Best WordPress Theme based on Material Design - Materialize is a freemium WordPress theme developed by myThem.es

Allt er fertugum fært

Minningar og sögustiklur á afmæli Söngveitarinnar Fílharmóníu árið 2000
Eftir Baldur F. Sigfússon

Áður birt í Morgunblaðinu og í tónleikaskrá og afmælisriti Söngsveitarinnar í maí 2000, en þá frumflutti kórinn á 40 ára afmæli sínu ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands og Selkórnum verkið Immanúel eftir Þorkel Sigurbjörnsson.

 

filh3-minni

Flutningur á Carmina Burana ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands og Þjóðleikhúskórnum vorið 1960. Þjóðleikhúskórinn til vinstri, Söngsveitin til hægri.

Árið 1959 dreif ungur og sprækur leikfimikennari og ágætur tenór, Valdimar Örnólfsson, okkur fjóra nýbakaða stúdenta og bekkjarfélaga úr Menntaskólanum í Reykjavík með sér og tveimur systkinum sínum í blandaðan kór, sem verið var að stofna í Reykjavík til flutnings stærri kórverka með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Eldsálin og aðaldriffjöður þessa var vel menntaður, reyndur og afar hæfileikaríkur tónlistarmaður, doktor Róbert Abraham Ottósson, sem stjórnaði síðan kórnum, Söngsveitinni Fílharmóníu, nær óslitið til dauðadags. Er mér til efs að ég eigi nokkrum mér óvandabundnum meira að þakka en þessum tveimur mönnum, að beina mér á þessa braut – hvor með sínum hætti – nema ef vera skyldi þeim ágæta lækni, sem hefur gert mér kleift að gala áfram!

Formlegur undirbúningur að starfsemi Söngsveitarinnar hófst hinn 24. apríl 1959 með stofnun félagsins Fílharmóníu, sem mun hafa talið alls 27 stofnendur auk dr. Róberts, þar á meðal marga fremstu tónlistarmenn þjóðarinnar og aðra tónlistarunnendur. Formaður fimm manna stjórnar, auk tveggja í varastjórn, var Þorsteinn Hannesson óperusöngvari, sem ásamt Jóni Þórarinssyni tónskáldi og Ragnari Jónssyni forstjóra mun hafa átt frumkvæðið að stofnuninni. Sjö manns, þar af tveir frá söngsveitinni, skipuðu framkvæmdanefnd.

Söngsveitin hóf æfingar á Carmina Burana eftir Carl Orff í nóvember sama ár og frumflutti hér á landi í Þjóðleikhúsinu ásamt Þjóðleikhúskórnum og Sinfóníuhljómsveit Íslands 23. apríl 1960. Flutningnum var feiknavel tekið, og var hann endurtekinn fyrir fullu húsi næsta dag og 3. maí. Mjög hafði verið vandað til undirbúnings frá byrjun. Auk fjölbreyttrar kennslu dr. Róberts, með aðstoð Stefáns Edelsteins undirleikara, leiðbeindu söngvararnir Þuríður Pálsdóttir og Birgir Halldórsson um raddbeitingu. Um vorið fengu kórfélagar svo ómetanlega kennslu Engel (Göggu) Lund í framburði í söng á þremur tungumálum (íslensku, þýsku og frönsku). Fór hún fram í Þrúðvangi við Laufásveg.

fing-a-brahms-1962-copy

Söngsveitin á öðru starfsári, veturinn 1960-61 á æfingu í Barnamúsíkskólanum í Iðnskólanum þar sem æfð var Þýsk sálumessa Brahms. Dr. Róbert A. Ottóson sjötti frá vinstri í annarri röð.

Bjart er yfir minningunum frá þessum fyrsta vetri með Söngsveitinni. Andi frumherja ríkti, sem leiðbeinendum og hinum eldri í kórnum veittist létt að glæða, og verkið var með afbrigðum skemmtilegt og veraldlegt í hæsta máta. Hef ég oft brosað í kampinn að klókindum dr. Róberts að hefja starfið á þennan hátt – hann stefndi á önnur og torsóttari mið, sem ég er ekki viss um að hann hefði fengið hin yngri og óreyndari okkar út á, svona í byrjun. Að minnsta kosti fannst okkur sumum næsta verkefni, Þýsk sálumessa eftir Brahms, æði þung og frábrugðin í fyrstu, en ekki varð aftur snúið – við vorum ánetjuð! Þetta verk varð mér hins vegar, ásamt Sálumessu Mozarts, einna kærast allra þeirra sem ég hef tekið þátt í með söngsveitinni.

