Aðventan og jólin

Jólaóratorían eftir Bach er eitt rómaðasta tónverk jólanna og mörgum ómissandi um jólin. Söngsveitin Fílharmonía mun flytja þetta gullfallega verk í Langholtskirkju 28. desember 2022 kl. 20:00, ásamt hljómsveit og einsöngvurunum Írisi Björk Gunnarsdóttur, Hildigunni Einarsdóttur, Benedikt Kristjánssyni og Oddi Arnþóri Jónssyni. Stjórnandi er Magnús Ragnarsson og konsertmeistari er Páll Palomares.

Miðasala á jólaoratoríuna er hafin á tix.is – smelltu hér til að kaupa miða!

Jólaóratorían segir söguna af fæðingu Jesú á áhrifamikinn og hrífandi hátt með fjörugum kórpörtum, dásamlegum sálmum og gullfallegum einsöngsaríum. Sagan er síðan bundin saman af tónlesi guðspjallamannsins sem Benedikt Kristjánsson mun túlka, en hann hefur hlotið mikið lof um allan heim fyrir túlkun sína á verkum Bachs.

Áður en að þessu öllu kemur mun kórinn halda aðventutónleika, þann 27. nóvember kl 20:00, þar sem kórinn mun flytja fjölbreytta jólatónlist ásamt sópransöngkonunni Hallveigu Rúnarsdóttur.

Miðasala á aðventutónleikana er hafin á tix.is – smelltu hér til að kaupa miða!

Requiem eftir Verdi og fleira á vorönn

Söngsveitin Fílharmónía situr ekki aðgerðarlaus þessa vorönnina, frekar en venjulega. 28. febrúar tekur kórinn þátt í aukasýningu á Evitu í Hörpu, í samstarfi við Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og með stórkostlegum einsöngvurum. Miðasala á tix.is.

Í tilefni af sextugsafmæli kórsins flytur hann eina rómuðustu sálumessu sem samin hefur verið, Messa da Requiem eftir Giuseppe Verdi, ásamt stórri sinfóníuhljómsveit og glæsilegum hópi einsöngvara: Hallveigu Rúnarsdóttur, sópran, Hildigunni Einarsdóttur, alt, Gissuri Páli Gissurarsyni, tenór og Kristni Sigmundssyni, bassa. Konsertmeistari er Sif Tulinius og stjórnandi Magnús Ragnarsson.

Tónleikarnir verða í Langholtskirkju, sunnudaginn 15. mars kl. 17. Miðaverð er 6.800 kr., 6.000 kr fyrir börn, aldraða og öryrkja. Miðasala á tix.is. Tónleikunum hefur verið frestað til hausts – ný dagsetning verður auglýst sem fyrst.

Um páskana tekur svo við annað samstarfsverkefni með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, en þá er það 9. sinfónía Beethovens, Óðurinn til gleðinnar. Verkið verður flutt í Hofi á Akureyri á skírdag, 9. apríl, og Langholtskirkju 11. apríl. Miðasala enn og aftur á tix.is; fyrir Hof og fyrir Langholtskirkju.

Síðast en alls ekki síst tekur kórinn þátt í tónleikum Andrea Bocelli í Kórnum 23. maí – og miðar á tix.is.

Jólatónleikar 2019

Söngsveitin Fílharmónía heldur árlega jólatónleika sína í Langholtskirkju, föstudaginn 27. desember kl. 20. Einsöngvari verður Kristinn Sigmundsson og stjórnandi kórsins er Magnús Ragnarsson.

Efnisskráin verður í senn hátíðleg og fjörug; íslensk þjóðlög og sígild jólalög frá ýmsum löndum. Eftir tónleikana verður boðið upp á jólasamsöng, heitt súkkulaði og smákökur.

Miðaverð er kr 3.900 og hægt er að kaupa miða hér:

https://tix.is/is/event/9186/jolatonleikar-songsveitarinnar-filharmoniu/

Einnig er hægt að kaupa gjafabréf fyrir miðum á tónleikana með því að senda tölvupóst á songsveitin@filharmonia.is eða hafa samband í Facebook skilaboðum.

Annasamt starfsár

Vetrarstarfið hefst af krafti hjá Söngsveitinni Fílharmóníu en í vetur fagnar kórinn sextíu ára afmæli sínu.

Þann 30. ágúst tók kórinn þátt í Klassíkinni okkar með Sinfóníuhljómsveit Íslands og má nálgast upptökur af þeim flutningi á vef Ríkisútvarpsins. Kórinn flutti þar meðal annars valda kafla úr sálumessu Mozarts, en Hallveig Rúnarsdóttir söng einsöng.

Þann 22. september flutti kórinn svo Níundu sinfóníu Beethovens ásamt Ungsveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands og hópi æskukóra, og í kjölfarið mun hver viðburðurinn rekja annan.

Frá flutningi á Níundu sinfóníu Beethovens
Mynd fengin af vef, og birt með góðfúslegu leyfi Sinfóníuhljómsveitar Íslands

Við hvetjum unnendur góðrar kórtónlistar að fylgjast með, hér á heimasíðunni og á Facebook-síðu kórsins, þar sem allir tónleikar verða kynntir sérstaklega, en næst á dagskrá eru hausttónleikar 2. nóvember. Auk þess erum við nú komin á Instagram þar sem birtast reglulega skemmtilegar myndir úr kórstarfinu.

Gleðilegan söngvetur!

Samstarfsverkefnið Requiem eftir Mozart

Vormisserið 2019 var helgað Requem eftir Wolfgang Amadeus Mozart sem Söngsveitin Fílharmónía flutti fyrir fullu húsi í Hofi á Akureyri og Langholtskirkju í Reykjavík ásamt Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, Kammerkór Norðurlands og einvala liði einsöngvara: Garðari Thór Cortes, Hönnu Dóru Sturludóttur, Ágústi Ólafssyni og Helenu Guðlaugu Bjarnadóttur. Um tónsprotann hélt finnski hljómsveitarstjórinn Anna Maria Hellsing, sem er eftirsótt um allan heim þessi árin og heillaði bæði flytjendur og áhorfendur upp úr skónum.

Ljósmynd: https://www.arcticshots.is

Söngsveitin Fílharmónía hefur átt farsælt samstarf við Sinfóníuhljómsveit Norðurlands að undanförnu, meðal annars við uppfærsluna á fyrstu tveimur kvikmyndunum úr Lord of the Rings-þríleiknum í Hörpu með lifandi tónlist. Gaman var að fylgja því vel heppnaða verkefni eftir með flutningi á sálumessu Mozarts, einni af skærustu perlu tónbókmenntanna, og aldrei að vita nema framhald verði á samstarfinu.