Best WordPress Theme based on Material Design - Materialize is a freemium WordPress theme developed by myThem.es

Robert2Söngsveitin Fílharmónía var stofnuð 1960. Upphaf hennar var í félaginu Fílharmóníu sem stofnað var ári fyrr af tónlistar og áhugafólki um flutning kórverka með hljómsveit. Meðal þeirra var dr. Róbert Abraham Ottósson. Hann hefur með réttu verið kallaður ,,guðfaðir” Söngsveitarinnar. Þörf var á að stofna kór hér á landi sem tæki að sér flutning stórra kórverka með Sinfóníuhljómsveit Íslands sem hafði starfað í tíu ár.

Róbert Abraham kom til Íslands 1935, aðeins 23 ára. Hann var hæfileikaríkur og vel menntaður og hafði strax mikil áhrif á íslenskt tónlistarlíf. Fyrstu fimm árin bjó Róbert á Akureyri og starfaði við kennslu, tónleikahald og kórstjórn. 1940 flutti hann til Reykjavíkur og varð strax áberandi í tónlistarlífi borgarinnar, einn af nokkrum þeim tónlistarmönnum sem komu frá Evrópu og settust hér að sem höfðu stórtæk áhrif á allt íslenskt tónlistarlíf. Róbert Abraham stjórnaði Sinfóníuhljómsveit Íslands á fyrstu tónleikum hennar í mars árið 1950. Árið 1959 átti Róbert ríkan þátt í því að stofna Söngsveitina Fílharmóníu í þeim tilgangi að flytja stór tónverk fyrir kór og hljómsveit. Stjórnaði hann fyrstu tónleikum kórsins, sem voru með Sinfóníuhljómsveitinni og Þjóðleikhúskórnum þegar hér á landi var frumflutt Carmina Burana eftir Carl Orff, í apríl 1960.

Róbert stjórnaði Söngsveitinni til dauðadags. Hann var mikill fræðimaður og varði doktorsritgerð um tíðasöng Þorláks biskups Þorlákssonar helga á Hólum, Þorlákstíðir. Þá sinnti dr. Róbert einnig ötullega kirkjutónlistarstarfi, var dósent við guðfræðideild Hákóla Íslands og var Söngmálastjóri Þjóðkirkjunnar til dauðadags.

Undir stjórn Róberts frumflutti Söngsveitin Fílharmónía mörg helstu tónverk tónlistarsögunnar á Íslandi, svo sem áðurnefnt Carmina Burana, 9. sinfóníu og Missa Solemnis eftir Beethoven, Þýsku sálumessu Brahms, Magnificat eftir Johann Sebastian Bach, Sálumessu Verdis, og mörg fleri.

 

Í tónleikaskrá Söngsveitarinnar Fílharmóníu 19. og 21. apríl er yfirlitsgrein eftir Árna Heimi Ingólfsson um ævi og störf Róberts og einnig birtist grein um hann í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins 14. apríl 2012 eftir Lilju Árnadóttur:

Þegar ég gerðist félagi í Söngsveitarinni Fílharmóníu höfðu liðið fimm ár frá því Róbert féll frá. Andi hans sveif ennþá yfir vötnum og gjarnan til hans vitnað.

Auðvelt var að skynja virðinguna, sem borin var fyrir honum.

Það skapaðist nýtt tækifæri að kynnast snillingnum Róbert við undirbúning tónleikanna Náttsöngur – Aldarminning Róbert A. Ottóssonar í vetur. Samtöl við fyrrum kórfélaga leiddu í ljós svo ekki var um villst hversu flinkur, hæfileikur og vel menntaður hann var. Fjölhæfur mannvinur, sem miðlaði af örlæti og þekkingu til allra sem til hans leituðu. Það átti við lærða og leika, börn og fullorðna. Stjórnandinn hafði fullkomið vald á að þjálfa upp og kenna fólki bæði að hlusta, njóta og taka þátt í metnaðarafullum tónlistarflutningi. Hann markaði djúp spor í íslenskt menningarlíf á mikilvægu þroskaskeiði þess.

Hér á síðunni má finna sögur og tilvitnanir kórfélaga sem leitað var til og fúsir voru til þess að leggja okkur lið við að draga upp eftirminnileg atriði og augnablik úr minningasjóð sínum.

Það er hollt að gera sér grein fyrir hverju skarpgreindur, víðsýnn og fjölmenntaðir mannvinur kom til leiðar á seinni hluti síðustu aldar á Íslandi við aðstöðu, sem ekki þætti boðleg í dag. Árangurinn í tónlistarlífinu, sem við njótum daglega árið 2012, er m.a. til kominn fyrir störf manna á borð við dr. Róbert Abraham Ottósson.

Lilja Árnadóttir, maí 2012