Best WordPress Theme based on Material Design - Materialize is a freemium WordPress theme developed by myThem.es

Carmina Burana fimmtudaginn 7. febrúar kl. 19.30 í Eldborg

Æfingar á sívinsælu verki Carl Orff Carmina Burana standa yfir. Sjá um væntanlega tónleika í Eldborg:

http://www.sinfonia.is/ tonleikar/2013/2/7/nr/1974

Tónleikar Söngsveitarinnar Fílharmóníu í Kristskirkju Landakoti
27. desember kl. 20.00

Söngsveitin heldur jólatónleika á þriðja degi jóla þann 27. desember kl. 20.00. Á efnisskránni eru jólalög af ýmsu tagi m.a. þjóðlagið Hátíð fer að höndum ein í útsetningu Jóns Ásgeirssonar, Ave María Sigvalda Kaldalóns, gömul erlend lög eins og Hin fegursta rósin er fundin og franska 16. aldar lagið Opin standa himins hlið. Þá syngur kórinn Ave Maria eftir Caccini með styrku liðsinni einsöngvarans, Hallveigar Rúnarsdóttur sópran en hún flytur Ecco aríu úr Jólaóratóríu Bach með organistanum Steingrími Þórhallssyni en öllu saman stjórnar Magnús Ragnarsson.

Hátíðabragur verður yfir stundinni í Kristskirkju á þriðja í jólum og kjörið tækifæri fyrir tónleikagesti að fá hvíld og öðlast hugaró eftir annasama aðventuna, góð og gleðileg jól.

Miðar verða seldir við innganginn en öruggast er að tryggja sér miða hjá kórfélögum fyrirfram.

Hausttónleikar Fílharmóníu 2012

Eins og venja hefur verið undanfarin ár mun Fílharmónía syngja tvenna sjálfstæða tónleika nú í október. Kórinn er á leið í ferð til Austurríkis næsta sumar og tónleikahald því liður í undirbúningi fyrir það ferðalag.

Tvö spennandi stykki eru á efnisskránni, annars vegar Misa Criolla eftir Ariel Ramírez og hins vegar Mariamusik eftir sænska tónskáldið Anders Öhrwall.

Eins og áður sagði verða tónleikarnir tvennir. Hinir fyrri verða 14. október í Seltjarnarneskirkju og hinir síðari hinn 15. október í Guðríðarkirkju í Grafarholti. Báðir tónleikarnir hefjast klukkan átta.

Misa Criolla (1964) er taktföst messa, sungin á spænsku og er skrifuð fyrir kór, einsöngvara og hljómsveit. Mismunandi tónlistarhefðir S-Ameríku lita verkið sem er með eindæmum einstakt og ánægjulegt áheyrnar. Einsöngvarar eru Einar Clausen, einn af okkar fremstu tenórsöngvurum, og Akureyringurinn Jón Svafar Jósefsson, barítón.

Mariamusik (1974) er eftir sænska tónskáldið Anders Öhrwall, sem er mörgum kunnur fyrir jólaútsetningar sínar, og er byggð á textum og tónlist um Maríu Mey frá 14., 15. og 16 öld. Sumir kaflarnir bera raunar sterkan keim af styrk Öhrwalls sem jólatónskálds og er á stundum nokkur hátíðarbragur yfir stykkinu, sem sungið er á íslensku. Lesari er Þorleifur Hauksson.

Tónleikarnir eru um tvær klukkustundir með hléi og almennt miðaverð er 3.500 krónur en börn undir 12 ára greiða hálft verð. Forsöluverð er 2.900 krónur og gildir það fram að tónleikadegi.

Miðar fást í 12 tónum á Skólavörðustíg, hjá kórfélögum og við innganginn.

Gleðilegt sumar!

