Fílharmónía býður til tónleika með fallegri og ljúfri franskri síðrómantík til að ylja okkur að hausti, sunnudaginn 31. október kl. 20 í Langholtskirkju. Fluttar verða tvær messur, Messe solennelle eftir Louis Vierne og Requiem eftir Gabriel Fauré. Einsöngvarar eru Hallveig Rúnarsdóttir og Alex Ashworth, Steingrímur Þórhallsson leikur á orgel en stjórnandi er Magnús Ragnarsson.

Miðar eru til sölu hjá kórfélögum, í versluninni 12 Tónum á Skólavörðustíg og við innganginn.

Almennt verð 2800 kr. en 2000 kr. í forsölu hjá kórfélögum.

Louis Vierne var fæddur 1870 en samdi Messe solennelle 1899 þegar hann hafði tekið við organistastöðu í Notre Dame dómkirkjunni í París. Messan er í cís-moll og er skipt upp í fimm kafla, Kyrie, Sanctus, Agnus Dei, Gloria og Benedictus en trúarjátningarkaflanum, Credo, er sleppt. Fyrstu tveir kaflarnir eru mjög tignarlegir þar sem orgelið fær að njóta sín en í miðju þeirra beggja koma rólegri hlutar þar sem einstakar raddir syngja fallegar laglínur. Sanctus kaflinn er sömuleiðis mjög tignarlegur þar sem raddirnar bætast við ein í einu undir rytmískum orgelleik. Benedictus er hins vegar dularfyllri þar til Hosanna stefið úr kaflanum á undan brýst út.

Gabriel Fauré var samtímamaður Vierne, fæddur 1845. Requiem í d-moll, er hans þekktasta verk og var flutt í útför hans sjálfs 1924. Fauré notar ekki alla hina hefðbundnu sálumessukafla, og bætir að auki við In paradisum kaflanum, en sá texti kemur úr öðru messuformi. Fauré lagði megináherslu á friðarhluta sálumessunnar og hvíld hinna látnu og fyrir vikið er verkið mjög innilegt.

Söngsveitin Fílharmónía var stofnuð árið 1959 í því augnamiði að flytja stór kórverk með einsöngvurum og hljómsveit. Kórinn hefur frá stofnun haft mörg af stærstu kórverkum tónlistarsögunnar á efnisskrá sinni og flutt mörg þeirra í fyrsta sinn á Íslandi. Stjórnandi Söngsveitarinnar er Magnús Ragnarsson.