Aðventutónleikar Söngsveitarinnar Fílharmóníu í Langholtskirkju 6. desember kl. 17.00

Árlegir jólatónleikar Fílharmóníunnar verða haldnir laugardaginn 6. desember kl. 17.00 í Langholtskirkju.

Dagskráin er af fjölbreyttum toga og spannar bæði klassísk jólalög og nýleg. Þá verður frumflutt nýtt jólalag eftir Tryggva M Baldvinsson, Alltaf þegar eru jól.

Sem áður fyrr er það fegurðin og notalegheitin sem svífa yfir vötnum á jólatónleikum Fílharmóníunnar og munu tónleikarnir ylja fólki um hjartarætur og fylla sálarró í aðdraganda jóla.

Einsöngvari er Jóhann Kristinsson og Elísabet Waage leikur undir á hörpu. Magnús Ragnarsson stjórnar

Aðgangseyrir er 3900 kr. en 2900 kr. fyrir eldri borgara og öryrkja. Frítt inn fyrir 14 ára og yngri.

Miðasala er á tix.is en einnig verða miðar seldir við innganginn.

Fílharmónía og Mandólín sameinuð á ný

Söngsveitin Fílharmónía og Hljómsveitin Mandólín leiða saman hesta sína á ný og halda tónleika í Langholtskirkju föstudaginn 10. október kl. 20.00.

Sveitirnar léku síðast saman á tónleikum í Tjarnarbíó við 2016 við frábærar undirtektir gesta og gangandi og er sannarlega kominn tími á að leikurinn verði endurtekinn.

Dagskráin er á léttum nótum en verður þó fjölbreytt og spannar allt frá íslenskum barnalögum til Klezmer-tónlistar og auk gamalla kunningja frá fyrri tónleikum.

Miðar eru seldir við innganginn og kostar 3500 kr inn en 2500 fyrir eldri borgara og öryrkja. Frítt fyrir 14 ára og yngri.

Inntökupróf verða haldin sunnudaginn 31. ágúst kl. 13.00 í Langholtskirkju

Inntökupróf fyrir Söngsveitina Fílharmóníu verða haldin sunnudaginn 31. ágúst kl. 13.00 í Langholtskirkju.
Viðburðarík dagskrá er hjá Fílharmóníunni komandi vetur. Þar má nefna hausttónleika, ásamt hljómsveitinni Mandólín; þátttöku á tónleikum Todmobile – Ég heyri raddir; og síðast en ekki síst þátttöku á flutningi “1000 manna Sinfóníunnar” eftir Gustav Mahler á Listahátíð 2026.
Kórinn getur bætt við sig nokkrum nýjum röddum og eru því öll áhugasöm eindregið hvött til þess að mæta í raddprufur.

Vortónleikar Söngsveitarinnar Fílharmóníu í Langholtskirkju 3. júní kl. 20.00

Söngsveitin fílharmonía heldur vortónleika þriðjudaginn 3. júní kl 20 í Langholtkirkju. Um miðjan júní heldur kórinn til Englands og m.a. syngja með BBC Concert Orchestra í Snape Maltings og með Imperial College Chamber Choir í London.

Á vortónleikunum mun kórinn flytja lögin sem flutt verða á Englandi, m.a. íslensk og norræn ættjarðarlög. Miðasala er við innganginn. Frítt fyrir 14 ára og yngri, öryrkja og ellilífeyrisþega.

Heimsljós í Langholtskirkju 22. mars kl 16:00

Heimsljós er kórverk fyrir blandaðan kór, 2 einsöngvara og hljómsveit. Tónverkið er skrifað sem sálumessa og hverfist um texta úr Heimsljósi nóbelsskáldsins Halldórs Laxness. Heimsljós var samið af Tryggva M. Baldvinssyni fyrir fyrir kór, einsöngvara og hljómsveit í tilefni 50 ára afmælis Söngsveitarinnar Fílharmóníu árið 2010 og frumflutt þá. Verkið fær nú að hljóma aftur í tilefni af stórafmæli tónskáldsins. Einsöngvarar verða Hallveig Rúnarsdóttir og Eggert Reginn Kjartansson. Stjórnandi er Magnús Ragnarsson.

Söngsveitin Fílharmónía er 70 manna blandaður kór og hefur verið starfandi frá árinu 1960. Kórinn hefur flutt fjölbreytta tónlist frá öllum tímabilum tónlistarsögunnar og heldur reglulega tónleika. Síðastliðið starfsár flutti kórinn Messu heilagrar Sesselju eftir Haydn ásamt einsöngvurum og hljómsveit við mikla hrifningu áheyrenda og Stabat Mater eftir Antonín Dvorák og hlaut lof fyrir. Í febrúar s.l. hélt Söngsveitin Fílharmónía tónleika með sígildri efnisskrá m.a. Sólhjartarljóði úr Óttusöngvum á vori Jóns Nordal. Í júní n.k. mun kórinn koma fram með útvarpshljómsveit BBC og flytja norræn kórverk undir stjórn Önnu-Mariu Helsing. Kórinn hefur á undanförnum misserum unnið að hljóðritunum á íslenskri kórtónlist og gefið út á helstu tónlistarstreymisveitum. Stjórnandi kórsins er Magnús Ragnarsson.

Miðasala er á www.tix.is og við innganginn.