Best WordPress Theme based on Material Design - Materialize is a freemium WordPress theme developed by myThem.es

Aðalgeir Kristjánsson
Kórfélagi, vinur og samherji Róberts í íslenskum fræðum

Róbert Abraham var leiðtogi SF og faðir, uppalandi og lærimeistari, óþreytandi í þeirri viðleitni að lyfta huganum upp yfir hversdagsleikans gráu deyfð og leiða viðstadda í töfraheim tónlistarinnar. Frá honum geislaði eldmóður og hrifning á hans bestu stundum á æfingum og hljómleikum. Hann var óvenjulegur maður að allri gerð, fjölhæfur og margskiptur, mikill listamaður og skapheitur líkt og þrumuguð, en á hinn bóginn einlægur og barnslegur, hrifnæmur, lítillátur og fullur lotningar. Andstætt þessum eðlisþáttum var vísindamaðurinn Róbert A. Ottósson skarpskyggn og nákvæmur svo af bar. Fyrir honum var ekkert atriði svo smátt að því væri ekki fyllsti gaumur gefinn, en jafnframt sá hann viðfangsefnið í heildarsýn. Sambúð þessara ólíku eðlisþátta hlýtur að hafa verið erfið, en upp af þeim þróaðist sérstakur og ógleymanlegur persónuleiki.


Anna María Þórisdóttir
Kórfélagi 1966-1995. Ritari um árabil.

Þetta var fyrsta söngæfing Fílharmóníu á þjóðhátíðarárinu 1974. Janúarkvöldið var dimmt en stillt. Nokkrir kórfélagar höfðu safnast saman utan við anddyri Melaskólans en lyklavörðurinn var ekki mættur. Fólk rabbaði saman og brátt bættist Róbert í hópinn í dökkbláa frakkanum sínum og með skjalatöskuna. Hann tók þátt í samræðum fólksins um stund en dró sig síðan út úr hópnum, hallaði sér upp að veggnum og drúpti höfði í þögn. Nú kom lyklavörðurinn og allur hópurinn flýtti sér upp og æfingin hófst í hlýjum og björtum salnum.

Róbert kynnti okkur verkefni hátíðarársins sem var m. a. Völuspá eftir Jón Þórarinsson sem syngja átti við Arnarhól n. k. sumar. En hann kynnti okkur líka annað verkefni sem framundan var: Carmina Burana sem hluti kórsins hafði að vísu sungið áður. Glaður og reifur sagði hann okkur frá flökkumunkunum og léttu og léttúðugu söngvunum þeirra. Æfingin fór fram í bjartsýnni vonargleði.

Ekkert okkar grunaði að þetta væri síðasta söngæfing Róberts með Söngsveitinni Fílharmóníu.


Árni Björnsson 
Kórfélagi í mörg ár

Róbert átti til blöndu af bráðlyndi, kröfuhörku og sáttfýsi. Þessu kynntist ég meðal annars þegar við vorum að æfa kórkaflann í 9. sinfóníunni veturinn 1966. Róbert vildi að kórinn stæði upp – allir sem einn – á tilteknum hljómi og taktslagi. Það tók hálft kvöld að æfa þetta í sjálfu sér ómúsíkalska atriði, aftur og aftur. Vér Íslendingar gátum ómögulega staðið upp samtímis, heldur var þetta líkt og öldusjór. Hvað eftir annað skoraði stjórnandinn á okkur að vera samtaka, en sumir áttu það til að snýta sér áður en þeir drögnuðust á lappir, aðrir spruttu upp eins og stálfjöður svo að næstu stólar ultu um koll. Loks reif Róbert í hár sér og faldi sig bak við sviðið í Melaskólanum. Eftir drjúga stund kom hann aftur og mælti nokkurnveginn á þessa leið:

Ég kem frá landi sem hefur mikið á samviskunni, tvær heimsstyrjaldir og fleira. En þetta land ykkar, það er blessað land: enginn her, ekkert stríð, enginn heragi. Hér eru engar járnbrautarlestir sem leggja af stað á sekúndunni, og skipin sigla eftir veðrinu. En þetta þýðir líka að hér er ekki til neitt sem heitir Präzision! – Jæja, einu sinni enn vinir mínir.’ Og loks tókst honum að fá okkur til að standa upp nokkurnveginn í takt, svo það varð reyndar eitt af því sem mörgum óvönum tónleikagesti þótti hvað áhrifamest eftir að hafa ‘séð’ þá níundu eins og það heyrðist ósjaldan orðað.


Árni Kristjánsson (1906-2003)
píanóleikari

Árni Kristjánsson í afmælisgrein 1972:
Það er eins og sál hans hafi bæði stærra og fjölskrúðugra hljómborð en við almennt hittum fyrir. Hamslaus kraftur hans, leiftrandi gáfur og skarpskyggni, ólgandi skapsmunir, ótrúlegur næmleiki og hlýja – allt þetta veldur því, að persónu hans hillir upp í návist manns.