Skömmu fyrir frumflutning Carmina Burana, á annan í páskum 18. apríl 1960, var fyrsta stjórn sjálfrar Söngsveitarinnar Fílharmóníu kosin. Formaður var Aðalheiður Guðmundsdóttir. Er aldur Söngsveitarinnar venjulega miðaður við þennan tíma, þótt starfsemi hennar hefði hafist haustið áður. Samstarfið við félagið Fílharmóníu var gott en þótti þungt í vöfum, þannig að á almennum fundi í söngsveitinni 10. september 1961 var ákveðið að starfa sjálfstætt í framtíðinni. Á fyrsta reglulega aðalfundi Söngsveitarinnar, 1. október 1961, var hún gerð að sjálfstæðu félagi með eigin lögum, að höfðu samráði við félagið Fílharmóníu sem hét stuðningi sínum áfram.

Ekki er ætlunin að rekja hér sögu Söngsveitarinnar Fílharmóníu nákvæmlega upp frá þessu. Stiklað verður á stóru, jafnframt því sem vísað skal til yfirlits Ragnars Árnasonar og fleiri greina, þar á meðal minningarorða Aðalgeirs Kristjánssonar um dr. Róbert, í veglegu afmælisriti Söngsveitarinnar frá árinu 1985, svo og ágrips Önnu Maríu Þórisdóttur í efnisskrá afmælistónleika fimm árum síðar.

Upplýsingar um stærri kórverk sem Söngsveitin hefur flutt til þessa dags, listræna stjórnendur og fleira er að finna í verkefnaskrá annars staðar í þessu riti. Gefur hún góða mynd af starfseminni, ekki síst fjölbreytileika viðfangsefnanna og þar með af elju alls þess ágæta hæfileikafólks, sem lagt hefur Söngsveitinni lið og seint verður fullþakkað. Mest hefur auðvitað mætt á söngstjórum, ásamt raddþjálfurum og undirleikurum á æfingum, að bræða saman og móta þann ólíka efnivið sem þeir höfðu til umráða hverju sinni. Þótt innan um hafi alltaf verið meira eða minna af tónmenntuðum félögum í söngsveitinni, hafa líka fjölmargir stigið þar sín fyrstu spor á sviði stærri kórbókmennta, þannig að verulega hefur reynt á kennsluhæfni og þolinmæði fagfólksins.

Filh2-minni

Á æfingu í Melaskóla á fyrsta starfári, helsta æfingastað kórsins enn í dag. Róbert A. Ottóson fremst til hægri.

Eftir því sem kórinn stækkaði og varð samæfðari var ráðist í viðameiri verkefni. Fyrsti hápunkturinn verður að teljast flutningur 9. sinfóníu Beethovens í Háskólabíói undir stjórn dr. Róberts, 10. febrúar 1966, og hinn næsti væntanlega Missa solemnis eftir sama tónskáld, 5. mars 1970. Eftir þennan frumflutning „þeirrar níundu“ hér á landi þurfti að endurtaka hana fjórum sinnum í röð, einnig fyrir fullu húsi. Auðvitað var þetta ævintýri líkast, en jafnvel stjórnandanum fannst þá nóg komið í bili!

Dr. Róbert andaðist 10. mars 1974, aðeins tæplega 62 ára gamall, eftir skamma legu á Sjúkrahúsinu í Lundi í Svíþjóð, þar sem hann hafði veikst skyndilega á norrænu sálmabókarþingi. Ég var þá búsettur þar og bar gæfu til að heimsækja hann nokkrum dögum fyrir andlátið. Sem fyrr hvatti hann mig til að hefja aftur þátttöku í kórsöng, undir stjórn góðs vinar hans þar, en því miður lét ég ekki verða af því þá. Sjálfur hugsaði hann um framtíðina, kvaðst líklega verða að hætta að hoppa á stjórnpalli en snúa sér meira að rannsóknum á sviði íslenskrar tónlistar. Örlögin leyfðu hvorugt.

