Dagskrá vetrarins er ein sú metnaðarfyllsta í 52 ára sögu kórsins en fimm vegleg tónleikaverkefni eru fyrirhuguð undir stjórn söngstjórans Magnúsar Ragnarssonar sem stýrt hefur kórnum af miklum krafti í rúm fimm ár. Auk Magnúsar nýtur kórinn liðsinnis Guðríðar St. Sigurðardóttur, píanista, og Margrétar Sigurðardóttur, raddþjálfara.

Stofnandi Söngsveitarinnar heiðraður – 19. og 21.apríl 2012

Róbert Abraham Ottóson hefði orðið 100 ára á næsta ári og því mun söngsveitin heiðra stofnanda sinn með tónleikum honum til heiðurs sumardaginn fyrsta 19. apríl kl. 20 í Langholtskirkju. Þá verður frumflutt verk eftir Hildigunni Rúnarsdóttur tónskáld, sem hún semur af þessu tilefni fyrir Fílharmóníu. Jafnframt hljóma tónlist og útsetningar eftir dr. Róbert, sem var fæddur í Þýskalandi 17. maí 1912.

Róbert fluttist til Íslands árið 1935 og hafði afgerandi áhrif á þróun íslensks tónlistarlífs á umbrotatímum þjóðarinnar. Dr. Róbert rannsakaði íslenskan tónlistararf og fjallar doktorsritgerð hans um tíðasöng Þorláks biskups helga. Dr. Róbert var kórstjóri, hljómsveitarstjóri, kennari, tónskáld og vísindamaður og kynnti fyrir Íslendingum flest helstu klassísku kórverk með kór sínum og Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Rómeo og Júlía eftir Berlioz – 25. Maí 2012 á Listahátíð

Á tónleikum Sinfóníuhljómsveitarinnar á Listahátíð í maí verður Fílharmónían í hlutverki Kapúlet ættarinnar þegar dramatíska sinfónían Rómeó og Júlía eftir Berlioz verður flutt undir stjórn Ilans Volkovs, nýs aðalstjórnanda Sinfóníunnar. Flutt verður í Eldborgarsal Hörpu ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands. Lesa má nánar um verkið á vefsíðu Sinfóníunnar.

______________________________________________________________________________________________________

Hausttónleikar – 30.október 2011 – LOKIÐ!

Fyrstu tónleikar starfsársins verða í Norðurljósasal Hörpu, sunnudaginn 30. október, þar sem flutt verður Jazzmessa eftir litháiska tónskáldið Vytautas Miškinis. Verkið var frumflutt á alþjóðlegu kóraráðstefnunni í Kaupmannahöfn 2008 og vakti mikla lukku. Síðan þá hefur það verið flutt víða um heim og hljómar nú í fyrsta skipti á Íslandi. Messan er í sex þáttum og er samin fyrir kór, tvö píanó, kontrabassa og trommur. Hér má heyra tónskáldið stjórna verkinu í Singapore.

Einnig hljómar tónlist eftir George Gershwin á tónleikunum.

Einsöngvarar verða Valdís Gregory og Einar Clausen.

Aðventutónleikar – 11. og 13.desember 2011 – LOKIÐ!

Aðventutónleikar Fílharmóníu eru fastur liður starfseminnar. Þetta árið verða þeir í Langholtskirkju 11. og 13. desember. Einsöngvari verður Gissur Páll Gissurarson og Steingrímur Þórhallsson spilar á orgel.

Hringadróttinssaga ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands – 16. og 17. febrúar 2012

Í febrúar mun kórinn taka þátt í flutningi Hringadróttinsinfóníunnar eftir Howard Shore ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands, Hljómeyki, Kór Áskirkju í Eldborgarsal Hörpu. Tónskáldið fékk tvenn Óskarsverðlaun fyrir kvikmyndatónlistina og hefur útbúið sérstaka tónleikaútgáfu verksins sem farið hefur sigurför um heiminn og slegið aðsóknarmet hjá ýmsum hljómsveitum.

Hér má sjá og heyra upphaf sinfóníunnar undir stjórn tónskáldsins.
Einnig má lesa nánar um verkið á vefsíðu Sinfóníunnar.