Söngsveitin Fílharmónía hreppti þriðja sætið í keppni blandaðra kóra á alþjóðlegu tónlistarhátíðinni Eisteddfod í Llangollen í Wales. Alls tóku níu kórar þátt í þessum flokki m.a. frá Eistlandi, Bandaríkjunum og Argentínu sem fór með sigur af hólmi en kór frá Kosta Ríka vermdi annað sætið. Keppnislög Söngsveitarinnar voru þrjú, “Northern lights” eftir Ola Gjeilo, ” Ég vil llofa eina þá” eftir Báru Grímsdóttur og “The Conversion of Saul” eftir Randall Stroope. Ferðin í heild sinni var ákaflega vel heppnuð og kom kórinn margoft fram með dagskrá þar sem íslensk kórlög voru í fyrirrúmi.

Eisteddfod hefur merkilega sögu og var fyrst haldin árið 1947 í þeim tilgangi að sameina fólk í söng og tónlistarflutningi. Mikill fjöldi sjálfboðaliða kemur að skipulagningunni og utanumhaldi hátíðarinnar sem var til mikillar fyrirmyndar. Hægt er að sjá og hlýða á flutning hinna fjölmörgu kóra og danshópa sem komu fram á Eisteddfod.