Vetrarstarfið hefst af krafti hjá Söngsveitinni Fílharmóníu en í vetur fagnar kórinn sextíu ára afmæli sínu.

Þann 30. ágúst tók kórinn þátt í Klassíkinni okkar með Sinfóníuhljómsveit Íslands og má nálgast upptökur af þeim flutningi á vef Ríkisútvarpsins. Kórinn flutti þar meðal annars valda kafla úr sálumessu Mozarts, en Hallveig Rúnarsdóttir söng einsöng.

Þann 22. september flutti kórinn svo Níundu sinfóníu Beethovens ásamt Ungsveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands og hópi æskukóra, og í kjölfarið mun hver viðburðurinn rekja annan.

Frá flutningi á Níundu sinfóníu Beethovens
Mynd fengin af vef, og birt með góðfúslegu leyfi Sinfóníuhljómsveitar Íslands

Við hvetjum unnendur góðrar kórtónlistar að fylgjast með, hér á heimasíðunni og á Facebook-síðu kórsins, þar sem allir tónleikar verða kynntir sérstaklega, en næst á dagskrá eru hausttónleikar 2. nóvember. Auk þess erum við nú komin á Instagram þar sem birtast reglulega skemmtilegar myndir úr kórstarfinu.

Gleðilegan söngvetur!