Aðventutónleikar Söngsveitarinnar eru nú afstaðnir og gengu eins og í sögu. Áheyrendur kunnu að meta kertaljósin og notalegheitin sem, ásamt ljúfum söngnum, fylltu Langholtskirkju sönnum jólaanda. Gissur Páll söng einsöng og heillaði gesti upp úr skónum og Steingrímur Þórhallsson spilaði á orgel og píanó af alkunnri snilld sinni. Kórinn fer því sáttur og sæll í sitt hefðbundna jólafrí, þótt búast megi við að raddböndin verði þanin yfir pottum og pökkum.

Starfið hefst svo aftur af fullum krafti undir stjórn Magnúsar Ragnarssonar í byrjun nýárs og mun Söngsveitin meðal annars takast á við Hringadróttinssinfóníu Howards Shore, ásamt fleiri kórum og Sinfóníuhljómsveit Íslands. Síðar mun kórinn heiðra stofnanda Söngsveitarinnar, Róbert Abraham Ottósson, á aldarafmæli hans í vor. Kórinn er fullur tilhlökkunar og ljóst að 2012 verður fullt af nýjum ævintýrum og áskorunum.

Söngsveitin Fílharmónía óskar landsmönnum innilega gleðilegra jóla og farsæls nýárs. Við þökkum fyrir árið sem er að líða og allar góðu stundirnar sem við höfum átt með tónleikagestum, vinum, samstarfsfólki og hvert öðru.