Ásdís Egilsdóttir
gekk til líðs við kórinn 1966

Fyrstu kynnin af Róbert eru ógleymanleg. Þrjár menntaskólastúlkur fóru í söngpróf heim til stjórnandans. Mikið stóð til, frumflutningur á 9. Sinfóníu Beethovens. Raddirnar teygðar ofar og ofar, svipur söngstjórans óræður, blíður og strangur í senn og stúlkur orðnar kvíðnar. En að loknu prófi mætti okkur hlýlegt bros og við boðnar velkomnar í Fílharmóníu. Við tók spennandi tími og hvert stórvirkið á fætur öðru, Missa Solemnis Beethovens, Sálumessur Brahms og Verdis, Te Teum Bruckners og Dvoráks, Messías Händels. Árin í Fílharmóníu undir stjórn Róberts voru skemmtun og skóli í senn. Enn heyri ég rödd hans þegar ég hlusta á þessi verk.

(Æfing á Messíasi)
Þið syngið eins og englar … en englarnir vilja líka hafa fjör!

(Æfing á Te deum Dvoráks)
Róbert átti auðvelt að að laða það besta fram í sínu fólki og fá það til að gefa sig tónlistinni á vald, hvort sem í hlut áttu áhugamenn í kórnum eða þjálfaðir einsöngvarar. Guðmundur Jónsson söng barýtonhlutverkið í De deum Dvoráks. Eitt sinn á æfingu sneri Róbert sér að kórnum með glettnisglampa í augum og sagði: “Vinir mínir, þið vitið að Dvorák samdi þetta fyrir hann Guðmund”. Á eftir varð túlkun Guðmundar svo innileg að auðvelt var að trúa því að svo hefði verið.


Baldur Sigfússon
Félagi frá upphafi og til vors 2010. Formaður 1988-1992

Úr grein Baldurs Sigfússonar í tónleikaskrá árið 2000. Baldur var virkur félagi í söngsveitinni frá upphafi og til vors 2010:

Eldsálin og aðaldriffjöður þessa var vel menntaður, reyndur og afar hæfileikaríkur tónlistarmaður, doktor Róbert Abraham Ottósson, sem stjórnaði síðan kórnum, Söngsveitinni Fílharmóníu, nær óslitið til dauðadags. Er mér til efs að ég eigi nokkrum mér óvandabundnum meira að þakka en þessum, að beina mér á þessa braut nema ef vera skyldi þeim ágæta lækni, sem hefur gert mér kleift að syngja áfram!

Bjart er yfir minningunum frá þessum fyrsta vetri með Söngsveitinni. Andi frumherja ríkti, sem leiðbeinendum og hinum eldri í kórnum veittist létt að glæða, og verkið var með afbrigðum skemmtilegt og veraldlegt í hæsta máta. Hef ég oft brosað í kampinn að klókindum dr. Róberts að hefja starfið á þennan hátt – hann stefndi á önnur og torsóttari mið, sem ég er ekki viss um að hann hefði fengið hin yngri og óreyndari okkar út á, svona í byrjun. Að minnsta kosti fannst okkur sumum næsta verkefni, Þýsk sálumessa eftir Brahms, æði þung og frábrugðin í fyrstu, en ekki varð aftur snúið – við vorum ánetjuð! Þetta verk varð mér hins vegar, ásamt Sálumessu Mozarts, einna kærast allra þeirra sem ég hef tekið þátt í með söngsveitinni.


Elín Konráðsdóttir
Kórfélagi 1967 – 2011

Það var að vorlagi 1969 að kvíðin 17 ára stúlka fór á Hjarðarhagann að áeggjan vinkonu sinnar og bankaði upp á hjá Róbert og Guðríði til að láta prófa sig í Söngsveitina Fílharmóníu. Þá var fátt um blandaða kóra til flutnings á stórum kórverkum í Reykjavík, eiginlega bara Fílharmónía og Pólýfónkórinn, auk Þjóðleikhússkórsins, en hann var ætlaður atvinnusöngvurum. Í stofunni hjá þeim hjónum voru fyrir fáeinir karlar, ungir og eldri, í sama tilgangi og lét Róbert þetta fólk syngja nokkra tónstiga saman og eitthvað fleira, en lítið heyrðist í feimnu stúlkunni innan um þrumubassana. Róbert lét hana því sitja eftir þegar hinir voru búnir að ljúka sér af til að heyra í henni í einrúmi. Hún gat stunið upp að hún hefði nú yfirleitt sungið alt í skólakórum, kæmist þó ekki sérlega langt niður. Róbert kærði sig kollóttan og keyrði stúlkuna upp úr öllu valdi í tónstigum. Síðan vildi hann heyra hana syngja eitthvert lag og til að reyna að koma ár sinni betur fyrir borð við þýskættaðan söngstjórann stakk hún upp á Die Forelle við lag Schuberts, en ljóðið hafði hún verið látin læra í þýskutímum í MR nokkru áður. Stúlkan slakaði þá loksins á og þau skemmtu sér bæði konunglega við þennan söng og reyndar komst hún að því síðar að Guðríður sem var svo sannarlega hægri hönd manns síns við kórreksturinn hafði lagt við hlustirnar frammi á gangi. Þegar öllu er á botninn hvolft má kannski segja að það hafi verið fyrir tilstilli Guðríðar og Ólafs Hanssonar þýskukennara að stúlkutetrið komst inn í kórinn sem varð hennar griðarstaður í 42 ár eftir það.

