Söngsveitin Fílharmónía þakkar liðið söngár og tekur fagnandi á móti því nýja. Haustið hófst með skemmtilegri  ferð í Mýrdalinn með viðkomu í Sögusetrinu á Hvolsvelli og Byggðasafninu á Skógum. Sungnir voru tónleikar í Skeiðflatarkirkju og tekið hús á heiðurshjónunum og fyrrum félögum þeim Guðmundi og Önnu.  Í október tók Fílharmónía þátt í fjölmennri kórahátíð í Hörpu.  Auk þess að koma fram með öðrum þátttökukórum á aðaltónleikum hátíðarinnar söng kórinn eigin dagskrá í Norðurljósum og Eldborg.  Kórinn hlaut mikið lof fyrir frammistöðu sína á hátíðinni.  Venju samkvæmt voru hausttónleikar Fílharmóníu vegleg tónlistarveisla.  Að þessu sinnu varð hátíðartónlist gyðinga, klezmertónlist fyrir valinu. Haldnir voru tvennir tónleikar í Áskirkju í nóvember með Þjóðalagasveitinni Skuggar Býsans og hinni frábæru söngkonu Ragnheiði Gröndal.  Aðsókn var góð, gestirnir ánægðir og kórinn í skýjunum. Þá hófust æfingar fyrir aðventu- og jólatónleika. Aðventutónleikarnir voru haldnir í Kristskirkju þann 12. desember og jólatónleikarnir í Háteigskirkju þann 28.desember.  Benedikt Kristjánsson einsöngvari og Sophie Marie Schoonjans hörpuleikari komu fram með kórnum í Háteigskirkju. Þau voru stórkostleg og uppskáru, ásamt kór, mikið lof tónleikagesta. Fjölmargir þeirra höfðu á orði að mikil helgi hefði verið yfir tónleikunum.
Í desember barst jákvætt svar við umsókn Fílharmóníu um þátttöku í kórakeppni og mikilli tónlistarveislu á sumri komanda í Llangollen í Wales. Félagar Fílharmóníu hlakka til keppninnar og hefja undirbúning strax í janúar.

Home