Tónleikar Fílharmóníu í Reykholtskirkju
4. maí kl 16.00

Söngsveitin Fílharmónía flytur Requiem eftir Gabriel Fauré auk ýmissa annarra verka hinn 4. maí næstkomandi í Reykholtskirkju.

Requiem, eða sálumessa, Fauré var skrifuð undir lok 19. aldar og inniheldur hina vel þekktu Pie Jesu aríu, sem Rakel Edda Guðmundstóttir mun flytja með kórnum að þessu sinni. Lokakafli verksins, In Paradisum, er einstaklega hughljúfur og bjartur áheyrnar og slær á strengi vonar í lok sálumessunnar, um að lífið fyrir handan sé ekki endilok alls heldur þvert á móti.

Verkið sem í heild er ástsælt, angurvært og fallegt í flutningi, en það er til útsett bæði fyrir strengi og kór og fyrir orgel og kór. Að þessu sinni mun orgelleikur Magnúsar Ragnarsson stjórnanda Fílharmóníu berast um Reykholtskirkju í verkinu en gestastjórnandinn Sigurður Árni Jónssons stjórnar þeim hluta tónleikanna.

Auk Sálumessunnar kennir ýmissa grasa á efnisskránni, en meðal annars verður flutt nýtt verk eftir stjórnanda kórsins  sem ber heitið Tíminn og vatnið og er samið við ljóð Steins Steinarrs. Á efnisskránni eru jafnframt fjölbreytt kórverk eftir íslensk og erlend tónskáld. Eitt þeirra er nýstárlegt verk eftir Eric Whitacre. Hann er nokkurs konar „rokkstjarna“ kórheimsins, og verkið ber heitið Cloudburst.

Söngsveitin Fílharmónía var stofnuð árið 1959 í því skyni að flytja stór kórverk með sinfóníuhljómsveit og einsöngvurum en dr. Róbert A. Ottósson var fyrsti stjórnandi hennar. Hún hefur starfað alla tíð síðan og flutt fjölda stórra kórverka, nú síðast í febrúar tók hún þátt í flutningi Carminu Burana með í Eldborg. Að jafnaði eru kórfélagar 60 – 70 talsins.

Miðasala er hjá kórfélögum og við innganginn.
Allar nánari upplýsingar veitir Lilja Árnadóttir formaður kórsins s. 8985290