Best WordPress Theme based on Material Design - Materialize is a freemium WordPress theme developed by myThem.es

Jazzmessa og tónlist eftir Gershwin í Hörpu

Fyrstu tónleikar starfsárs Söngsveitarinnar Fílharmóníu verða í Norðurljósasal Hörpu sunnudaginn 30. október 2011 kl. 20.

hausttonleikar500b

Fyrir hlé verður flutt Jazzmessa fyrir kór og jazzkvartett eftir litháíska tónskáldið Vytautas Miškinis. Verkið var frumflutt á alþjóðlegu kóraráðstefnunni í Kaupmannahöfn 2008 og vakti mikla lukku. Síðan þá hefur messan verið flutt víða um heim og hljómar nú í fyrsta skipti á Íslandi. Verkið er í sex þáttum og blandar höfundurinn saman ólíkum stílum, meðal annars lítháískum þjóðlögum, rokki, afrískum söngvum og gospeltónlist. Miškinis hefur verið mjög afkastamikið tónskáld og samið rúmlega hundrað mótettu, tíu messur og nokkur veraldleg verk. Hann kennir kórstjórn bæði í Litháen og víða um heim og er listrænn stjórnandi litháísku kórahátíðarinnar.

 

Eftir hlé verður flutt tónlist eftir bandaríska tónskáldið George Gershwin. Hann er ekki síst þekktur fyrir að hafa blandað saman klassískri tónlist og jazz á mjög áhrifaríkan hátt. Hann hefur samið margar grípandi laglínur sem hafa hljómað á óteljandi vegu í marga áratugi.

 

 

Einsöngvarar eru Valdís G. Gregory og Einar Clausen. Þrír píanistar koma fram á tónleikunum, þau Guðríður St. Sigurðardóttir, Árni Heiðar Karlsson og Daði Sverrisson. Þorgrímur Jónsson spilar á kontrabassa og Matthías Hemstock á slagverk. Stjórnandi er Magnús Ragnarsson.

Kórstarfið hefst á ný!

Þá er komið að því! Eftir vel heppnuð inntökupróf á sunnudag var komið að fyrstu æfingu vetrarins í kvöld. Nýir sem gamlir félagar mættu á æfingu fullir tillhlökkunar. Það verður aldeilis nóg að gera og gaman hjá okkur í vetur.

Við bjóðum nýja félaga velkomna í kórinn og gamla félaga velkomna aftur!

Kórinn tekur þó enn á móti karlaröddum næstu viku eða svo. Ef þið vitið um frækna kórsöngvara sem hefðu áhuga á að vera með, látið okkur þá vita! –> Magnús Ragnarsson s. 698-9926 ( magnus.ragnarsson@gmail.com)

Tónleikar 2011 – 2012

Dagskrá vetrarins er ein sú metnaðarfyllsta í 52 ára sögu kórsins en fimm vegleg tónleikaverkefni eru fyrirhuguð undir stjórn söngstjórans Magnúsar Ragnarssonar sem stýrt hefur kórnum af miklum krafti í rúm fimm ár. Auk Magnúsar nýtur kórinn liðsinnis Guðríðar St. Sigurðardóttur, píanista, og Margrétar Sigurðardóttur, raddþjálfara.

Stofnandi Söngsveitarinnar heiðraður – 19. og 21.apríl 2012

Róbert Abraham Ottóson hefði orðið 100 ára á næsta ári og því mun söngsveitin heiðra stofnanda sinn með tónleikum honum til heiðurs sumardaginn fyrsta 19. apríl kl. 20 í Langholtskirkju. Þá verður frumflutt verk eftir Hildigunni Rúnarsdóttur tónskáld, sem hún semur af þessu tilefni fyrir Fílharmóníu. Jafnframt hljóma tónlist og útsetningar eftir dr. Róbert, sem var fæddur í Þýskalandi 17. maí 1912.

Róbert fluttist til Íslands árið 1935 og hafði afgerandi áhrif á þróun íslensks tónlistarlífs á umbrotatímum þjóðarinnar. Dr. Róbert rannsakaði íslenskan tónlistararf og fjallar doktorsritgerð hans um tíðasöng Þorláks biskups helga. Dr. Róbert var kórstjóri, hljómsveitarstjóri, kennari, tónskáld og vísindamaður og kynnti fyrir Íslendingum flest helstu klassísku kórverk með kór sínum og Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Rómeo og Júlía eftir Berlioz – 25. Maí 2012 á Listahátíð

Á tónleikum Sinfóníuhljómsveitarinnar á Listahátíð í maí verður Fílharmónían í hlutverki Kapúlet ættarinnar þegar dramatíska sinfónían Rómeó og Júlía eftir Berlioz verður flutt undir stjórn Ilans Volkovs, nýs aðalstjórnanda Sinfóníunnar. Flutt verður í Eldborgarsal Hörpu ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands. Lesa má nánar um verkið á vefsíðu Sinfóníunnar.

