Requiem eftir Verdi – frestað

Okkur þykir leitt að tilkynna að kórinn hefur ákveðið að fresta flutningi á Requiem eftir Verdi um óákveðinn tíma vegna smithættu á Covid-19 veirunni. Ný tímasetning verður tilkynnt um leið og hún liggur fyrir. Miðar sem þegar hafa verið keyptir munu færast á nýja dagsetningu. Sjái einhver sér ekki fært að nýta miðana sína þá verður að sjálfsögðu hægt að fá þá endurgreidda með því að hafa samband á info@tix.is.

Tónleikarnir verða glæsilegir – þegar við loksins fáum að halda þá

Requiem eftir Verdi og fleira á vorönn

Söngsveitin Fílharmónía situr ekki aðgerðarlaus þessa vorönnina, frekar en venjulega. 28. febrúar tekur kórinn þátt í aukasýningu á Evitu í Hörpu, í samstarfi við Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og með stórkostlegum einsöngvurum. Miðasala á tix.is.

Í tilefni af sextugsafmæli kórsins flytur hann eina rómuðustu sálumessu sem samin hefur verið, Messa da Requiem eftir Giuseppe Verdi, ásamt stórri sinfóníuhljómsveit og glæsilegum hópi einsöngvara: Hallveigu Rúnarsdóttur, sópran, Hildigunni Einarsdóttur, alt, Gissuri Páli Gissurarsyni, tenór og Kristni Sigmundssyni, bassa. Konsertmeistari er Sif Tulinius og stjórnandi Magnús Ragnarsson.

Tónleikarnir verða í Langholtskirkju, sunnudaginn 15. mars kl. 17. Miðaverð er 6.800 kr., 6.000 kr fyrir börn, aldraða og öryrkja. Miðasala á tix.is. Tónleikunum hefur verið frestað til hausts – ný dagsetning verður auglýst sem fyrst.

Um páskana tekur svo við annað samstarfsverkefni með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, en þá er það 9. sinfónía Beethovens, Óðurinn til gleðinnar. Verkið verður flutt í Hofi á Akureyri á skírdag, 9. apríl, og Langholtskirkju 11. apríl. Miðasala enn og aftur á tix.is; fyrir Hof og fyrir Langholtskirkju.

Síðast en alls ekki síst tekur kórinn þátt í tónleikum Andrea Bocelli í Kórnum 23. maí – og miðar á tix.is.

Samstarfsverkefnið Requiem eftir Mozart

Vormisserið 2019 var helgað Requem eftir Wolfgang Amadeus Mozart sem Söngsveitin Fílharmónía flutti fyrir fullu húsi í Hofi á Akureyri og Langholtskirkju í Reykjavík ásamt Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, Kammerkór Norðurlands og einvala liði einsöngvara: Garðari Thór Cortes, Hönnu Dóru Sturludóttur, Ágústi Ólafssyni og Helenu Guðlaugu Bjarnadóttur. Um tónsprotann hélt finnski hljómsveitarstjórinn Anna Maria Hellsing, sem er eftirsótt um allan heim þessi árin og heillaði bæði flytjendur og áhorfendur upp úr skónum.

Ljósmynd: https://www.arcticshots.is

Söngsveitin Fílharmónía hefur átt farsælt samstarf við Sinfóníuhljómsveit Norðurlands að undanförnu, meðal annars við uppfærsluna á fyrstu tveimur kvikmyndunum úr Lord of the Rings-þríleiknum í Hörpu með lifandi tónlist. Gaman var að fylgja því vel heppnaða verkefni eftir með flutningi á sálumessu Mozarts, einni af skærustu perlu tónbókmenntanna, og aldrei að vita nema framhald verði á samstarfinu.