Nú er sumar, gleðjist gumar!
Fílharmónían lauk starfsári sínu með aðalfundi þann 3. júní síðastliðinn. Veturinn hefur verið viðburðaríkur og kórinn tekist á við fjölbreytt verkefni að vanda. Tónleikar voru sex talsins en sumir voru haldnir oftar en einu sinni og kom kórinn því fram alls tólf sinnum. Í október fluttum við Maríumúsík eftir Anders Öhrwall og Misa Criolla eftir Ariel Ramirez í Seltjarnarneskirkju og Guðríðarkirkju. Í desember tók kórinn þátt í Frostrósum og söng með á fimm tónleikum sem haldnir voru í Hörpu. Ákveðið var að halda jólatónleika og fóru þeir fram í Kristskirkju þann 27. desember og var efnisskráin fjölbreytt.
Í upphafi nýs árs byrjuðu stífar æfingar á Carmina Burana eftir Carl Orff og naut kórinn aðstoðar fleiri kórsöngvara við það verkefni. Tónleikarnir fóru fram í Hörpu þann 7. febrúar og stjórnaði Hermann Bäumer kórnum og Sinfóníuhljómsveit Íslands.
Hið klassíska verk, Requiem eftir Gabriel Fauré, var flutt tvisvar: í messu á skírdagskvöld (18. apríl ) í Áskirkju og í Reykholti þann 4. maí. Þann 21. apríl hélt kórinn tónleika í Seltjarnarneskirkju undir heitinu Tíminn og vatnið og var það nokkurs konar þema tónleikanna. Hluti af þeirri efnisskrá var svo fluttur ásamt Requiem í Reykholti.
Á aðalfundinum var kosinn ný stjórn. Agla Ástbjörnsdóttir tók við sem formaður af Lilju Árnadóttur. Í aðalstjórn sitja nú Haukur Kristófersson, Edda Þöll Kentish, Þóra Harðardóttir og Harpa Ósk Valgeirsdóttir. Í varastjórn eru Þengill Ólafsson, Birna Kristín Eiríksdóttir og Guðjón Emilsson.
Fílharmónían tekur sér frí í sumar og syngur aðallega í grillveislum og útilegum 🙂
Við hlökkum til næsta starfsárs, sem bíður fullt af spennandi áskorunum og skemmtilegum tækifærum.
Gleðilegt sumar!