Æfingabúðir 4 – 6.mars 2011

Nú fer óðum að styttast  í æfingabúðirnar, 4.-6. mars – vonandi koma sem flestir með!

Verð

9.500 kr. fyrir kórfélaga fyrir gistingu í tvær nætur og mat allan laugardaginn
Verð fyrir þá sem þurfa nauðsynlega að fara heim fyrir árshátíð er 3.900kr
8.000 kr. fyrir maka sem verður með  á árshátíðinni og gistir eina nótt.

Ef eitthvað er óljóst eða ef einhver er með fæðuóþol, hafið þá samband við Þóru: thora@vso.is

Það væri mjög gott ef þið leggið inn sem fyrst .

Reikn.nr:  525 – 26 – 3714
Kt. 5401696679

Sendið kvittun á thora@vso.is og svana@hi.is Ekki gleyma þessu!

Matur

  • Morgunmatur á laugardaginn
  • Hádegisverður,  fiskréttur með fersku salati og hrísgrjónum
  • Kaffihressing,  pönnsur og ferskir ávextir
  • Kaffi, te og engiferseyði allann daginn
  • Þrírétta kvöldverður
    • Salat með parmaskinku og melónu
    • Kalkúnabringur með Waldorfsalati og sætum kartörflum
    • Pavlóva með ferskum ávöxtum

Hvað þarf að hafa með?

– Nótur
– Sængurföt

 

Um merki söngsveitarinnar

Söngsveitin efndi til samkeppni meðal félaga sinna og aðstandenda þeirra um nýtt merki kórsins fyrir 50 ára afmælisár kórsins. Fjöldi góðra tillagna barst en hlutskörpust var sú sem hér sést, merki hannað af Birgittu Sif Jónsdóttur sem var opinberlega sýnt á auglýsingum og tónleikaskrá fyrir aðventutónleikana í vetur. Henni er þakkað kærlega fyrir framlag sitt.

Í merkinu leikur Birgitta sér með hið sígilda tákn tónlistarinnar, hörpuna, sem hér er full af lífi og hreyfingu. Ef vel er gáð má sjá syngjandi kórfélaga með nótnabækur sínar, í líki hörpustrengjanna.

Birgitta býr og stundar nám í Bretlandi og má sjá fleiri dæmi um verk hennar hér. Birgitta Sif er dóttir Ragnheiðar Guðmundsdóttur sem syngur altrödd í kórnum.

MISSA VOTIVA eftir Jan Dismas Zelenka

MISSA VOTIVA eftir Jan Dismas Zelenka, 20. og 23. mars 2011 í Fella- og Hólakirkju

Glæsilegt barokkverk frumflutt á Íslandi

Söngsveitin Fílharmónía flytur á vortónleikum sínum barokkverkið Missa votiva, eftir Jan Dismas Zelenka, meðBachsveitinni í Skálholti. Einsöngvarar á tónleikunum eru Marta Guðrún Halldórsdóttir, Jóhanna Ósk Valsdóttir, Gissur Páll Gissurarson og Ágúst Ólafsson. Stjórnandi er Magnús Ragnarsson.

Zelenka var fæddur 1679 í Bæheimi (núv. Tékklandi) en starfaði í Dresden, þar sem hann lést 1745. Hann var þannig samtímamaður Bach og Handel, en naut engrar viðlíka hylli meðan hann lifði. Það var ekki fyrr en um miðja tuttugustu öld að stórbrotin tónverk Zelenka voru enduruppgötvuð, og þykja nú meðal helstu perla barokktímans. Zelenka var á margan hátt framúrstefnulegur og djarfur í tónlistarsköpun sinni, verk hans bera einkenni barokktímans en sumt minnir á seinni tíma tónskáld, svo sem Mozart og Schubert. Hann vefur saman hljómsveit og kór með glæsilegum hætti og var ófeiminn við að brjóta upp formfestu barokkhefðarinnar.

