FRESTUN til 18. október – Requiem eftir Verdi **uppfært: frestað áfram

Kórinn hefur ákveðið að fresta flutningi á Requiem eftir Verdi fram á haust vegna smithættu á Covid-19 veirunni. Ákvörðun var ekki léttvæg eða auðveld en okkur þótti óhjákvæmilegt að sýna ábyrgð og stefna ekki saman stórum hópi fólks, hvorki í áhorfendasætum né meðal flytjenda, eins og ástandið er.

Unnið er að því að finna nýja dagsetningu fyrir tónleikana og verður hún auglýst um leið og hún hefur verið staðfest. Ný dagsetning er 18. október kl 20:00, en viðburðurinn er óbreyttur að öðru leyti! UPPFÆRT 1.10.2020: Enn er ekki öruggt að halda tónleikana og þeir frestast því áfram um óákveðinn tíma.

Miðar sem þegar hafa verið keyptir munu færast á nýja dagsetningu. Sjái einhver sér ekki fært að nýta miðana sína þá verður að sjálfsögðu hægt að fá þá endurgreidda með því að hafa samband á info@tix.is.

Requiem eftir Verdi og fleira á vorönn

Söngsveitin Fílharmónía situr ekki aðgerðarlaus þessa vorönnina, frekar en venjulega. 28. febrúar tekur kórinn þátt í aukasýningu á Evitu í Hörpu, í samstarfi við Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og með stórkostlegum einsöngvurum. Miðasala á tix.is.

Í tilefni af sextugsafmæli kórsins flytur hann eina rómuðustu sálumessu sem samin hefur verið, Messa da Requiem eftir Giuseppe Verdi, ásamt stórri sinfóníuhljómsveit og glæsilegum hópi einsöngvara: Hallveigu Rúnarsdóttur, sópran, Hildigunni Einarsdóttur, alt, Gissuri Páli Gissurarsyni, tenór og Kristni Sigmundssyni, bassa. Konsertmeistari er Sif Tulinius og stjórnandi Magnús Ragnarsson.

Tónleikarnir verða í Langholtskirkju, sunnudaginn 15. mars kl. 17. Miðaverð er 6.800 kr., 6.000 kr fyrir börn, aldraða og öryrkja. Miðasala á tix.is. Tónleikunum hefur verið frestað til hausts – ný dagsetning verður auglýst sem fyrst.

Um páskana tekur svo við annað samstarfsverkefni með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, en þá er það 9. sinfónía Beethovens, Óðurinn til gleðinnar. Verkið verður flutt í Hofi á Akureyri á skírdag, 9. apríl, og Langholtskirkju 11. apríl. Miðasala enn og aftur á tix.is; fyrir Hof og fyrir Langholtskirkju.

Síðast en alls ekki síst tekur kórinn þátt í tónleikum Andrea Bocelli í Kórnum 23. maí – og miðar á tix.is.

Jólatónleikar 2019

Söngsveitin Fílharmónía heldur árlega jólatónleika sína í Langholtskirkju, föstudaginn 27. desember kl. 20. Einsöngvari verður Kristinn Sigmundsson og stjórnandi kórsins er Magnús Ragnarsson.

Efnisskráin verður í senn hátíðleg og fjörug; íslensk þjóðlög og sígild jólalög frá ýmsum löndum. Eftir tónleikana verður boðið upp á jólasamsöng, heitt súkkulaði og smákökur.

Miðaverð er kr 3.900 og hægt er að kaupa miða hér:

https://tix.is/is/event/9186/jolatonleikar-songsveitarinnar-filharmoniu/

Einnig er hægt að kaupa gjafabréf fyrir miðum á tónleikana með því að senda tölvupóst á songsveitin@filharmonia.is eða hafa samband í Facebook skilaboðum.

Söngur í sextíu ár – Hausttónleikar og samsöngur

Söngsveitin Fílharmóna slær upptaktinn að sextíu ára afmælisári sínu með hausttónleikum og samsöng í Seltjarnarneskirkju, laugardaginn 2. nóvember kl. 15. Flutt verða ýmis uppáhaldsverk úr sögu kórsins í bland við nýrri tónlist.

Frá æfingu á fyrsta starfsári kórsins
Á æfingu í Melaskóla á fyrsta starfári, helsta æfingastað kórsins lengi vel.
Róbert A. Ottóson fremst til hægri.

Miðaverð er 1.500 kr., miðapantanir hjá kórfélögum, með skilaboðum á Facebook, og á songsveitin@filharmonia.is, og miðasala við innganginn. Frítt inn fyrir börn og unglinga, 18 ára og yngri.

Að tónleikunum loknum verður afmæliskaffi og samsöngur í safnaðarheimili kirkjunnar þar sem við vonumst eftir að sem flestir, bæði fyrrverandi kórfélagar og aðrir gestir, taki með okkur nokkur lög og fagni tímamótunum!

Annasamt starfsár

Vetrarstarfið hefst af krafti hjá Söngsveitinni Fílharmóníu en í vetur fagnar kórinn sextíu ára afmæli sínu.

Þann 30. ágúst tók kórinn þátt í Klassíkinni okkar með Sinfóníuhljómsveit Íslands og má nálgast upptökur af þeim flutningi á vef Ríkisútvarpsins. Kórinn flutti þar meðal annars valda kafla úr sálumessu Mozarts, en Hallveig Rúnarsdóttir söng einsöng.

Þann 22. september flutti kórinn svo Níundu sinfóníu Beethovens ásamt Ungsveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands og hópi æskukóra, og í kjölfarið mun hver viðburðurinn rekja annan.

Frá flutningi á Níundu sinfóníu Beethovens
Mynd fengin af vef, og birt með góðfúslegu leyfi Sinfóníuhljómsveitar Íslands

Við hvetjum unnendur góðrar kórtónlistar að fylgjast með, hér á heimasíðunni og á Facebook-síðu kórsins, þar sem allir tónleikar verða kynntir sérstaklega, en næst á dagskrá eru hausttónleikar 2. nóvember. Auk þess erum við nú komin á Instagram þar sem birtast reglulega skemmtilegar myndir úr kórstarfinu.

Gleðilegan söngvetur!