Aldarminning dr. Róberts A. Ottóssonar
Þá frumflytur Söngsveitin nýtt íslenst tónverk eftir Hildigunni Rúnarsdóttur, Náttsöng, sem samið er að beiðni kórsins til að heiðra aldarminningu dr. Róbert A. Ottóssonar, stofnanda kórsins. Nýja verkið er í fimm köflum fyrir kór, einsöngvara og orgel. Hallveig Rúnarsdóttir verður einsöngvari, Steingrímur Þórhallsson leikur á orgel og Magnús Ragnarsson stjórnar. Auk nýja tónverksins verða fluttar útsetningar dr. Róberts að sálmalögum og þjóðlögum.
Róbert Abraham kom til Íslands 1935, aðeins 23 ára. Hann var hæfileikaríkur og vel menntaður og hafði strax mikil áhrif á íslenskt tónlistarlíf.. Fyrstu fimm árin bjó Róbert á Akureyri og starfaði við kennslu, tónleikahald og kórstjórn. 1940 flutti hann til Reykjavíkur og varð strax áberandi í tónlistarlífi borgarinnar, einn af nokkrum þeim tónlistarmönnum sem komu frá Evrópu og settust hér að sem höfðu stórtæk áhrif á allt íslenskt tónlistarlíf. Róbert Abraham stjórnaði Sinfóníuhljómsveit Íslands á fyrstu tónleikum hennar í mars árið 1950. Árið 1959 átti Róbert ríkan þátt í því að stofna Söngsveitina Fílharmóníu í þeim tilgangi að flytja stór tónverk fyrir kór og hljómsveit. Stjórnaði hann fyrstu tónleikum kórsins, sem voru með Sinfóníuhljómsveitinni og Þjóðleikhúskórnum þegar hér á landi var frumflutt Carmina Burana eftir Carl Orff, í apríl 1960.
Róbert stjórnaði Söngsveitinni til dauðadags. Hann var mikill fræðimaður og varði doktorsritgerð um tíðasöng Þorláks biskups Þorlákssonar helga á Hólum, Þorlákstíðir. Þá sinnti dr. Róbert einnig ötullega kirkjutónlistarstarfi, var dósent við guðfræðideild Hákóla Íslands og var Söngmálastjóri Þjóðkirkjunnar til dauðadags.
Undir stjórn Róberts frumflutti Söngsveitin Fílharmónía mörg helstu tónverk tónlistarsögunnar á Íslandi, svo sem áðurnefnt Carmina Burana, 9. sinfóníu og Missa Solemnis eftir Beethoven, Þýsku sálumessu Brahms, Magnificat eftir Johann Sebastian Bach, Sálumessu Verdis, og mörg fleri. Söngsveitin Fílharmónía vinnur í samstarfi við Tónlistarsafn Íslands að söfnun efnis um ævi og störf dr. Róberts og verður því komið fyrir á heimasíðu sem verður kennd við og tileinkuð honum. Í tónleikaskrá verður grein Árna Heimis Ingólfssonar um Róbert, ævi hans og störf auk efnis sem fyrrum kórfélagar og vinir hafa tekið saman um kynni sín við hann.