Næst er það Norðurlandið!

Söngsveitin Fílharmónía hefur verið iðin við tónleikahald það sem af er þessu ári og heimsækir næst Siglufjörð og Akureyri helgina 16.-18. maí. Um fimmtíu söngvarar verða með í þessarri söngferð, enda er almennt mikil tilhlökkun í hópnum yfir að heimsækja Norðurlandið fagra og syngja fyrir íbúa Tröllaskaga og Akureyringa.

Kórinn er að undirbúa sig fyrir kórakeppni í Llangollen í Wales í sumar og á  efnisskrá tónleikanna fyrir norðan er að finna lög sem kórinn fer með í keppnina. Á efnisskránni, sem er býsna fjölbreytt, eru bæði íslensk og erlend verk, svo sem eftir norska tónskáldið Ola Gjeilo, Randall Z. Stoope, Báru Grímsdóttur, Gunnstein Ólafsson. Hreiðar Inga Þorsteinsson og Þóru Marteinsdóttur.

Tónleikarnir verða á laugardag kl. 17 í  Siglufjarðarkirkju og kl. 16 á sunnudaginn í Akureyrarkirkju þar sem kór kirkjunnar kemur einnig fram.

Tónleikar í Selfosskirkju

Næstu tónleikar Fílharmóníu verða í Selfosskirkju laugardaginn 26. apríl kl. 17.  Þar mun kórinn flytja fjölbreytta efnisskrá sem einnig verður flutt í kórakeppni í Llangollen í Wales í júlí.Efnisskráin samanstendur af ýmsum verkum íslenskra og erlendra tónskálda, svo sem eftir Ola Gjeilo, Z. Randall Stoope, Báru Grímsdóttur og Hreiðar Inga Þorsteinsson svo fátt eitt sé nefnt. Aðgangseyrir er 2000 kr.

Tónleikaþrenna

Söngsveitin Fílharmónía heldur þrenna tónleika í mars og apríl.

Þeir fyrstu verða haldnir í Neskirkju laugardaginn 15.mars kl. 17. Tónleikarnir eru haldnir í samvinnu við Kór Neskirkju og munu kórarnir koma fram saman og í sitt hvoru lagi. Boðið verður upp á góða blöndu af íslenskum og erlendum kórlögum, gömlum og nýjum. Frítt er inn og allir hjartanlega velkomnir.

Mánudaginn 17.mars kl. 20:30 er komið að tónleikum í Grindvíkurkirkju og eru tónleikarnir liður í Menningarviku bæjarins sem fagnar fjörutíu ára kaupstaðarafmæli á þessu ári. Frítt er inn á tónleikana. Á efnisskránni eru íslensk og erlend kórlög.

Í apríl liggur leið Fílharmóníu austur fyrir fjall er sungnir verða tónleikar í Selfosskirkju laugardaginn 26.apríl kl. 17.