______________________________________________________________________________________________________

Hausttónleikar – 30.október 2011 – LOKIÐ!

Fyrstu tónleikar starfsársins verða í Norðurljósasal Hörpu, sunnudaginn 30. október, þar sem flutt verður Jazzmessa eftir litháiska tónskáldið Vytautas Miškinis. Verkið var frumflutt á alþjóðlegu kóraráðstefnunni í Kaupmannahöfn 2008 og vakti mikla lukku. Síðan þá hefur það verið flutt víða um heim og hljómar nú í fyrsta skipti á Íslandi. Messan er í sex þáttum og er samin fyrir kór, tvö píanó, kontrabassa og trommur. Hér má heyra tónskáldið stjórna verkinu í Singapore.

Einnig hljómar tónlist eftir George Gershwin á tónleikunum.

Einsöngvarar verða Valdís Gregory og Einar Clausen.

Aðventutónleikar – 11. og 13.desember 2011 – LOKIÐ!

Aðventutónleikar Fílharmóníu eru fastur liður starfseminnar. Þetta árið verða þeir í Langholtskirkju 11. og 13. desember. Einsöngvari verður Gissur Páll Gissurarson og Steingrímur Þórhallsson spilar á orgel.

Hringadróttinssaga ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands – 16. og 17. febrúar 2012

Í febrúar mun kórinn taka þátt í flutningi Hringadróttinsinfóníunnar eftir Howard Shore ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands, Hljómeyki, Kór Áskirkju í Eldborgarsal Hörpu. Tónskáldið fékk tvenn Óskarsverðlaun fyrir kvikmyndatónlistina og hefur útbúið sérstaka tónleikaútgáfu verksins sem farið hefur sigurför um heiminn og slegið aðsóknarmet hjá ýmsum hljómsveitum.

Hér má sjá og heyra upphaf sinfóníunnar undir stjórn tónskáldsins.
Einnig má lesa nánar um verkið á vefsíðu Sinfóníunnar.

Sumarfrí!

Kaldalón

Eftir frábæra tónleikaferð á Ísafjörð og Þingeyri og frábæran söngvetur erum við komin í sumarfrí. Ferðin vestur var hin skemmtilegasta en haldnir voru tvennir tónleikar, þeir fyrri í Þingeyrarkirkju og seinni í Ísafjarðarkirkju. Þökkum við þeim sem komum á tónleikana fyrir frábærar viðtökur! Á leiðinni vestur var gert stutt stopp í Kaldalóni sem okkar ástkæra skáld, Sigvaldi, kennir sig við. Skyldustopp fyrir hvern þann kór sem á leið um Vestfirði! 🙂

Við erum nú farin á fullt að undirbúa næsta vetur, sem verður sem fyrr undir styrkri stjórn Magnúsar, en dagskráin verður full af spennandi verkefnum. Munum við birta dagskrána hér á síðunni þegar nákvæmar dagsetningar liggja fyrir.

Gleðilegt sumar kæru vinir!

TÓNLEIKAR: Enn syngur vornóttin

Söngsveitin Fílharmónía endar starfsárið með sumartónleikaferð til Vestfjarða, en þar heldur kórinn tvenna tónleika, á Þingeyri 3. júní ogÍsafirði 4. júní. Yfirskrift tónleikana er sótt í ljóð Tómasar Guðmundssonar, Enn syngur vornóttin, sem kórinn syngur ásamt öðrum hugljúfum sumarlegum sönglögum, frá Íslandi og Norðurlöndum. Dagskráin verður einnig flutt í Reykjavík, í Áskirkju þriðjudaginn 31. maí kl. 20, og í Skálholti laugardaginn 28. maí klukkan 16. Stjórnandi Söngsveitarinnar er Magnús Ragnarsson.

Miðaverð er 1500 kr, frítt fyrir börn 12 ára og yngri.

Miðar eru seldir við innganginn. (Enginn aðgangseyrir er á tónleikana í Skálholti, en gestum boðið að styrkja kórinn með framlögum).

Skálholt, laugardag 28.maí kl.16
Áskirkja, þriðjudag 31.maí kl. 20
Þingeyrarkirkja, föstudag 3.júní kl.20
Ísafjarðarkirkja, laugardag 4.júní kl.16