Upphitun

Missa solemnis Beethovens er ekkert áhlaupaverk og liggur til dæmis mjög hátt fyrir sópran. Í raun hafa sumir hámenntaðir tónlistarmenn talið það á mörkum hins sönghæfa. Þó minnist ég þess ekki að söngvari væri fenginn til að hita kórinn upp á almennum æfingum, en sem ungur nýliði var ég bæði send í fáeina einkatíma hjá Snæbjörgu Snæbjarnar og ásamt fleiri konum til Hönnu Bjarnadóttur í raddþjálfun. Þetta var ómetanleg þjálfun fyrir byrjandann. Róbert hitaði kórinn hins vegar sjálfur upp og til þess að smala fólki inn í salinn hóf hann yfirleitt upphitunina á valsi við þennan skondna texta:

Hann Þórarinn kenndi mér þennan vals,
það var eftir hööönum (þ.e. honum)
og aldrei skal ég eiga þann mann
sem ekki kann að dansa hann.

Tra, la la …


Gerður G. Bjarklind
Kórfélagi 1966-1990

Ég var smá stelpustrá þegar ég man eftir Róberti, í síða frakkanum með stóru leðurtöskuna sína, að mér fannst, á götum í Vesturbænum og vissi að þessi maður var útlendingur. Mér fannst hann alltaf vera í þungum þönkum, en varð alltaf brosmildur við okkur börnin, þegar hann var búinn að koma þönkum sínum á sinn stað í heilanum. Við börnin vorum sannfærð um það að hann væri ekki Íslendingur, því hann var alltaf svo kurteis við okkur.

Þegar ég var komin til vits og ára langaði mig að læra kórsöng hjá honum, en var feimin við að hringja í hann. Ég hafði heyrt um Söngsveitina Fílharmoníu, vissi að þar var alvörumaður á tónlistarsviðinu á ferð. Var feimin að hringja, en átti hauk i horni. Jóhannes Arason útvarpsþulur hringdi í dr. Róbert, sem bað mig að koma síðar á heimili þeirra Guðríðar. Leiðin var ógleymanleg, sökum kvíða, en hann hvarf um leið og ég hitti hjónin. Í stofu var flygill sem mæstró settist við og bað mig að syngja lag, sem ég man ekki lengur hvað var, en krafturinn sem fylgdi honum, varð til þess að ég slakaði á. Þegar ég var búin að reyna mitt, opnaði hann dyrnar og kallaði: Guðríður hlustaðu… og ég söng aftur lagið og skala. Þegar ég var búin, var Anna María Þórisdóttir næst til hans. Ég gat lítið talað við hana þá. Áttum við síðar gott samstarf sem sópranar í kórnum um margra ára skeið.

Róbert var kröfuharður en mjög góður kennari.  Þessir tímar í Söngsveitinni Fílharmóníu líða mér aldrei úr minni, söknuður mikill, en um leið ánægja að hafa kynnst vinnubrögðum þessa frábæra og gáfaða mannvinar, sem hann sannarlega var.

Oft þegar ég kom í heimsókn til þeirra hjóna síðar meir, var ekkert skemmtilegra en þegar hann spilaði á flygilinn. Það var unun að hlusta á hann tala íslenzkuna er hann var að segja frá. Þar þvældust ekki orð fyrir honum, manninum sem rúmlega tvítugur lærði íslensku, svo vel að af bar.

Við misstum þennan máttarstólpa tónlistarinnar alltof fljótt. Aðeins 62 ára að aldri andaðist hann árið l974. Róberts A. Ottóssonar verður ætíð minnst sem ógleymanlegrar manneskju. Blessuð sé minning hans.


Guðrún Einarsdóttir
Nágranni á Hjarðarhaga 29

Punktar eftir Guðrúnu Einarsdóttur, nú Tjarnarmýri 41, Setljarnanesi.

Ég og fjölskylda mín kynntumst Róbert og fjölskyldu hans árið 1961 er við fluttum að Hjarðarhaga 29 og ekki er hægt að minnast á Róbert án þess að geta fjölskyldu hans, Guðríðar konu hans og sonarins Tuma og tengdaforeldranna Magnúsar og Ásdísar.

Fjölskylda Róberts á Íslandi umvafði hann væntumþykju og virðingu. Og við hjónin á neðstu hæð urðum öll ein fjölskylda, bæði í gleði og sorg.

Við lærðum fljótlega að við þurftum að átta okkur á hvað Róbert var að gera.  Ef það voru væntanlegir tónleikar þá sá hann engan, gekk um húsið eða á gangstéttinni með músikina í huganum. Þá ávarpaði maður ekki Róbert, en á öðrum tímum var hann glaðlegur og vildi tala við okkur. Við lærðum að taka tillit til hans og virða hæfileika hans.  Þegar ég fór á tónleika í Háskólabíó hjá Róbert gerði ég mér grein fyrir hversu stórkostlegurtónlistarmaður Róbert væri.

Daglegt amstur var ekki Róberts sterka hlið, eins og reikningar og það sem upp kom vegna reksturs heimilis, en hann var heppinn því Guðríður sá um alla slíka hluti.  Einn daginn var ákveðið að ráðast á aðalvígi Róberts, loksins átti að mála stofu hans.  Hann brást fremur illa við og hótaði að fara að heiman, pakkaði ofan í töskur og labbaði út.  En það leið ekki á löngu að hann kom heim aftur en tilkynnti þá að þau fengju aldrei aftur að mála hans stofu og það var heldur ekki gert.

