MISSA VOTIVA eftir Jan Dismas Zelenka, 20. og 23. mars 2011 í Fella- og Hólakirkju

Glæsilegt barokkverk frumflutt á Íslandi

Söngsveitin Fílharmónía flytur á vortónleikum sínum barokkverkið Missa votiva, eftir Jan Dismas Zelenka, meðBachsveitinni í Skálholti. Einsöngvarar á tónleikunum eru Marta Guðrún Halldórsdóttir, Jóhanna Ósk Valsdóttir, Gissur Páll Gissurarson og Ágúst Ólafsson. Stjórnandi er Magnús Ragnarsson.

Zelenka var fæddur 1679 í Bæheimi (núv. Tékklandi) en starfaði í Dresden, þar sem hann lést 1745. Hann var þannig samtímamaður Bach og Handel, en naut engrar viðlíka hylli meðan hann lifði. Það var ekki fyrr en um miðja tuttugustu öld að stórbrotin tónverk Zelenka voru enduruppgötvuð, og þykja nú meðal helstu perla barokktímans. Zelenka var á margan hátt framúrstefnulegur og djarfur í tónlistarsköpun sinni, verk hans bera einkenni barokktímans en sumt minnir á seinni tíma tónskáld, svo sem Mozart og Schubert. Hann vefur saman hljómsveit og kór með glæsilegum hætti og var ófeiminn við að brjóta upp formfestu barokkhefðarinnar.

Messan hljómar nú í fyrsta sinn á Íslandi. Verkið samdi Zelenka 1739 eftir margra ára erfið veikindi, hann hafði heitið sér því að semja stórbrotna messu ef hann skyldi ná heilsu. Ýmsir hafa þannig borið verkið saman við Sálumessu Mozarts, þar sem bæði verkin bera vitni hverfulleika lífs og í þeim báðum skiptast á dularfullir kaflar þrungnir trega við lotningarfulla lofsöngva. Á meðan greina má vissa örvæntingu í verki Mozarts virðist Zelenka hins vegar leggja meira traust á almættið.

Bachsveitin í Skálholti er af góðu kunn, ekki síst fyrir þátt sinn í metnaðarfullu tónleikahaldi í Skálholti, en Sumartónleikar í Skálholti hlutu nýverið Eyrarrósina, viðurkenningu sem veitt er árlega fyrir framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni. Hljómsveitin leikur á barokkhljóðfæri sem líkust þeim sem notuð voru á upprunatíma barokkverka.

Söngsveitin Fílharmónía er meðal virtustu kóra landsins og og hélt upp á hálfrar aldar afmæli síðasta vor með frumflutningi á nýju íslensku tónverki, Heimsljósi, eftir Tryggva M. Baldvinsson, sem kórinn pantaði af því tilefni. Kórinn hefur flutt í fyrsta sinn á Íslandi mörg helstu kórverk tónlistarsögunnar, svo sem Þýsku sálumessu Brahms, Missa solemnis og 9. sinfóníu Beethoven, Carmina Burana, svo fátt eitt sé nefnt.