Söngsveitin Fílharmónía ásamt sinfóníuhljómsveit og glæsilegum hópi einsöngvara flytur eina rómuðustu sálumessu sem samin hefur verið, Messa da Requiem eftir Giuseppe Verdi í Langholtskirkju 10. apríl kl. 20.

Flutningi verksins hefur ítrekað verið frestað vegna Covid-19 faraldursins, en upphaflega stóð til að flytja það vorið 2020 í tilefni af 60 ára afmæli Söngsveitarinnar Fílharmóníu. Í gegnum faraldurinn hefur kórinn haldið færni sinni við að mestu á æfingum í gegnum fjarfundarbúnað, sem mjög hefur reynt á kórmeðlimi jafnt sem stjórnanda.

Það verður því sannarlega hátíðleg gleðistund þegar faraldurinn verður loks kvaddur og stórafmæli fagnað með þessum táknræna hætti með flutningi stórvirkis Verdis fyrir fullri Langholtskirkju.

Sem fyrr segir er umgjörð og uppsetning öll hin glæsilegasta, því auk sinfóníuhljómsveitar sem skipuð er mörgum af færustu hljóðfæraleikurum landsins koma fram nokkrir af bestu einsöngvurum þjóðarinnar: Kristinn Sigmundsson bassi og Gissur Páll Gissurarson tenór hafa báðir sungið verkið oftsinnis áður við góðan orðstír, en Hallveig Rúnarsdóttir sópran og Hildigunnur Einarsdóttir mezzósópran flytja nú verkið í fyrsta sinn, fullar eftirvæntingar.

Konsertmeistari er Sif Margrét Tulinius og stjórnandi Magnús Ragnarsson.

Miðar fást enn á www.tix.is.