Það var nóg að gera hjá Söngsveitinni Fílharmóníu um helgina þegar fyrsta myndin í Hringadróttins-þríleiknum, The Fellowship of the Ring, var flutt í Hörpu með lifandi tónlist. Með okkur á sviðinu var stór sinfóníuhljómsveit, Hljómeyki, Skólakór Kársness og einsöngvarar, að ógleymdum stjórnandanum, Ludwig Wicki, sem hefur sérhæft sig í flutningi kvikmyndatónlistar og gerir fátt annað þessi árin en að stýra óskarsverðlaunatónlist Howards Shore um víða veröld. Eldborg Hörpu var troðfull af tónleikagestum þrjú kvöld í röð og miðað við fagnaðarlætin voru þeir frekar kátir. Það vorum við líka og förum bjartsýn inn í veturinn eftir að hafa komið hringnum eina áleiðis á áfangastað og rutt fáeinum orkum úr veginum.