Ýmislegt breyttist við fráfall stjórnandans, sem kalla mátti með réttu föður söngsveitarinnar, enda gjarna talað í bænum um „kórinn hans Róberts“. Algengara varð að söngstjórar æfðu kórinn en aðalstjórnendur Sinfóníuhljómsveitarinnar stjórnuðu tónleikum.

Önnur erfið breyting varð þegar hljómsveitin sagði upp föstu samstarfi við söngsveitina í júní 1986, til að geta haft frjálsari hendur að starfa einnig með öðrum kórum. Má vera að þetta hafi verið sanngjarnt frá samkeppnis- eða jafnræðissjónarmiði, þótt ekki væri sársaukalaust fyrir félaga söngsveitarinnar. Allur rekstur hennar, sem Sinfóníuhljómsveitin kostaði áður að mestu leyti, varð líka miklu torveldari, bæði stjórnunar- og fjárhagslega, þótt söngsveitin hafi síðan lengst af notið nokkurra styrkja, einkum frá Reykjavíkurborg, auk þess sem borgin hefur að mestu séð henni fyrir ókeypis æfingahúsnæði.

Fyrsta veturinn eftir rekstrarbreytinguna sá Smári Ólason um æfingar og stjórnaði Catulli Carmina eftir Carl Orff í mars 1987, en aðrir stjórnuðu tónleikum í apríl og maí sama ár. Kórstarfið lá svo að verulegu leyti niðri næsta vetur, en haustið 1988 var ráðinn nýr söngstjóri, Úlrik Ólason orgelleikari, og starfsemin hófst aftur af fullum krafti. Flutti söngsveitin á eigin vegum sálumessu Mozarts þrisvar fyrir yfirfullu húsi í Kristskirkju í Landakoti 17.-19. mars 1989, auk þess sem hún sá um messusöng við páfakomu í Landakoti 4. júní sama ár. Hinn 10. og 11. desember hélt söngsveitin svo aðventutónleika í Kristskirkju, með blandaðri dagskrá, kammersveit og einsöngvara. Hafa þeir verið fastur liður árlega upp frá því, á síðari árum venjulega í Langholtskirkju, auk þess sem oftast hefur verið farið með hluta dagskrár þeirra á vistheimili aldraðra fyrir jólin.

Að öðru leyti var haldið áfram á sömu braut með flutningi stærri verka, oftast á eigin vegum og undir stjórn Úlriks, sem starfaði með Söngsveitinni í samfellt átta ár. Þrjú verk voru þó flutt í Háskólabíói undir annarra stjórn, Níunda sinfónía Beethovens (1990) og C-moll messa Mozarts (1991) með Sinfóníuhljómsveit Íslands og Baldr eftir Jón Leifs (1991) með Sinfóníuhljómsveit æskunnar. Baldr, sem var býsna erfitt og minnisstætt verk, var síðan tekinn upp og gefinn út á tveimur geisladiskum (Musical Observations, Inc., New York: CP2 106/7).

Auk stærri kórverka og aðventutónleika hefur Söngsveitin eða góður hluti hennar tekið þátt í ýmsum smærri verkefnum. Má þar nefna kaþólska vígslu nýrrar Jósefskirkju að Jófríðarstöðum í Hafnarfirði, 3. júlí 1993, og síðar sama ár beina útsendingu í Ríkisútvarpi Sjónvarpi frá sömu kirkju sunnudaginn 7. nóvember.