Myndin er tekin á 60 ára afmælis Róberts.


Sr. Gunnar Björnsson

Það var happafengur íslenskri þjóð þegar ágætir tónlistarmenn þýskir stukku að heiman frá sér fyrir ófriði og settust hér hjá okkur vestur í hafinu. Þeir, sem þá voru að vaxa úr grasi, urðu þar með fyrstu börnin á Fróni til þess að njóta skipulegrar tilsagnar í tónlist. Þetta voru hámenntaðir menn og þar eftir háttvísir; þeir heilsuðu ófrávíkjanlega og kvöddu með handabandi og báðu ævinlega að heilsa.

Þótt þeir dr. Edelstein töluðu einlægt móðurmálið sín í milli, þegar fundum bar saman t.d. í Barnamúsíkskólanum, þá var Róbert Abraham framúrskarandi íslenskumaður. Landar máttu hafa það, að hann leiðrétti þá alveg miskunnarlaust, ef þeim varð á málvilla í munni.

Sérkenni dr. Róberts var rjúkandi tóbakspípa, sem hann tók helst ekki út úr sér, nema hann mætti til. Aldrei vissi ég hann gengi sig til ljósmyndara, að hefði ekki pípuna með á myndinni. Hann var einn fyrstu hérlendra manna til þess að koma sér upp stresstösku. Að sögn var ekkert í töskunni utan Grallarinn, reykjarpípa til skiptanna, tóbakspungur, pípuhreinsarar, eldspýtustokkur og áhald af málmi, ætlað til þess að troða glóðinni lengra niður í kónginn.

Faðir dr. Róberts, tónlistarfræðingurinn Ottó Abraham í Berlín átti páfagauk sem hafði absólut heyrn. Ef blístruð var fyrir hann til dæmis byrjunin á Örlagasinfóníunni í vitlausri tóntegund, segjum heiltón neðar, þá einfaldlega brjálaðist fuglinn – og var lengi að jafna sig.

Hvað skyldi dr. Róbert hafa sagt, – sem sjálfur hafði alfullkomið tóneyra, – eða öllu heldur hvað skyldi hann hafa hugsað, þegar hann, sem alla ævi hafði engu öðru sinnt en æðri tónlist, þurfti í guðfræðideild Háskólans að fara að kenna að tóna præfatíuna og pota ögn á orgel rígfullorðnum mönnum ofan úr sveit, sem ekki tóku mark á neinu nema hlaðvarpaspekinni heima hjá sér, og að hinu leytinu hálflaglausum, hvarflandi unglingum af götum Reykjavíkur sem ekkert vissu í sinn haus?

Einn fáráður stúdent skrifaði undir handleiðslu dr. Róberts sérefnisritgerð um ,,díatóníska módúlasjón“ og kóklaðist af því tilefni vikulega heim til hans vestur á Hjarðarhaga vetrarlangt. Þar skartaði orgel síra Bjarna Þorsteinssonar í Siglufirði og þar var komumanni unninn góður beini. Að undirlagi dr. Róberts veitti Háskólinn þessum stúdent að loknu embættisprófi verðlaun ,,fyrir tónlistrænt framlag til guðfræðideildar“ trúlega mest fyrir það að hann hafði stundum verið að bera sig að klóra í nóturnar á orgelinu upp á sönglofti háskólakapellunni (kaffistofa núna). Sjálfur hlaut dr. Róbert stúdentastjörnuna, viðurkenningu fyrir afrek á sviði vísinda og fræða og bar öllum saman um það, að hann hefði verið mjög vel að henni kominn.

Þegar músíkin var annars vegar, var dr. Róbert allra manna kröfuharðastur við sig og aðra. Hann var með afar hýru bragði hversdagslega, og þó gat stundum brostið á ægilegt óveður í heitri lund hans. En fáir hefðu undirbúið stúdentamessurnar 1. desember með jafn mikilli hind og hann, eða þá Skálholtshátíðina. Sinfóníuhljómsveitin hélt um þessar mundir tónleika sína í Þjóðleikhúsinu og einu sinni var 5. sinfónía Beethovens á efnisskránni. Dr. Róbert hikaði ekki við að slá af hið fræga upphaf, vegna þess að honum líkaði einhvern veginn ekki flutningurinn, og síðan var bara byrjað aftur; trúlega nálægt því einsdæmi. Á aftasta púlti í cellósveitinni sat drengur milli tektar og tvítugs, lítill fyrir mann að sjá, og varð hnípinn þegar búið var og fólkið tók að klappa; fór strax að sakna þessarar óviðjafnanlegu fegurðar.

Svo flutti hljómsveitin í Háskólabíó og allir luku upp einum munni um það, að þetta væri nú meiri gasalegi munurinn á hljómburði (dálítið eins og talað hefur verið um nýja tónlistarhúsið við höfnina að undanförnu). Þar stjórnaði dr. Róbert 9. sinfóníu Beethovens með þáttöku Söngsveitarinnar Fílharmóníu. Það var mikil stund og verður löng minning þeirra, sem þar voru nær. Þegar einsöngvararnir sungu “alle Menschen werden Brüder wo dein sanfter Flügel weilt“ óskuðu sumir þess, að tíminn stæði kyrr og hætti að líða.


