Best WordPress Theme based on Material Design - Materialize is a freemium WordPress theme developed by myThem.es

Verkefnaskrá 1959-1999

Hér fer á eftir skrá yfir tónverkin sem Söngsveitin Fílharmónia hefur tekið þátt í að flytja. Fram til vorsins 1987 starfaði Söngsveitin í nánum tengslum við Sinfóníuhljómsveit Íslands og voru allir tónleikarnir með Sinfóníuhljómsveitinni nema annað sé sérstaklega tekið fram. Eftir það hefur Söngsveitin starfað á eigin vegum og ráðið hljóðfæraleikara með sér eftir því sem verkefnin hafa gefið tilefni til. Stundum hafa aðrir kórar eða félagar úr öðrum kórum verið fengnir til liðs við Söngsveitina og er þess þá getið. Reynt hefur verið að gera skrá þessa sem nákvæmlegast úr garði og geta allra tónleika, frumflutnings og endurflutnings og tónleikastaðar hverju sinni. Einnig er getið um sérstakar upptökur fyrir Ríkisútvarpið.

Hér vantar upptalningu á verkefnum

Ekki er loku fyrir það skotið að Söngsveitin hafi frumflutt fleiri verk á Íslandi en einungis hefur verið merkt við þau sem vitað er um með vissu.

 

Við þessa upptalningu má bæta ýmsu:

Úr fundargerðabók aðalfundar 25. október 1964: „Margir félagar Fílharmóníu voru með er flutt voru tvö íslensk tónverk, eftir þá Pál Ísólfsson og Jón Leifs í tilefni af listahátíðinni, er haldin var þá um vorið.“

Söngsveitin tók þátt í tónleikum Landssambands blandaðra kóra árin 1968, 1978 og 1988. Árið 1968 var kórinn með eigin dagskrá en tók þátt í samsöng allra kóra hin árin.

Frá haustinu 1983 hafa kórfélagar heimsótt ýmsar heilbrigðisstofnanir og dvalarheimili aldraðra á jólaföstunni og sungið nokkur lög.  Einnig má nefna að kórinn hefur í fjáröflunarskyni sungið fyrir nokkur fyrirtæki og félagasamtök.

Nokkrir kórfélagar tóku þátt í flutningi Íslensku óperunnar á Aidu eftir Verdi árið 1987. Leitaði Íslenska óperan eftir liðsinni kórsins vegna þess að hann hafði flutt verkið árið 1982 með Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Í desember 1989 sungu um 20 kórfélagar jólalag Ríkisútvarpsins það ár, Jólaljóð eftir Leif Þórarinsson.

Nokkrir kórfélagar sungu við vígslu Jósepskirkju á Jófríðarstöðum í Hafnarfirði 3. júlí 1993. Þeir sungu einnig við messu sem sjónvarpað var beint frá kirkjunni 7. nóvember sama ár.

Um 30 kórfélagar sungu með Heimskórnum á tónleikum í Laugardalshöll 8. júní 1996. Sama ár flugu nokkrir kórfélagar til London og tóku þátt í flutningi á Messíasi „af blaði“ (Messiah from Scratch) í Royal Albert Hall þann1. nóvember.

Á þjóðhátíð, 17. júní 1994, var kórinn ráðinn til að syngja í Stekkjargjá á Þingvöllum. Hið landsfræga umferðaröngþveiti þann dag varð þó til þess að aðeins lítill hluti kórfélaga komst á tónleikastað í tæka tíð og ekkert varð úr söng.

17. júní 1997 tók Söngsveitin þátt í síðdegistónleikum í Ráðhúsi Reykjavíkur ásamt fjórum öðrum kórum.

17. júní 1998 kom Söngsveitin fram tvisvar, á sviði við Arnarhól og í Iðnó.

Nokkrir kórfélagar tóku þátt í hátíðarguðsþjónustu á Laugardalsvelli í upphafi Kristnitökuhátíðar Reykjavíkurprófastsdæma 15. ágúst 1999.

Kórinn hefur nokkrum sinnum sést í sjónvarpi, oftast í kynningarskyni fyrir tónleika en þó má geta þátttöku í auglýsingu fyrir Samband íslenskra samvinnufélaga sem birtist landsmönum um jól og áramót um árabil. Full ástæða er til að nefna upptöku á efni geisladisksins Á hæstri hátíð fyrir Ríkissjónvarpið árið 1992 og sjónvarpsupptöku fyrir Stöð 2 með Dómkórnum, Skólakór Kársness og Kvartettinum Rúdolf árið 1993. Báðir þessir þættir hafa verið sýndir oftar en einu sinni.

Margir hafa komið að söngkennslu og raddþjálfun Söngsveitarinnar Fílharmóníu þessi fjörutíu ár þótt þeirra sé ekki getið sérstaklega í tónleikaskrám fyrr en seinni árin. Þessi eru nefnd í fundargerðabókum söngsveitarinnar fyrir utan þau sem nefnd eru í listanum hér að ofan: Þuríður Pálsdóttir, Birgir Halldórsson, Engel Lund, Sigurður Markússon, Rut L. Magnússon, Guðrún Tómasdóttir, Hanna Bjarnadóttir, Snæbjörg Snæbjarnardóttir, Marteinn H. Friðriksson, Jón G. Ásgeirsson, Sigurveig Hjaltested, Ólöf K. Harðardóttir, Már Magnússon, Halldór Vilhelmsson, John Speight, Signý Sæmundsdóttir, Sigríður Ella Magnúsdóttir, Ásrún Davíðsdóttir og Sigurður Demetz Franzson.

 

Söngsveitin hefur gefið út þrjú hljóðrit: Dr. Róbert A. Ottósson in memoriam, 1979; Á hæstri hátíð, 1992 og Heill þér himneska orð, 1999. Að auki hljómar söngur kórsins ásamt Karlakórnum Fóstbræðrum og Sinfóníuhljómsveit Íslands í Alþingishátíðarkantötu eftir Pál Ísólfsson á hljómplötu sem mun hafa verið gefin út árið 1968. Loks er að geta útgáfu á tónverkinu Baldr eftir Jón Leifs árið 1992, þar sem söngsveitin syngur með Sinfóníuhljómsveit æskunnar.

 

Verkefnaskrárnar sem Anna María Þórisdóttir og Ragnar Árnason sömdu og voru birtar í 25 ára afmælisriti Söngsveitarinnar Fílharmóníu og í tónleikaskrá í tilefni af 30 ára afmælinu eru fyrirmynd og grunnur að þessari skrá. Stuðst var við tónleikaskrár en einnig fundargerðabækur og dagbækur.

 

Þórhildur S. Sigurðardóttir