Eins og venja hefur verið undanfarin ár mun Fílharmónía syngja tvenna sjálfstæða tónleika nú í október. Kórinn er á leið í ferð til Austurríkis næsta sumar og tónleikahald því liður í undirbúningi fyrir það ferðalag.

Tvö spennandi stykki eru á efnisskránni, annars vegar Misa Criolla eftir Ariel Ramírez og hins vegar Mariamusik eftir sænska tónskáldið Anders Öhrwall.

Eins og áður sagði verða tónleikarnir tvennir. Hinir fyrri verða 14. október í Seltjarnarneskirkju og hinir síðari hinn 15. október í Guðríðarkirkju í Grafarholti. Báðir tónleikarnir hefjast klukkan átta.

Misa Criolla (1964) er taktföst messa, sungin á spænsku og er skrifuð fyrir kór, einsöngvara og hljómsveit. Mismunandi tónlistarhefðir S-Ameríku lita verkið sem er með eindæmum einstakt og ánægjulegt áheyrnar. Einsöngvarar eru Einar Clausen, einn af okkar fremstu tenórsöngvurum, og Akureyringurinn Jón Svafar Jósefsson, barítón.

Mariamusik (1974) er eftir sænska tónskáldið Anders Öhrwall, sem er mörgum kunnur fyrir jólaútsetningar sínar, og er byggð á textum og tónlist um Maríu Mey frá 14., 15. og 16 öld. Sumir kaflarnir bera raunar sterkan keim af styrk Öhrwalls sem jólatónskálds og er á stundum nokkur hátíðarbragur yfir stykkinu, sem sungið er á íslensku. Lesari er Þorleifur Hauksson.

Tónleikarnir eru um tvær klukkustundir með hléi og almennt miðaverð er 3.500 krónur en börn undir 12 ára greiða hálft verð. Forsöluverð er 2.900 krónur og gildir það fram að tónleikadegi.

Miðar fást í 12 tónum á Skólavörðustíg, hjá kórfélögum og við innganginn.