Aðventutónleikar

Þann 27. nóvember 2022, fyrsta sunnudag í aðventu, heldur Söngsveitin Fílharmónía aðventutónleika ásamt Hallveigu Rúnarsdóttur sópransöngkonu og Elísabetu Waage hörpuleikara. Á tónleikunum mun hljóma fjölbreytt aðventu- og jólatónlist frá ýmsum tímum, bæði íslensk og erlend. Meðal annars mun kórinn frumflytja nýtt verk eftir Tryggva M. Baldvinsson tónskáld. Stjórnandi kórsins er Magnús Ragnarsson.

Miðasala er á tix.s – smelltu hér til að kaupa miða

Aðventan og jólin

Jólaóratorían eftir Bach er eitt rómaðasta tónverk jólanna og mörgum ómissandi um jólin. Söngsveitin Fílharmonía mun flytja þetta gullfallega verk í Langholtskirkju 28. desember 2022 kl. 20:00, ásamt hljómsveit og einsöngvurunum Írisi Björk Gunnarsdóttur, Hildigunni Einarsdóttur, Benedikt Kristjánssyni og Oddi Arnþóri Jónssyni. Stjórnandi er Magnús Ragnarsson og konsertmeistari er Páll Palomares.

Miðasala á jólaoratoríuna er hafin á tix.is – smelltu hér til að kaupa miða!

Jólaóratorían segir söguna af fæðingu Jesú á áhrifamikinn og hrífandi hátt með fjörugum kórpörtum, dásamlegum sálmum og gullfallegum einsöngsaríum. Sagan er síðan bundin saman af tónlesi guðspjallamannsins sem Benedikt Kristjánsson mun túlka, en hann hefur hlotið mikið lof um allan heim fyrir túlkun sína á verkum Bachs.

Áður en að þessu öllu kemur mun kórinn halda aðventutónleika, þann 27. nóvember kl 20:00, þar sem kórinn mun flytja fjölbreytta jólatónlist ásamt sópransöngkonunni Hallveigu Rúnarsdóttur.

Miðasala á aðventutónleikana er hafin á tix.is – smelltu hér til að kaupa miða!

Vortónleikar með norrænu yfirbragði

Vetrarstarf Söngsveitarinnar Fílharmóníu hefur litast mjög af heimsfaraldri covid-19 eins og gefur að skilja, allt frá því að við neyddumst til að fresta flutningnum á Sálumessu Verdis í mars í fyrra þegar fyrst var gripið til samkomutakmarkana. Síðan þá hafa æfingar verið með ýmsu móti, fyrst voru þær alveg felldar niður en síðan var æft í smærri hópum sem dreifðu sér um vel loftræsta Langholtskirkju. Í haust tókum við tæknina í okkar þjónustu og streymdum æfingum yfir netið fyrir þau sem ekki treystu sér til að mæta í kirkjuna og einu sinni æfðum við úti undir beru lofti.

Flestar hefðir kórsins hafa orðið að lúta í lægri haldi fyrir veirunni, engir vortónleikar voru haldnir og hvorki hausttónleikar né jólatónleikar, auk þess sem fjölda fyrirhugaðra verkefna var frestað. En þrátt fyrir ástandið höfum við haldið starfseminni gangandi og því langar okkur að ljúka starfsárinu með því að flytja lögin sem við höfum verið að æfa við þessar óvenjulegu aðstæður. Það eru ný og gömul verk eftir norræn tónskáld, allt frá Færeyjum til Finnlands, þar á meðal stjórnanda kórsins, Magnús Ragnarsson.

Tónleikarnir verða í Langholtskirkju sunnudaginn 30. maí kl. 20.

Aðgangur er ókeypis og allur aðbúnaður í samræmi við gildandi leiðbeiningar um sóttvarnir.

Næsta starfsár kórsins stefnir svo í að vera töluvert ólíkt því sem lýkur með þessum tónleikum, en ef áætlanir standast verður dagskráin á þessa leið:

  • Ágúst: Return of the King – bíósýning með lifandi tónlist
  • September: Níunda sinfónía Beethovens með Sinfóníuhljómsveit Íslands
  • Október: Söngleikurinn Chess
  • Nóvember: Tónleikar Andrea Boccelli
  • Desember: Jólatónleikar
  • Janúar: Requiem eftir Verdi – afmælistónleikarnir okkar frá í fyrra
  • Mars: Þýska sálumessan eftir Brahms með Sinfóníuhljómsveit Íslands

Nú er hún Grýla dauð

Söngsveitin Fílharmónía hefur varla getað komið saman til að æfa síðan í mars, þegar sett var á samkomubann um það leyti sem kórinn hugðist flytja Sálumessu Verdis með stórri hljómsveit fyrir fullum sal af fólki. Enn á eftir að koma í ljós hvenær þeir tónleikar geta orðið og þökkum við þeim sem þegar hafa keypt sér miða fyrir biðlundina.

Að undanförnu hafa verið haldnar kóræfingar á netinu, sem fara þannig fram að hver söngvari syngur fyrir framan sína tölvu og heyrir bara í kórstjóranum og sjálfum sér. Þannig höfum við æft jólalögin, þótt enn sé óvíst hvenær og hvernig þau verða flutt. En til að gleðja okkur sjálf og vonandi fleiri tókum við eitt þeirra upp, Grýlu eftir Leif Hauksson og Pétur Gunnarsson, í útsetningu Magnúsar Ragnarssonar. Um klippingu og hljóðblöndun sá Gunnar Freyr Steinsson. Ætli þetta sé ekki glaðlegasta andlátsfregn sem samin hefur verið?

Requiem eftir Verdi – frestað

Okkur þykir leitt að tilkynna að kórinn hefur ákveðið að fresta flutningi á Requiem eftir Verdi um óákveðinn tíma vegna smithættu á Covid-19 veirunni. Ný tímasetning verður tilkynnt um leið og hún liggur fyrir. Miðar sem þegar hafa verið keyptir munu færast á nýja dagsetningu. Sjái einhver sér ekki fært að nýta miðana sína þá verður að sjálfsögðu hægt að fá þá endurgreidda með því að hafa samband á info@tix.is.

Tónleikarnir verða glæsilegir – þegar við loksins fáum að halda þá