Messan hljómar nú í fyrsta sinn á Íslandi. Verkið samdi Zelenka 1739 eftir margra ára erfið veikindi, hann hafði heitið sér því að semja stórbrotna messu ef hann skyldi ná heilsu. Ýmsir hafa þannig borið verkið saman við Sálumessu Mozarts, þar sem bæði verkin bera vitni hverfulleika lífs og í þeim báðum skiptast á dularfullir kaflar þrungnir trega við lotningarfulla lofsöngva. Á meðan greina má vissa örvæntingu í verki Mozarts virðist Zelenka hins vegar leggja meira traust á almættið.

Bachsveitin í Skálholti er af góðu kunn, ekki síst fyrir þátt sinn í metnaðarfullu tónleikahaldi í Skálholti, en Sumartónleikar í Skálholti hlutu nýverið Eyrarrósina, viðurkenningu sem veitt er árlega fyrir framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni. Hljómsveitin leikur á barokkhljóðfæri sem líkust þeim sem notuð voru á upprunatíma barokkverka.

Söngsveitin Fílharmónía er meðal virtustu kóra landsins og og hélt upp á hálfrar aldar afmæli síðasta vor með frumflutningi á nýju íslensku tónverki, Heimsljósi, eftir Tryggva M. Baldvinsson, sem kórinn pantaði af því tilefni. Kórinn hefur flutt í fyrsta sinn á Íslandi mörg helstu kórverk tónlistarsögunnar, svo sem Þýsku sálumessu Brahms, Missa solemnis og 9. sinfóníu Beethoven, Carmina Burana, svo fátt eitt sé nefnt.

Frönsk síðrómantík – 31.okt 2010

Fílharmónía býður til tónleika með fallegri og ljúfri franskri síðrómantík til að ylja okkur að hausti, sunnudaginn 31. október kl. 20 í Langholtskirkju. Fluttar verða tvær messur, Messe solennelle eftir Louis Vierne og Requiem eftir Gabriel Fauré. Einsöngvarar eru Hallveig Rúnarsdóttir og Alex Ashworth, Steingrímur Þórhallsson leikur á orgel en stjórnandi er Magnús Ragnarsson.

Miðar eru til sölu hjá kórfélögum, í versluninni 12 Tónum á Skólavörðustíg og við innganginn.

Almennt verð 2800 kr. en 2000 kr. í forsölu hjá kórfélögum.

Louis Vierne var fæddur 1870 en samdi Messe solennelle 1899 þegar hann hafði tekið við organistastöðu í Notre Dame dómkirkjunni í París. Messan er í cís-moll og er skipt upp í fimm kafla, Kyrie, Sanctus, Agnus Dei, Gloria og Benedictus en trúarjátningarkaflanum, Credo, er sleppt. Fyrstu tveir kaflarnir eru mjög tignarlegir þar sem orgelið fær að njóta sín en í miðju þeirra beggja koma rólegri hlutar þar sem einstakar raddir syngja fallegar laglínur. Sanctus kaflinn er sömuleiðis mjög tignarlegur þar sem raddirnar bætast við ein í einu undir rytmískum orgelleik. Benedictus er hins vegar dularfyllri þar til Hosanna stefið úr kaflanum á undan brýst út.

Gabriel Fauré var samtímamaður Vierne, fæddur 1845. Requiem í d-moll, er hans þekktasta verk og var flutt í útför hans sjálfs 1924. Fauré notar ekki alla hina hefðbundnu sálumessukafla, og bætir að auki við In paradisum kaflanum, en sá texti kemur úr öðru messuformi. Fauré lagði megináherslu á friðarhluta sálumessunnar og hvíld hinna látnu og fyrir vikið er verkið mjög innilegt.

Söngsveitin Fílharmónía var stofnuð árið 1959 í því augnamiði að flytja stór kórverk með einsöngvurum og hljómsveit. Kórinn hefur frá stofnun haft mörg af stærstu kórverkum tónlistarsögunnar á efnisskrá sinni og flutt mörg þeirra í fyrsta sinn á Íslandi. Stjórnandi Söngsveitarinnar er Magnús Ragnarsson.