Vetrarstarf Söngsveitarinnar Fílharmóníu hefur litast mjög af heimsfaraldri covid-19 eins og gefur að skilja, allt frá því að við neyddumst til að fresta flutningnum á Sálumessu Verdis í mars í fyrra þegar fyrst var gripið til samkomutakmarkana. Síðan þá hafa æfingar verið með ýmsu móti, fyrst voru þær alveg felldar niður en síðan var æft í smærri hópum sem dreifðu sér um vel loftræsta Langholtskirkju. Í haust tókum við tæknina í okkar þjónustu og streymdum æfingum yfir netið fyrir þau sem ekki treystu sér til að mæta í kirkjuna og einu sinni æfðum við úti undir beru lofti.

Flestar hefðir kórsins hafa orðið að lúta í lægri haldi fyrir veirunni, engir vortónleikar voru haldnir og hvorki hausttónleikar né jólatónleikar, auk þess sem fjölda fyrirhugaðra verkefna var frestað. En þrátt fyrir ástandið höfum við haldið starfseminni gangandi og því langar okkur að ljúka starfsárinu með því að flytja lögin sem við höfum verið að æfa við þessar óvenjulegu aðstæður. Það eru ný og gömul verk eftir norræn tónskáld, allt frá Færeyjum til Finnlands, þar á meðal stjórnanda kórsins, Magnús Ragnarsson.

Tónleikarnir verða í Langholtskirkju sunnudaginn 30. maí kl. 20.

Aðgangur er ókeypis og allur aðbúnaður í samræmi við gildandi leiðbeiningar um sóttvarnir.

Næsta starfsár kórsins stefnir svo í að vera töluvert ólíkt því sem lýkur með þessum tónleikum, en ef áætlanir standast verður dagskráin á þessa leið:

  • Ágúst: Return of the King – bíósýning með lifandi tónlist
  • September: Níunda sinfónía Beethovens með Sinfóníuhljómsveit Íslands
  • Október: Söngleikurinn Chess
  • Nóvember: Tónleikar Andrea Boccelli
  • Desember: Jólatónleikar
  • Janúar: Requiem eftir Verdi – afmælistónleikarnir okkar frá í fyrra
  • Mars: Þýska sálumessan eftir Brahms með Sinfóníuhljómsveit Íslands