Eins og venja hefur verið undanfarin ár mun Fílharmónía syngja tvenna sjálfstæða tónleika nú í október. Kórinn er á leið í ferð til Austurríkis næsta sumar og tónleikahald því liður í undirbúningi fyrir það ferðalag.
Tvö spennandi stykki eru á efnisskránni, annars vegar Misa Criolla eftir Ariel Ramírez og hins vegar Mariamusik eftir sænska tónskáldið Anders Öhrwall.
Eins og áður sagði verða tónleikarnir tvennir. Hinir fyrri verða 14. október í Seltjarnarneskirkju og hinir síðari hinn 15. október í Guðríðarkirkju í Grafarholti. Báðir tónleikarnir hefjast klukkan átta.
Misa Criolla (1964) er taktföst messa, sungin á spænsku og er skrifuð fyrir kór, einsöngvara og hljómsveit. Mismunandi tónlistarhefðir S-Ameríku lita verkið sem er með eindæmum einstakt og ánægjulegt áheyrnar. Einsöngvarar eru Einar Clausen, einn af okkar fremstu tenórsöngvurum, og Akureyringurinn Jón Svafar Jósefsson, barítón.
Mariamusik (1974) er eftir sænska tónskáldið Anders Öhrwall, sem er mörgum kunnur fyrir jólaútsetningar sínar, og er byggð á textum og tónlist um Maríu Mey frá 14., 15. og 16 öld. Sumir kaflarnir bera raunar sterkan keim af styrk Öhrwalls sem jólatónskálds og er á stundum nokkur hátíðarbragur yfir stykkinu, sem sungið er á íslensku. Lesari er Þorleifur Hauksson.
Tónleikarnir eru um tvær klukkustundir með hléi og almennt miðaverð er 3.500 krónur en börn undir 12 ára greiða hálft verð. Forsöluverð er 2.900 krónur og gildir það fram að tónleikadegi.
Miðar fást í 12 tónum á Skólavörðustíg, hjá kórfélögum og við innganginn.


Söngsveitin Fílharmónía nýtur þess heiðurs með Kór Áskirkju og Hljómeyki að taka þátt í flutningi á sinfóníunni Rómeó og Julía eftir Hector Berlioz á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands föstudaginn 25. maí. Tónleikarnir eru liður í Listahátíð í Reykjavík og verða í Eldborgarsal Hörpu. Í kynningu á verkinu segir svo á heimasíðu hljómsveitarinnar: „Fjöldi ógleymanlegra tónverka hefur orðið til undir áhrifum af harmleikjum Shakespeares. Eitt hið stærsta og óvenjulegasta er Rómeó og Júlía eftir franska meistarann Hector Berlioz, sem hann kallaði „dramatíska sinfóníu“. Hér er sinfóníuformið teygt í ýmsar áttir svo úr verður eins konar bræðingur hljómsveitarverks og óperu. Helstu þættir verksins eru sungnir af mezzósópran, tenór og bassa, auk þess sem Berlioz notar stóran kór í verkinu. Eitt það sem gerir nálgun tónskáldsins svo óvenjulega er þó að margir dramatískustu þættir sögunnar túlkaðir af hljómsveitinni eingöngu.“

Söngsveitin Fílharmónína tók þátt ásamt Kór Áskirkju, Hljómeyki, Stúlknakór Reykjavíkur, fleiri kórsöngvurum og einsöngvurum í tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands þar sem flutt var Hringadróttinssinfóníunni 16. og 17. febrúar sl. Óhætt er að segja að flutningurinn hafi tekist vel; Eldborgarsalur Hörpu var þéttsetinn, reyndar fullsetinn bæði kvöldin, og hljómsveit, kórar og stjórnendur hneigðu sig auðmjúklega undir dynjandi lófaklappinu sem ætlaði aldrei að linna. Aðalstjórnandi verksins var Erik Ochsner og mikil ánægja með samvinnuna við hann meðal flytjenda. Flestir hefðu viljað halda fleiri tónleika, þar sem eftirspurnin var mikil eftir miðum, en því varð ekki við komið af ýmsum ástæðum, meðal annars vegna anna erlendu listamannanna sem komu að verkefninu. Við látum okkur það vel lynda og munum minnast þessa viðburðar með þakklæti og ánægju.