Söngsveitin Fílharmónía nýtur þess heiðurs með Kór Áskirkju og Hljómeyki að taka þátt í flutningi á sinfóníunni Rómeó og Julía eftir Hector Berlioz á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands föstudaginn 25. maí. Tónleikarnir eru liður í Listahátíð í Reykjavík og verða í Eldborgarsal Hörpu. Í kynningu á verkinu segir svo á heimasíðu hljómsveitarinnar: „Fjöldi ógleymanlegra tónverka hefur orðið til undir áhrifum af harmleikjum Shakespeares. Eitt hið stærsta og óvenjulegasta er Rómeó og Júlía eftir franska meistarann Hector Berlioz, sem hann kallaði „dramatíska sinfóníu“. Hér er sinfóníuformið teygt í ýmsar áttir svo úr verður eins konar bræðingur hljómsveitarverks og óperu. Helstu þættir verksins eru sungnir af mezzósópran, tenór og bassa, auk þess sem Berlioz notar stóran kór í verkinu. Eitt það sem gerir nálgun tónskáldsins svo óvenjulega er þó að margir dramatískustu þættir sögunnar túlkaðir af hljómsveitinni eingöngu.“
Þar með bætist sinfónían við þau verk sem Fílharmónían frumflytur hér á landi. Fer einkar vel á því einmitt núna þegar hundrað ár eru liðin frá fæðingu Róberts A. Ottóssonar sem stofnaði kórinn og stjórnaði honum til dauðadags árið 1974. Minningu hans heiðraði söngsveitin 19. og 21. apríl sl. á tónleikunum Náttsöngur – Aldarminning Róberts A. Ottóssonar í Langholtskirkju og Skálholti. Tónleikunum 19. apríl í Langholtskirkju verður útvarpað á fæðingardegi Róberts þann 17. maí kl. 19.00