Requiem eftir Verdi og fleira á vorönn

Söngsveitin Fílharmónía situr ekki aðgerðarlaus þessa vorönnina, frekar en venjulega. 28. febrúar tekur kórinn þátt í aukasýningu á Evitu í Hörpu, í samstarfi við Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og með stórkostlegum einsöngvurum. Miðasala á tix.is.

Í tilefni af sextugsafmæli kórsins flytur hann eina rómuðustu sálumessu sem samin hefur verið, Messa da Requiem eftir Giuseppe Verdi, ásamt stórri sinfóníuhljómsveit og glæsilegum hópi einsöngvara: Hallveigu Rúnarsdóttur, sópran, Hildigunni Einarsdóttur, alt, Gissuri Páli Gissurarsyni, tenór og Kristni Sigmundssyni, bassa. Konsertmeistari er Sif Tulinius og stjórnandi Magnús Ragnarsson.

Tónleikarnir verða í Langholtskirkju, sunnudaginn 15. mars kl. 17. Miðaverð er 6.800 kr., 6.000 kr fyrir börn, aldraða og öryrkja. Miðasala á tix.is. Tónleikunum hefur verið frestað til hausts – ný dagsetning verður auglýst sem fyrst.

Um páskana tekur svo við annað samstarfsverkefni með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, en þá er það 9. sinfónía Beethovens, Óðurinn til gleðinnar. Verkið verður flutt í Hofi á Akureyri á skírdag, 9. apríl, og Langholtskirkju 11. apríl. Miðasala enn og aftur á tix.is; fyrir Hof og fyrir Langholtskirkju.

Síðast en alls ekki síst tekur kórinn þátt í tónleikum Andrea Bocelli í Kórnum 23. maí – og miðar á tix.is.

Jólatónleikar 2019

Söngsveitin Fílharmónía heldur árlega jólatónleika sína í Langholtskirkju, föstudaginn 27. desember kl. 20. Einsöngvari verður Kristinn Sigmundsson og stjórnandi kórsins er Magnús Ragnarsson.

Efnisskráin verður í senn hátíðleg og fjörug; íslensk þjóðlög og sígild jólalög frá ýmsum löndum. Eftir tónleikana verður boðið upp á jólasamsöng, heitt súkkulaði og smákökur.

Miðaverð er kr 3.900 og hægt er að kaupa miða hér:

https://tix.is/is/event/9186/jolatonleikar-songsveitarinnar-filharmoniu/

Einnig er hægt að kaupa gjafabréf fyrir miðum á tónleikana með því að senda tölvupóst á songsveitin@filharmonia.is eða hafa samband í Facebook skilaboðum.

Söngur í sextíu ár – Hausttónleikar og samsöngur

Söngsveitin Fílharmóna slær upptaktinn að sextíu ára afmælisári sínu með hausttónleikum og samsöng í Seltjarnarneskirkju, laugardaginn 2. nóvember kl. 15. Flutt verða ýmis uppáhaldsverk úr sögu kórsins í bland við nýrri tónlist.

Frá æfingu á fyrsta starfsári kórsins
Á æfingu í Melaskóla á fyrsta starfári, helsta æfingastað kórsins lengi vel.
Róbert A. Ottóson fremst til hægri.

Miðaverð er 1.500 kr., miðapantanir hjá kórfélögum, með skilaboðum á Facebook, og á songsveitin@filharmonia.is, og miðasala við innganginn. Frítt inn fyrir börn og unglinga, 18 ára og yngri.

Að tónleikunum loknum verður afmæliskaffi og samsöngur í safnaðarheimili kirkjunnar þar sem við vonumst eftir að sem flestir, bæði fyrrverandi kórfélagar og aðrir gestir, taki með okkur nokkur lög og fagni tímamótunum!