Undir stjórn Úlriks Ólasonar reis Söngsveitin upp á ný, þegar verulega hafði syrt í álinn, og hófst til æ viðameiri og fjölbreyttari verkefna. Með dyggri aðstoð Elísabetar Erlingdóttur söngkonu, sem hefur annast raddþjálfun og ráðgjöf að mestu síðan haustið 1990, og Hrefnu U. Eggertsdóttur sem þá sá um undirleik á æfingum, gaf Söngsveitin út á eigin vegum síðla árs 1992 sinn fyrsta geisladisk, Á hæstri hátíð (SSF 001), með jóla- og hátíðartónlist. Hlaut hann mjög góða dóma, enda vel til hans vandað, og hefur selst vel allt til þessa dags. Sjálf upptökuvinnan var afar skemmtileg og lærdómrík, ekki síst þar sem hlusta mátti í Langholtskirkju jafnharðan á upptökurnar. Kom þar æði margt á óvart!

Ámóta minnisstæð og þroskandi, en á allt annan hátt, var fyrsta og hingað til eina utanlandsferð Söngsveitarinnar, Norðurlandaferðin, þar sem flutt voru alls 27 þjóðlög og önnur íslensk lög í kirkjum í Osló, Gautaborg, Kaupmannahöfn og Lundi í tilefni 50 ára afmælis íslenska lýðveldisins, 8.-12. júní 1994. Úlrik og Elísabet leiddu söngsveitina sem fyrr, en undirleik annaðist Douglas A. Brotchie orgelleikari.

Áður mun Söngsveitin stundum hafa verið kölluð „kórinn sem aldrei fer til útlanda“! Það lýsir hins vegar vel því, hve fjárhagsleg aðstaða Fílharmóníu hefur verið miklu erfiðari en til dæmis kóra sem tengjast ákveðnum kirkjum og þurfa ekki að kosta söngstjórn og hús til tónleikahalds á sama hátt. Myndarlegir styrkir, einkum frá ríki og borg, gerðu Norðurlandaferðina að veruleika.

Síðan haustið 1996 hefur Bernharður Wilkinson flautuleikari og nú aðstoðarhljómsveitarstjóri Sinfóníunnar leitt söngsveitina áfram á sömu braut, með lítið eitt breyttum áherslum eins og vænta mátti. Var mikið happ fyrir kórinn að fá til liðs við sig svo hæfileikaríkan og reyndan hljómsveitar- og söngstjóra sem Benni er, og ekki spillir óendanleg þolinmæði, jákvæðni og gott skap – samfara vissum skammti af aga auðvitað! Raunar hefur mér alla tíð þótt undrum sæta, hve flestir söngstjórar sem ég hef haft kynni af hafa haldið ró sinni og krafti, þrátt fyrir mikið vinnuálag og tæting. Undir stjórn Benna og með aðstoð Elísabetar og Douglasar gaf söngsveitin út sinn annan geisladisk, Heill þér himneska orð (SSF 002), fyrir jólin í fyrra. Var ekki síður til hans vandað en hins fyrri. Undirleikari á æfingum var Guðríður St. Sigurðardóttir, sem hefur verið stoð og stytta söngsveitarinnar undanfarin ár.

Mál er að linni. Hin fertuga söngsveit, Fílharmónía eða „Fílan“ eins og hún er stundum kölluð (að ekki sé minnst á „Fílamannakórinn“ eins og einn uppáhaldsaðdáandi Söngsveitarinnar, Flosi Ólafsson leikari, nefndi hana á yngri árum), er vaxin vel úr grasi og horfir björtum augum til framtíðar, þrátt fyrir vissan karlaskort eins og stundum áður. Hún hefur þegar skilað víðtæku og mikilvægu hlutverki, ekki bara tónlistarlegu heldur einnig uppeldislegu og félagslegu, eins og slíkt starf gerir ávallt og verður seint metið að verðleikum. Að starfa í metnaðarfullum blönduðum kór, þar sem saman koma einstaklingar á ýmsum aldri og úr flestum stéttum þjóðfélagsins, er góð tilbreyting frá námi og starfi, þroskandi og umfram allt skemmtilegt – örugglega ekki síður en í öðrum kórum og klúbbum! Vonandi linnir senn hinu óhóflega vinnuálagi Íslendinga, karla sem kvenna, sem hlýtur oft að standa eðlilegri þátttöku í uppeldis-, tómstunda- og félagsstarfi mjög fyrir þrifum.

Ég óska Söngsveitinni minni gæfu og gengis á komandi árum, með blómlegu félagsstarfi og listrænum árangri.