Söngsveitin Fílharmónína tók þátt ásamt Kór Áskirkju, Hljómeyki, Stúlknakór Reykjavíkur, fleiri kórsöngvurum og einsöngvurum í tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands þar sem flutt var Hringadróttinssinfóníunni 16. og 17. febrúar sl. Óhætt er að segja að flutningurinn hafi tekist vel; Eldborgarsalur Hörpu var þéttsetinn, reyndar fullsetinn bæði kvöldin, og hljómsveit, kórar og stjórnendur hneigðu sig auðmjúklega undir dynjandi lófaklappinu sem ætlaði aldrei að linna. Aðalstjórnandi verksins var Erik Ochsner og mikil ánægja með samvinnuna við hann meðal flytjenda. Flestir hefðu viljað halda fleiri tónleika, þar sem eftirspurnin var mikil eftir miðum, en því varð ekki við komið af ýmsum ástæðum, meðal annars vegna anna erlendu listamannanna sem komu að verkefninu. Við látum okkur það vel lynda og munum minnast þessa viðburðar með þakklæti og ánægju.
——————————-
Og það er líf eftir Hringinn. Næst tekur Söngsveitin til við mikilvægt verkefni: Að heiðra minningu stofnanda kórsins, Róberts Abrahams Ottóssonar. Róbert var af þýskum ættum en flutti hingað til lands 1935 og bjó hér á landi æ síðan þar til hann lést árið 1974. Hann fæddist 17. maí 1912 í Berlín og því verða liðin hundrað ár frá fæðingu hans í maí næstkomandi. Af því tilefni mun Söngsveitin að halda tónleika í apríl, þar sem frumflutt verður nýtt verk Hildigunnar Rúnarsdóttur, sem hún hefur samið fyrir kór, sópransóló og orgel að beiðni Söngsveitarinnar. Verkið hefur hlotið nafnið Náttsöngur og er tileinkað ævistarfi og rannsóknum dr. Róberts.
Á tónleikunum verða einnig fluttar tónsmíðar og raddsetningar Róberts.
Æfingar eru þegar hafnar og það verður gaman að takast á við íslensk verk að nýju eftir að hafa verið niðursokkin í álfísku (e. elvish) undanfarnar vikur! Það er heiður fyrir Söngsveitina að minnast stofnanda síns, enda ófá verkefni sem kórinn hefur tekist á við á ríflega fimmtíu ára starfsferli.