Halldóra M. Halldórsdóttir og Heiðar Þ. Hallgrímsson
Kórfélagar um árabil

Dr. Róbert hafði sérstaklega lifandi persónuleika, var skapheitur, en einnig ákaflega ljúfur maður og mikið góðmenni sem mátti ekkert aumt sjá. Hann lagði mikla áherslu á að vekja athygli okkar á snilldarstöðum í tónlistinni. Var auðséð að hann var sjálfur gráthrifinn og hrifning hans smitaðist yfir til okkar á þann veg að það er enn ljóslifandi í huga okkar.  Hér eru tvö dæmi:

  • Sálumessa Brahms, 2. kafli. Á mótum hins fagra en drungalega inngangskafla sem fjallar um forgengileika mannsins (Denn alles Fleisch es ist wie Gras …..) og gleðiboðskap fúgunnar (die Erlöseten des Herrn ..) kemur þessi áhrifamikla tenging eftir smá þögn, í fortissimo: ABER, das Herrn Wort bleibet in Ewigkeit !!!  Þetta “Aber”  er hinn áhrifamikli staður sem dr. Róbert var svo hrifinn af.
  • Requiem Verdis, lok Dies irae-kaflans. Eftir reiðikaflana koma hinir stórfenglegu dúett- og einsöngskaflar, og áhrifamiklu og fögru kórkaflar sem fjara smátt og smátt út, en þar sem öllu virðist vera lokið og hljómsveitin ein „raular“ lágt vaknar allt í einu kórinn til lífsins með ákaflega tilkomumikinn langan tón „AMEN“, fyrst crescendo, svo diminuendo, í nýrri tóntegund, síðan strax á eftir kemur hljómsveitin inn í annarri tóntegund með langan lokatón, sem deyr hægt út. Dr. Róberti fannst þessi óvæntu tóntegundaskipti mesta músíkalsta snilldin, þau skerptu auk þess á þeirri tilfinningu að verið væri að biðjast fyrir.

Mynd: Söngsveitin á öðru starfsári, veturinn 1960-61 á æfingu í Barnamúsíkskólanum í Iðnskólanum þar sem æfð var Þýsk sálumessa Brahms

Hann lagði einnig mikla áherslu á hvernig kórinn bæri sig við flutning verka þannig að góður sómi væri að. Kórinn átti að standa upp og setjast niður sem einn maður væri og auðvitað ætti alltaf að horfa á stjórnandann.

Það sem okkur er einnig mjög minnisstætt er hve mikla áherslu hann lagði á að fólk hreyfði sig ekki í takt við tónlistina og sagði við það tilefni: Hvernig haldið þið að það sé fyrir áhorfendur að horfa á 120 manna kór allan á hreyfingu þegar njóta á tónlistar?

Við hjónin erum mjög þakklát og teljum okkur vera mjög lánsöm að hafa sungið undir stjórn Dr. Róberts þessi ár, allt fram til hans ótímabæra dauðadags.

Einnig finnst okkur að hafa beri í huga að þrátt fyrir hans stóra skap sýndi hann kórnum mikla þolinmæði þar sem gott tónlistarnám var ekki svo algengt á þessum árum eins og nú er, ekki allir læsir á nótur og ekki mikil almenn tónlistarkunnátta.


Hörður Áskelsson
organisti og kórstjóri

Róbert A. Ottósson hafði meiri áhrif á starfsferil minn en nokkur annar. Hann tók mig undir arm sinn á okkar fyrsta fundi, sem var við inntökupróf mitt í Tónlistarskólanum í Reykjavík, ég var ekki orðinn tvítugur, uppreisnargjarn unglingur með sítt hár, lagði fyrir mig plan um hvernig ég skyldi haga námi mínu, ég efaðist ekki eitt augnablik um þá stefnu sem það þjónaði og fór eftir því í einu og öllu. Hann innlimaði mig strax í innsta hring sinna lærisveina, kenndi mér kórstjórn, hljóðeðlisfræði, litúrgísk fræði, messuspil o.fl. og féll frá aðeins 6 mánuðum eftir að fundum okkar bar fyrst saman. Þá var hann búinn að marka mér þá braut, sem ég enn er á. Seinna átti ég eftir að sitja í tveimur af hans helstu embættum, lektorsstöðu í litúrgískum söngfræðum við H.Í. og Söngmálastjóraembætti þjóðkirkjunnar. Sú mynd sem margir eiga af Róbert sem eldhuga, hugsjónamanni, tónlistarfræðingi og ástríðufullum unnanda tónlistar er í mínum huga lifandi, skýr og sönn. Gleðilegt er að Fílharmonía geri minningu hans svo falleg skil.


Ingibjörg Björgvinsdóttir
Stofnfélagi

Nokkur minningabrot um Róbert og tilvitnanir í orð hans:

„Tónninn er þráður og tónninn verður vera á honum miðjum, hvorki í neðri eða efri hliðum hans“.

„Þið verðið að koma inn öll eins og skot. Ekki of seint og ekki of snemma, já bara á slaginu“.

