Söngsveitin Fílharmónía hefur varla getað komið saman til að æfa síðan í mars, þegar sett var á samkomubann um það leyti sem kórinn hugðist flytja Sálumessu Verdis með stórri hljómsveit fyrir fullum sal af fólki. Enn á eftir að koma í ljós hvenær þeir tónleikar geta orðið og þökkum við þeim sem þegar hafa keypt sér miða fyrir biðlundina.

Að undanförnu hafa verið haldnar kóræfingar á netinu, sem fara þannig fram að hver söngvari syngur fyrir framan sína tölvu og heyrir bara í kórstjóranum og sjálfum sér. Þannig höfum við æft jólalögin, þótt enn sé óvíst hvenær og hvernig þau verða flutt. En til að gleðja okkur sjálf og vonandi fleiri tókum við eitt þeirra upp, Grýlu eftir Leif Hauksson og Pétur Gunnarsson, í útsetningu Magnúsar Ragnarssonar. Um klippingu og hljóðblöndun sá Gunnar Freyr Steinsson. Ætli þetta sé ekki glaðlegasta andlátsfregn sem samin hefur verið?