Fílharmónían lauk starfsári sínu þann 6. júní sl. með aðalfundi, þar sem farið var yfir starf vetrarins. Meðal þess sem fram kom, var að æfingar hefðu verið 48 talsins frá september fram í maí og má því segja að kórinn hafi ekki setið auðum höndum í vetur. Fjölmargir listamenn komu fram með kórnum, íslenskir sem erlendir og við kveðjum veturinn reynslunni ríkari.

Fimm tónleikar voru haldnir á tímabilinu, þrennir af þeim fóru fram tvisvar. 30. október flutti Fílharmónían tónlist eftir George Gershwin og Jassmessu eftir Vytautas Miškinis. Tónleikarnir voru fluttir í Norðurljósasal Hörpu. Aðventutónleikar fóru fram í Langholtskirkju dagana 11. og 13. desember. 16. og 17. febrúar flutti Sinfóníuhljómsveit Íslands Hringadróttinssinfóníu Howards Shore, ásamt Fílharmóníunni, Kór Áskirkju, Hljómeyki og Stúlknakór Reykjavíkur. Aldarminning Róberts Abrahams Ottóssonar, stofnanda kórsins, var heiðruð 19. apríl í Langholtskirkju og 21. apríl í Skálholtsdómkirkju. Flutt voru verk útsett af honum en einnig frumflutti kórinn verkið Náttsöng, sem Hildigunnur Rúnarsdóttir samdi af þessu tilefni. Starfsárinu lauk á Listahátíð í Reykjavík þann 25. maí með samstarfi Sinfóníuhljómsveitarinnar annars vegar og Fílharmóníunnar, Kór Áskirkju og Hljómeyki hins vegar við flutning á Rómeó og Júlíu eftir Hector Berlioz. Fóru tónleikarnir fram í Eldborgarsal Hörpu.

Söngfólk Fílharmóníunnar hleypur nú út í sumarið með bros á vör eftir annir vetrarins. Við taka sumarstörf, frí og fjölskyldulíf eins og vera ber. Við þökkum öllum þeim sem hafa unnið með okkur í vetur fyrir samstarfið, sem og þeim sem komu og hlýddu á tónleikana okkar. Þar ber ekki síst að nefna fyrrum félaga Fílharmóníunnar sem okkur þótti afar vænt um að fá að syngja fyrir og deila minningum með.

Við hlökkum til að takast á við ný verkefni á komandi hausti, með gömlum vinum og nýjum.

Gleðilegt sumar!

 

Rómeó og Júlía á Listahátíð

Söngsveitin Fílharmónía nýtur þess heiðurs með Kór Áskirkju og Hljómeyki að taka þátt í flutningi á sinfóníunni Rómeó og Julía eftir Hector Berlioz á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands föstudaginn 25. maí. Tónleikarnir eru liður í Listahátíð í Reykjavík og verða í Eldborgarsal Hörpu. Í kynningu á verkinu segir svo á heimasíðu hljómsveitarinnar: „Fjöldi ógleymanlegra tónverka hefur orðið til undir áhrifum af harmleikjum Shakespeares. Eitt hið stærsta og óvenjulegasta er Rómeó og Júlía eftir franska meistarann Hector Berlioz, sem hann kallaði „dramatíska sinfóníu“. Hér er sinfóníuformið teygt í ýmsar áttir svo úr verður eins konar bræðingur hljómsveitarverks og óperu. Helstu þættir verksins eru sungnir af mezzósópran, tenór og bassa, auk þess sem Berlioz notar stóran kór í verkinu. Eitt það sem gerir nálgun tónskáldsins svo óvenjulega er þó að margir dramatískustu þættir sögunnar túlkaðir af hljómsveitinni eingöngu.“

Þar með bætist sinfónían við þau verk sem Fílharmónían frumflytur hér á landi. Fer einkar vel á því einmitt núna þegar hundrað ár eru liðin frá fæðingu Róberts A. Ottóssonar sem stofnaði kórinn og stjórnaði honum til dauðadags árið 1974. Minningu hans heiðraði söngsveitin 19. og 21. apríl sl. á tónleikunum Náttsöngur – Aldarminning Róberts A. Ottóssonar í Langholtskirkju og Skálholti. Tónleikunum 19. apríl í Langholtskirkju verður útvarpað á fæðingardegi Róberts þann 17. maí kl. 19.00