„Þið hafið ekki járnbraut en þetta blessaða land eigið þið. Hér má allt segja sagði hann sem flúið hafði hingað og gaf okkur Íslendingum svo mikið.“

„Við sópranar fengum raddkennslu og þjálfun hjá vel menntuðum söngvurum, Maríu Markan, Snæbjörgu Snæbjarnar, Engel Lund, Guðrúnu Þorsteins og fleirum. Þökk sé þeim öllum.“

,,Eitt sinn þegar hann var að æfa í Háskólabíói sneri hann sér við eins og í leiðslu og horfði út í salinn og sagði: Hann Beethoven er hér.“

„Það tók dálítinn tíma að fá birtu og hlýju í tóninn í Messíasarkaflanum Barn er oss fætt og sonur gefinn þar til hann sagði : Hugsið ykkur að þið hafið sjálf eignast barn“.

„Hann hrópaði á góðum stundum þegar vel gekk: Bravó bravissimo.”


Kristín Birgisdóttir 
Nágranni á neðstu hæð að Hjarðarhaga 29

Þegar ég hugsa til Hjarðarhaga 29 og þessarar skemmtilegu fjölskyldu sem átti heima fyrir ofan okkur, man ég alltaf fyrst eftir aðfangadegi.  Í minningunni finnst mér að við höfum oftast verið komin langt með undirbúning hátíðarinnar. Þá birtust Ingólfsdæturnar,  byrjuðu að syngja fyrir utan húsið og ein þeirra hélt ávallt á lukt með kerti í. Þegar við urðum þeirra vör, var hlaupið til og millihurðin opnuð svo við gætum heyrt allan sönginn. Þá byrjuðu jólin hjámér, þótt kirkjuklukkurnar hefðu ekki enn hringt þau inn.

Myndin er tekin á 60 ára afmæli Róberts.


Magnús Jóhannsson
Kórfélagi um árabil og formaður 1993-1996

Ég gleymi aldrei þeirri stundu þegar ég stóð í stofunni heima hjá Róbert Abraham og prufusöng fyrir inngöngu í Söngsveitina Fílharmóníu. Ég var 18 ára og skalf á beinunum. Ég kunni ekkert að syngja en hafði lært nótnalestur í Lúðrasveit verkalýðsins. Nú stóð ég fyrir framan þennan merkilega mann og tók próf. Róbert var ákaflega þægilegur maður og eftir nokkra umhugsun tók hann mig inn í kórinn.

Það er einhvern veginn þannig að tónverkin sem maður æfði með Róbert lærði maður fyrir lífið og öðlaðist dýpri skilning á þeim en hjá öðrum stjórnendum; að þeim öllum ólöstuðum. Það eru engin smá forréttindi að hafa lært undir stjórn hans verk eins og Þýska sálumessu Brahms, níundu Beethovens, Sálumessu Mozarts og Messías eftir Händel.

Maður bar takmarkalausa virðingu fyrir manni eins og Róbert. Hann var einstakt ljúfmenni en hafði vissulega skap. Einstaka sinnum, einkum fyrstu árin, missti hann móðinn þegar allt gekk venju fremur illa, sagðist vera hættur og aldrei vilja sjá okkur framar, rauk á dyr og skellti jafnvel hurðum. En það brást að sjálfsögðu aldrei að eftir fáeinar mínútur kom hann aftur inn skælbrosandi, búinn að kæla sig niður og tilbúinn að halda áfram verkefninu sem var honum svo mikilvægt.

Maður skynjaði á hverri einustu æfingu hve vel menntaður og mikill tónlistarmaður Róbert var. Hann var jafnframt ljúfmenni og mannvinur. Þess vegna var það svo að sárindin voru djúp í garð þeirra hljómsveitarmeðlima sem manni fannst ekki sýna Róbert tilhlýðilega virðingu á æfingum.


Matthías Jóhannessen
skáld og ritstjóri

Matthías Jóhannessen: Úr minningargrein 1974, glefsur:

Róbert A. Ottósson var óvenju hlýr maður og nærgætinn, en kröfuharður og allt að því miskunnarlaus fyrir hönd  listar sinnar. Það sem Róbert A. Ottósson hugsaði, átti ekki aðeins rætur í kaldri rökhyggju, heldur einnig og ekki síður hlýju og stóru hjarta.


Ragnar Árnason
kórfélagi um árabil. Formaður í fimm ár.

Ég hygg að flestir sem sungu undir stjórn dr. Róberts kannist við hann slá af og spyrja hvasst: ,,Getið þið sungið í takt?“

Dr. Róbert stjórnaði fyrstu tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í mars 1950. Bæði á undan og eftir mun hafa verið löng barátta fyrir að koma henni á laggirnar, þaðan er líklega sagan af afgreiðslu Alþingis á tillögu um fjárveitingar til SÍ við 2. umræðu til fjárlaga árið 1951: Nafnkall var viðhaft: Ólafur Thors (S): ,,Því miður nei¨. Næstur í stafrófsröð Páll Zóphaníasson (F): ,,Með ánægju nei“.

