórn Róberts frumflutti Söngsveitin Fílharmónía mörg helstu tónverk tónlistarsögunnar á Íslandi, svo sem áðurnefnt Carmina Burana, 9. sinfóníu og Missa Solemnis eftir Beethoven, Þýsku sálumessu Brahms, Magnificat eftir Johann Sebastian Bach, Sálumessu Verdis, og mörg fleri. Söngsveitin Fílharmónía vinnur í samstarfi við Tónlistarsafn Íslands að söfnun efnis um ævi og störf dr. Róberts og verður því komið fyrir á heimasíðu sem verður kennd við og tileinkuð honum. Í tónleikaskrá verður grein Árna Heimis Ingólfssonar um Róbert, ævi hans og störf auk efnis sem fyrrum kórfélagar og vinir hafa tekið saman um kynni sín við hann.

Forsala aðgöngumiða er í 12 tónum og hjá kórfélögum.
Miðaverð við inngang er kr. 3.500,-

Tónleikar til heiðurs Dr. Róbert A. Ottóssyni, stofnanda Söngsveitarinnar Fílharmóníu.

Söngsveitin Fílharmónína tók þátt ásamt Kór Áskirkju, Hljómeyki, Stúlknakór Reykjavíkur, fleiri kórsöngvurum og einsöngvurum í tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands þar sem flutt var Hringadróttinssinfóníunni 16. og 17. febrúar sl. Óhætt er að segja að flutningurinn hafi tekist vel; Eldborgarsalur Hörpu var þéttsetinn, reyndar fullsetinn bæði kvöldin, og hljómsveit, kórar og stjórnendur hneigðu sig auðmjúklega undir dynjandi lófaklappinu sem ætlaði aldrei að linna. Aðalstjórnandi verksins var Erik Ochsner og mikil ánægja með samvinnuna við hann meðal flytjenda. Flestir hefðu viljað halda fleiri tónleika, þar sem eftirspurnin var mikil eftir miðum, en því varð ekki við komið af ýmsum ástæðum, meðal annars vegna anna erlendu listamannanna sem komu að verkefninu. Við látum okkur það vel lynda og munum minnast þessa viðburðar með þakklæti og ánægju.

——————————-

Og það er líf eftir Hringinn. Næst tekur Söngsveitin til við mikilvægt verkefni: Að heiðra minningu stofnanda kórsins, Róberts Abrahams Ottóssonar. Róbert var af þýskum ættum en flutti hingað til lands 1935 og bjó hér á landi æ síðan þar til hann lést árið 1974. Hann fæddist 17. maí 1912 í Berlín og því verða liðin hundrað ár frá fæðingu hans í maí næstkomandi. Af því tilefni mun Söngsveitin að halda tónleika í apríl, þar sem frumflutt verður nýtt verk Hildigunnar Rúnarsdóttur, sem hún hefur samið fyrir kór, sópransóló og orgel að beiðni Söngsveitarinnar. Verkið hefur hlotið nafnið Náttsöngur og er tileinkað ævistarfi og rannsóknum dr. Róberts.

Á tónleikunum verða einnig fluttar tónsmíðar og raddsetningar  Róberts.

Æfingar eru þegar hafnar og það verður gaman að takast á við íslensk verk að nýju eftir að hafa verið niðursokkin í álfísku (e. elvish) undanfarnar vikur! Það er heiður fyrir Söngsveitina að minnast stofnanda síns, enda ófá verkefni sem kórinn hefur tekist á við á ríflega fimmtíu ára starfsferli.

 

Hringadróttinssinfónían

Nú er jólaleyfi að baki og Söngsveitin byrjuð að æfa aftur. Fyrsta æfing þessrar annar var mánudaginn 9.janúar og var það jafnframt fyrsta æfing á Hringadróttinssinfóníunni eftir Howard Shore.

Söngsveitin syngur þetta stórbrotna verk ásamt kór Áskirkju, Hljómeyki, Stúlknakór Reykjavíkur og fleiri kórsöngvurum og eru þátttakendur því samtals yfir 150 talsins.

Flestir hafa hlustað á og stúderað verkið yfir jólin, svo sem í heimahúsum, bílnum, í vinnunni og í ræktinni, með öðrum orðum hvenær sem tækifæri gefst, og eru allir fullir tilhlökkunar að taka þátt í þessu stóra verkefni með Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Tónleikarnir fara fram í Eldborgarsal Hörpu 16. og 17. febrúar næstkomandi og er nú hver síðastur að ná sér í miða enda bara örfá sæti laus!