Tónleikar – Náttsöngur

Aldarminning dr. Róberts A. Ottóssonar

Tónleikar Söngsveitarinnar Fílharmóníu í Langholtskirkju fimmtudaginn 19. apríl, sumardaginn fyrsta kl. 20.00 og í Skálholtsdómkirkju laugardaginn 21. apríl kl. 16.00.

Þá frumflytur Söngsveitin nýtt íslenst tónverk eftir Hildigunni Rúnarsdóttur, Náttsöng, sem samið er að beiðni kórsins til að heiðra aldarminningu dr. Róbert A. Ottóssonar, stofnanda kórsins. Nýja verkið er í fimm köflum fyrir kór, einsöngvara og orgel. Hallveig Rúnarsdóttir verður einsöngvari, Steingrímur Þórhallsson leikur á orgel og Magnús Ragnarsson stjórnar. Auk nýja tónverksins verða fluttar útsetningar dr. Róberts að sálmalögum og þjóðlögum.

Róbert Abraham kom til Íslands 1935, aðeins 23 ára. Hann var hæfileikaríkur og vel menntaður og hafði strax mikil áhrif á íslenskt tónlistarlíf.. Fyrstu fimm árin bjó Róbert á Akureyri og starfaði við kennslu, tónleikahald og kórstjórn. 1940 flutti hann til Reykjavíkur og varð strax áberandi í tónlistarlífi borgarinnar, einn af nokkrum þeim tónlistarmönnum sem komu frá Evrópu og settust hér að sem höfðu stórtæk áhrif á allt íslenskt tónlistarlíf. Róbert Abraham stjórnaði Sinfóníuhljómsveit Íslands á fyrstu tónleikum hennar í mars árið 1950. Árið 1959 átti Róbert ríkan þátt í því að stofna Söngsveitina Fílharmóníu í þeim tilgangi að flytja stór tónverk fyrir kór og hljómsveit. Stjórnaði hann fyrstu tónleikum kórsins, sem voru með Sinfóníuhljómsveitinni og Þjóðleikhúskórnum þegar hér á landi var frumflutt Carmina Burana eftir Carl Orff, í apríl 1960.

Róbert stjórnaði Söngsveitinni til dauðadags. Hann var mikill fræðimaður og varði doktorsritgerð um tíðasöng Þorláks biskups Þorlákssonar helga á Hólum, Þorlákstíðir. Þá sinnti dr. Róbert einnig ötullega kirkjutónlistarstarfi, var dósent við guðfræðideild Hákóla Íslands og var Söngmálastjóri Þjóðkirkjunnar til dauðadags.

Undir stjórn Róberts frumflutti Söngsveitin Fílharmónía mörg helstu tónverk tónlistarsögunnar á Íslandi, svo sem áðurnefnt Carmina Burana, 9. sinfóníu og Missa Solemnis eftir Beethoven, Þýsku sálumessu Brahms, Magnificat eftir Johann Sebastian Bach, Sálumessu Verdis, og mörg fleri. Söngsveitin Fílharmónía vinnur í samstarfi við Tónlistarsafn Íslands að söfnun efnis um ævi og störf dr. Róberts og verður því komið fyrir á heimasíðu sem verður kennd við og tileinkuð honum. Í tónleikaskrá verður grein Árna Heimis Ingólfssonar um Róbert, ævi hans og störf auk efnis sem fyrrum kórfélagar og vinir hafa tekið saman um kynni sín við hann.

Forsala aðgöngumiða er í 12 tónum og hjá kórfélögum.
Miðaverð við inngang er kr. 3.500,-