Þýsk sálumessa eftir Brahms

Þann 28. febrúar kl. 20:00 í Norðurljósum í Hörpu, flytur Söngsveitin Fílharmónía eitt mesta stórvirki kórbókmenntanna, Ein deutsches Requiem eftir Johannes Brahms. Einsöngvarar eru Kristinn Sigmundsson og Hallveig Rúnarsdóttir. Verkið er flutt í útsetningu fyrir tvö píanó og pákur. Um píanóleik sjá þær Guðríður St. Sigurðardóttir og Brynhildur Ásgeirsdóttir. Pákuleikari er Eggert Pálsson.
Söngsveitin flutti verkið með Sinfóníuhljómsveit Íslands í Háskólabíói vorið 2008, í söngför til Wrochlaw í Póllandi sama ár og nú síðast árið 2014 í Langholtskirkju. Fyrir þann flutning hlaut kórinn tilnefningu til Íslensku tónlistarverðlaunanna fyrir tónlistarviðburð ársins.

Miðaverð: 4500 kr. og fer miðasala fram á vef Hörpu.
https://www.harpa.is/dagskra/vidburdur/thysk-salumessa-eftir-brahms-songsveitin-filharmonia/

Heimsljós

Söngsveitin Fílharmónía flytur áhrifamikið tónverk Tryggva M. Baldvinssonar við töfrum gæddan texta Halldórs Laxness.  Verkið var samið fyrir tæpum sex árum á hálfrar aldar afmæli kórsins og er nú flutt öðru sinni með einvalaliði tónlistarmanna. Sif Tulinius fer fyrir þrjátíu manna hljómsveit og einsöngur er í höndum þeirra Ingibjargar Guðjónsdóttur og Snorra Wium. Stjórnandi er Magnús Ragnarsson.
Heimsljós – íslensk sálumessa er í átta þáttum og tekur um klukkustund í flutningi. Tónleikarnir hefjast kl. 20 með stuttri samantekt Halldórs Guðmundssonar og Silju Aðalsteinsdóttur á bókmenntatextanum sem verkið byggir á, texta sem lætur engan ósnortinn og á sérstakan stað í hjörtum landsmanna.
Tónleikarnir verða í Langholtskirkju, sunnudaginn 13. mars kl. 20.Miða má kaupa hér:

https://midi.is/tonleikar/1/9454/Songsveitin_Filharmonia

jkull2-2-texti3

Á hæstri hátíð – aukatónleikar!

Uppselt er á jólatónleika Söngsveitarinnar Fílharmóníu þann 28. desember og munum við blása til aukatónleika daginn eftir, þriðjudaginn 29. desember kl. 20 í Kristskirkju. Á dagskránni eru sígild jólalög í bland við ný verk, innlend og erlend. Með okkur verða sem fyrr Þóra Einarsdóttir sópransöngkona, Sophie Marie Schoonjans hörpuleikari og Hjörtur Páll Eggertsson sellóleikari. Miðaverð í forsölu hjá kórfélögum er 2.000 kr og 2.500 kr. við innganginn. Börn, 12 ára og yngri greiða 1.000 kr.

Á hæstri hátíð

Söngsveitin Fílharmónía, ásamt Þóru Einarsdóttur sópransöngkonu og Sophie Marie Schoonjans hörpuleikara, fagna jólum á tvennum tónleikum í Kristskirkju, mánudaginn 21. desember og mánudaginn 28. desember kl. 20. Á dagskránni verða sígild jólalög í bland við ný verk, innlend og erlend. Miðaverð í forsölu hjá kórfélögum er 2000 kr og 2500 kr við innganginn. Börn, tólf ára og yngri greiða 1000 kr.

Draumsýn

Plakat_Draumsyn2Söngsveitin Fílharmónía og Duo Harpverk flytja nýja og spennandi tónlist í Háteigskirkju sunnudaginn 8. nóvember 2015 kl. 17.

Á efnisskránni er að þessu sinni tónlist ungra íslenskra höfunda og vinsæl kórverk eftir vel þekkt erlend tónskáld. Fyrst er að nefna frumflutning á nýju verki Sigurðar Árna Jónssonar, Vaknaðu, við samnefnt ljóð Snorra Hjartarsonar. Það er samið fyrir Söngsveitina og skrifað fyrir kór, víbrafón og hörpu. Þá flytur kórinn verkin Upphaf eftir Hreiðar Inga Þorsteinsson og Nú legg ég þér í lófa eftir Þóru Marteinsdóttur, en Þóra er jafnframt félagi í Söngsveitinni. Stars eftir lettneska tónskáldið Ērik Ešenvalds er dulúðugt verk þar sem höfundur notar m.a. glasahljóm til að seiða fram mynd af stjörnubjartri nótt. Í verkinu Helletused leikur Eistlendingurinn Veljo Tormis sér með vinsælt þjóðlag sem á uppruna sinn í kalli eistneskra kúasmala. Tónleikunum lýkur síðan með tveimur verkum eftir bandaríska tónskáldið Eric Whitacre: Cloudburst og Leonardo dreams of his flying machine. Í hinu fyrra er því lýst hvernig himnarnir opnast og langþráð regnið fellur, en seinna verkið er mynd af glímu Leonardos da Vinci við hina miklu draumsýn mannsins, að geta hafið sig til flugs.

Slagverksleikarinn Frank Aarnink og Katie Buckley hörpuleikari hafa starfað saman undir nafninu Duo Harpverk frá árinu 2007 og komið víða fram jafnt innanlands sem utan. Oftar en ekki flytja þau tónlist sem samin hefur verið sérstaklega fyrir þau. Duo Harpverk leggur Söngsveitinni Fílharmóníu lið í þremur verkum á þessum tónleikum og leikur auk þess eigin dagskrá.

Einsöngvarar á tónleikunum eru allir úr röðum kórfélaga: Vigdís Sigurðardóttir, Elva Rakel Jónsdóttir, Arndís A. K. Gunnarsdóttir og Heimir Þór Kjartansson.
Stjórnandi Söngsveitarinnar Fílharmóníu er Magnús Ragnarsson.

Miðasala er hjá kórfélögum, í 12 tónum og við innganginn.

Almennt miðaverð: 2.500 kr.

Verð í forsölu: 2.000 kr.

Eldri borgarar og námsmenn: 1.500 kr.

Börn 12 ára og yngri greiða ekki aðgangseyri