Söngsveitin Fílharmónía flytur eitt mesta stórvirki kórbókmenntanna, Ein Deutsches Requiem, eftir Johannes Brahms á tvennum tónleikum í Langholtskirkju dagana 25. og 26. október kl. 16. Einsöngvarar eru Kristinn Sigmundsson og Hallveig Rúnarsdóttir. Verkið er flutt í útsetningu fyrir tvö píanó og pákur. Um píanóleik sjá þær Guðríður St. Sigurðardóttir og Brynhildur Ásgeirsdóttir. Pákuleikari er Eggert Pálsson.
Ein Deutsches Requiem eða Þýska sálumessan er viðamikið kórverk og á tónleikunum telur Fílharmónía áttatíu söngvara. Í hópnum nú eru fjölmargir söngvarar sem eru svo heppnir að hafa tekið þátt í flutningi verksins áður en síðast flutti Söngsveitin Fílharmónía verkið með Sinfóníuhljómsveit Íslands í Háskólabíói vorið 2008, auk þess sem kórinn fór með verkið í söngför til Wrochlaw í Póllandi sama ár.
Verkið er afar tilkomumikið og meistaralega samið en Brahms notaðist við þýskan texta lútherskrar útgáfu Biblíunnar. Sjálfur vísaði Brahms til tónverksins sem hinnar mannlegu sálumessu vegna þeirrar áherslu sem hann leggur á að hugga eftirlifendur og segja má að tónlistin sé allt í senn, full af von og huggun þó hinn tragíski þráður sé aldrei langt undan.
Hér er um stórviðburð í íslensku tónlistarlífi að ræða sem enginn unnandi rómantískra meistaraverka má láta framhjá sér fara.
Miðasala fer fram á midi.is og við innganginn