Á raddæfingu í Melaskóla á Missa Solemnis útlistar dr. Róbert rækilega fyrir bössum hvernig syngja skyldi, líklega langa fúgu og erfiða, sem í því verki er nóg af; segir svo: Jæja syngið þið nú þetta piltar mínir, hver um sig sinn eigin Schalyapin“. Og þeir lögðu sig fram.- Nú man ég ekki hvort það var við þetta tækifæri eða eitthvað annað í sama verki sem dr. Róbert slær af og segir: ,,Sparið ykkur! Sparið ykkur eins og samansaumaðir Framsóknarmenn!“  (Schalyapin var rússneskur óperusöngvari)

Dr. Róbert beitti ýmsum klókindum til að menn ofþreyttust ekki á æfingum, t.a.m. segja frá einhverju sem tengdist tónlistinni. Verið var að æfa Missa Solemnis. Verður málhvíld hjá dr. R., segir þá Egill Bjarnason nokkuð hvatskeytlega: ,,Bókstaf E, var það ekki? (Egill var röskleikamaður og góður söngvari, vildi komast áfram) en dr. Róbert lét ekki slá sig út af laginu og hélt frásögn sinni áfram eins og ekkert hefði ískorist.

Um 1970 var það venja í Háskólabíó, að á mánudagskvöldum voru sýndar eldri kvikmyndir sem markverðar höfðu þótt, en ekki í annan tíma og aðeins einu sinni. Eitt mánudagskvöld vantar ónefndan tenór á raddæfingu. Það var norðangarri er æfingu lauk og ók ég dr. Róbert heim á Hjarðarhagann. Er við ókum um Melatorg sjáum við tenór þennan koma úr Háskólabíó og hraða sér yfir torgið. Næsta miðvikudagskvöld er tenór þessi svo mættur á æfingu. Dr. Róbert heilsar honum kumpánlega: ,,Blessaður og sæll! Var gaman í bíó á mánudagskvöldið?“  Fátt varð um svör.

Á myndinni eru Sigurður Þórðarson formaður 1966-1969, Aðalheiður Guðmundsdóttir formaður 1960-1962, Dórothea Einarsdóttir formaður 1983-1987 og Ragnar Árnason


Selma Samúelsdóttir
Kórfélagi um árabil

Svohljóðandi kveðja barst Söngsveitinni:

Í Hörpubyrjun, sumardaginn fyrsta, 19. apríl 2012

Söngsveitin Fílharmónía, elsku kórinn minn.

Mig langar að þakka ykkur öllum, hér í kvöld í Langholtskirkju og 21. apríl í Skálholtskirkju, fyrir að heiðra minningu mikils manns á aldarafmæli hans;  guðföður kórsins okkar, hans Róberts Abraham.

Ég er svo glöð yfir að kórinn okkar allra, sem höfum verið svo lánsöm að fá að syngja í honum, skuli enn starfa af fullum krafti. Megi Söngsveitin Fílharmónía um öll ókomin ár halda áfram að lifa og endurnýjast og syngja og starfa í anda Róberts. Guð blessi minningu hans og Guðríðar konu hans. Með þökk og virðingu, ykkar Selma Samúelsdóttir.


Sr. Sigfinnur Þorleifsson

Róbert Abrahan Ottósson var kennari minn í Guðfræðideild Háskóla Íslands á árum 1968–1973. Hann gerði  miklar kröfur, sérstaklega til þeirra sem kunnu eitthvað fyrir sér. Okkur sem vorum getulítil fagnaði hann alltaf eins og glataða syninum heimkomnum með mikilli uppörvun. Hann átti það til að rjúka út úr tíma ef honum mislíkaði eitthvað. Guðríður kona hans sagði mér síðar að þá hafi hann iðulega farið út og gengið spölkorn og hringt síðan í sig og fengið nauðsynlega útrás. Síðan mætti hann aftur glaðbeittur í tíma og hélt kennslunni áfram.

Ég mætti til hans heima hjá honum í Hjarðarhaga til að æfa messuflutning. Ég sagðist vera laglaus og bað um að fá að lesa textann í stað þess að tóna enda stóð í reglugerð:
“Nú er stúdent ekki söngvinn og er hann þá undanþeginn því að tóna.”
Þá spurði Róbert: “Keyrirðu bíl?”
Ég kvað já við því.
“Hvernig ferðu að þegar þú skiptir um gír?”
“Nú ég bara stíg á kúplinguna og skipti” sagði ég.
“Horfirðu á hraðamælinn”, spurði hann?
“Nei” sagði ég.
“Hvað gerirðu þá?”
“Nú ég heyri það á vélarhljóðinu hvenær er kominn tími til að tengja.”
“Gott”, sagði meistarinn, “þú ert músíkalskur”.

Að þessu loknu kallaði hann á Magnús tengdaföður sinn sem bjó á heimilnu, ljúfan og hjartahlýjan mann. Hann sagði við Magnús: Eigum við ekki að taka Sigfinn inn í félagsskapinn okkar SSM? Magnús, sem Róbert sagði vera formann félagsins, tók því fagnandi. Ég spurði hvað SSM stæði fyrir. Magnús svaraði af lítillæti: Samtök sjálfumglaðra mikilmenna.  Ég fylltist sjálfstrausti. Síðan fékk Róbert mér Morgunblaðið og bað mig um að tóna forystugreinina. Tónlagið var tonus simplex og þó textinn á þeim tíma væri öngvir Davíðssálmar þá svínvirkaði aðferðin.


