Sinfóníuhljómsveit áhugamanna undir stjórn Oliver Kentish og Söngsveitin Fílharmónía undir stjórn Magnúsar Ragnarssonar stilla saman strengi sína á tvennum tónleikum í Seltjarnarneskirkju í marsmánuði.

Efnisskrá tónleikanna er tvískipt. Fyrir hlé flytur Sinfóníuhljómsveit áhugamanna strengjaverkið “Hymni” eftir Snorra Sigfús Birgisson. Verkið er samið árið 1982 fyrir Nýju strengjasveitina. Eftir hlé munu hljómsveit og kór ásamt fjórum einsöngvurum flytja Messu í B-dúr eftir Joseph Haydn. Verkið, sem er ein af fjórtán messum eftir Haydn, var samið árið 1799 og frumflutt í september sama ár. Messa í B- dúr er jafnan kölluð Theresíumessan en það var einmitt María Theresa, eiginkonu Franz II sem söng sópran í frumflutningi verksins í Vínarborg.

Það hefur verið sagt um Theresíumessu Haydns að hún beri sterk höfundareinkenni hans og komi á óvart með skyndilegum og óundirbúnum styrkleikabreytingum og tóntegundaskiptum.

Einvalalið söngvara syngur einsöngshlutverk í verkinu en það eru þau Hallveig Rúnarsdóttir, Hildigunnur Einarsdóttir, Þorbjörn Rúnarsson og
Viðar Gunnarsson.

Konsertmeisari er Hildigunnur Rúnarsdóttir.

Eins og áður segir verða tónleikarnir tvennir. Þeir fyrri, sunnudaginn 29. mars kl. 20 og þeir seinni þriðjudaginn 31.mars kl. 20.

Báðir tónleikarnir verða í Seltjarnarneskirkju.

Miðaverð er 3000 kr í forsölu hjá kórfélögum og 3500 kr á midi.is og við inngang á tónleikadegi.