Sigrún Steingrímsdóttir
Kórfélagi um árabil

Róbert Abraham er mér í barnsminni, bæði sem Kórstjórinn með stóru k-i en líka sem fjölskylduvinur. Hann var í vinfengi við föður minn, Steingrím J. Þorsteinsson, en ekki síður við móðursystur mínar, Hildi og Gúsí en Gúsí var söngkona  og -kennari og þau Róbert höfðu mikið saman að sælda. Ég hitti hann því oft í matar- eða kaffiboðum hjá frænkum mínum þar sem hann var ævinlega sá sem dró að sér athygli hinna. Og það var alltaf fyrir það hve ástríða hans var mikil og ást á því sem hann hafði fyrir stafni þá stundina. Ég sé til dæmis enn fyrir mér hversu innilega hann naut þess að borða síldarsalatið sem borið var fram í forrétt einhverju sinni. Það var rétt eins og hann væri að njóta mikilsháttar listviðburðar eða helgiathafnar sem hann hlyti að búa að æ síðan. Þegar allir höfðu fengið nægju sína bað hann um að fá fatið og klára úr því. Þar skóflaði hann ekki matnum upp í sig af græðgi heldur naut hans eins og síldin væri annað og miklu meira en líkamleg næring. Róbert var þarna eins og prestur fyrir altari að ljúka við messuvínið. Fullkomin virðing var borin bæði fyrir þessum merkisrétti og þeim sem skópu hann fyrir veislugesti.

Mér er líka í barnsminni þegar ég fékk, 4 ára gömul, að fara með systur minni og frænku  til Róberts en þær voru í píanótímum hjá honum. Það var einhver besta skemmtun fyrir barnið að fylgjast með og taka þátt í þeim leik sem þar fór fram. Stelpurnar spiluðu verkið sem þær höfðu æft heima en Róbert sat í stól með blómahatt á höfði. Í veika kaflanum sofnaði tónleikagesturinn með blómahattinn. Þegar fortissimóið hljómaði svo í öllu sínu veldi, eins og til var ætlast, hrökk tónleikagesturinn upp með andfælum, hatturinn af, langt út á gólf og Róbert engdist af kátínu. Hann var þarna bæði í hlutverki tónleikagests, gagnrýnanda og kennara og lifði sig algerlega inn í þau öll.

Það var líka ævintýri að syngja hjá honum í kórnum 15 ára gömul. Jafnlyndi væri ekki lýsing á skapferli Róberts en lund hans var alltaf gefandi. Ég man að mér þóttu skapsveiflur hans eðlilegar, þegar hann hljóp hringinn í kringum Melaskóla til að róa sig þegar örvæntingin ætlaði að ná tökum á honum, sópraninn skrækti á háu tónunum, við vorum að æfa Missa Solemnis, og hinar raddirnar voru litlu skárri. En oftar gladdist hann innilega yfir vel unnu starfi og bað kórinn að syngja aftur eitthvað sem vel var gert bara af því að það var svo fallegt, jafnvel þó að kóræfingu ætti að vera löngu lokið. Ég held að ég hafi ekki verið ein um þá skoðun að svona, eins og Róbert, hlytu miklir listamenn að vera skapi farnir og að þeim leyfðist það því að þeir hefðu svo mikið fram að færa.


Valdimar Örnólfsson
Stofnfélagi

Endurminning frá 1959.

Síðla vetrar 1959 kom dr. Róbert Abraham að máli við mig og bað mig um að hjálpa sér við að finna söngfólk í blandaðan kór sem hann væri að stofna í þeim tilgangi að geta flutt meiriháttar kórverk.

Ég hófst strax handa og talaði við mitt heimafólk, vini og kunningja, samkennara og nemendur mína í Menntaskólanum í Reykjavík, sem ég vissi að hefðu góðar raddir og hvatti til að koma í kórinn. Áður en langt um leið hafði ég sent dr. Róberti nálægt 20 manns í raddpróf.

Var hann himinlifandi og bauð mér heim til sín ásamt Þuríði Pálsdóttur söngkonu og Jóni Þórarinssyni tónskáldi til skrafs og ráðagerða.

Var einkum rætt um framtíð kórsins, verkefni, æfingar og raddþjálfun. Þegar kom að því að ræða um raddþjálfara fyrir söngfólkið, stakk ég strax upp á Sigurði Demetz, ég væri í söngtímum hjá honum og líkaði kennsla hans einstaklega vel. Setti þá alla hljóða! Ég fann að ég hafði hlaupið á mig. Dr. Róbert snarhætti að totta pípuna sína og sagði með sínum sérkennilega nefhljómi: “Valdimar minn, ég held við látum hana Þuríði okkar sjá um þetta”.Var það þar með útrætt mál!

Mér hafði satt að segja ekki dottið Þuríður í hug, þótt þessi glæsilega kona sæti þarna beint á móti mér. Fyrir mér var hún fyrst og fremst ein af okkar bestu söngkonum en áttaði mig ekki á því að hún var einnig afbragðs söngkennari.

Festist þessi fundur mér sérstaklega í minni vegna þessa frumhlaups míns og áhrifa þess á fundarmenn!