
Fílharmónían lauk starfsári sínu þann 6. júní sl. með aðalfundi, þar sem farið var yfir starf vetrarins. Meðal þess sem fram kom, var að æfingar hefðu verið 48 talsins frá september fram í maí og má því segja að kórinn hafi ekki setið auðum höndum í vetur. Fjölmargir listamenn komu fram með kórnum, íslenskir sem erlendir og við kveðjum veturinn reynslunni ríkari.
Fimm tónleikar voru haldnir á tímabilinu, þrennir af þeim fóru fram tvisvar. 30. október flutti Fílharmónían tónlist eftir George Gershwin og Jassmessu eftir Vytautas Miškinis. Tónleikarnir voru fluttir í Norðurljósasal Hörpu. Aðventutónleikar fóru fram í Langholtskirkju dagana 11. og 13. desember. 16. og 17. febrúar flutti Sinfóníuhljómsveit Íslands Hringadróttinssinfóníu Howards Shore, ásamt Fílharmóníunni, Kór Áskirkju, Hljómeyki og Stúlknakór Reykjavíkur. Aldarminning Róberts Abrahams Ottóssonar, stofnanda kórsins, var heiðruð 19. apríl í Langholtskirkju og 21. apríl í Skálholtsdómkirkju. Flutt voru verk útsett af honum en einnig frumflutti kórinn verkið Náttsöng, sem Hildigunnur Rúnarsdóttir samdi af þessu tilefni. Starfsárinu lauk á Listahátíð í Reykjavík þann 25. maí með samstarfi Sinfóníuhljómsveitarinnar annars vegar og Fílharmóníunnar, Kór Áskirkju og Hljómeyki hins vegar við flutning á Rómeó og Júlíu eftir Hector Berlioz. Fóru tónleikarnir fram í Eldborgarsal Hörpu.
Söngfólk Fílharmóníunnar hleypur nú út í sumarið með bros á vör eftir annir vetrarins. Við taka sumarstörf, frí og fjölskyldulíf eins og vera ber. Við þökkum öllum þeim sem hafa unnið með okkur í vetur fyrir samstarfið, sem og þeim sem komu og hlýddu á tónleikana okkar. Þar ber ekki síst að nefna fyrrum félaga Fílharmóníunnar sem okkur þótti afar vænt um að fá að syngja fyrir og deila minningum með.
Við hlökkum til að takast á við ný verkefni á komandi hausti, með gömlum vinum og nýjum.
Gleðilegt sumar!
Söngsveitin Fílharmónía nýtur þess heiðurs með Kór Áskirkju og Hljómeyki að taka þátt í flutningi á sinfóníunni Rómeó og Julía eftir Hector Berlioz á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands föstudaginn 25. maí. Tónleikarnir eru liður í Listahátíð í Reykjavík og verða í Eldborgarsal Hörpu. Í kynningu á verkinu segir svo á heimasíðu hljómsveitarinnar: „Fjöldi ógleymanlegra tónverka hefur orðið til undir áhrifum af harmleikjum Shakespeares. Eitt hið stærsta og óvenjulegasta er Rómeó og Júlía eftir franska meistarann Hector Berlioz, sem hann kallaði „dramatíska sinfóníu“. Hér er sinfóníuformið teygt í ýmsar áttir svo úr verður eins konar bræðingur hljómsveitarverks og óperu. Helstu þættir verksins eru sungnir af mezzósópran, tenór og bassa, auk þess sem Berlioz notar stóran kór í verkinu. Eitt það sem gerir nálgun tónskáldsins svo óvenjulega er þó að margir dramatískustu þættir sögunnar túlkaðir af hljómsveitinni eingöngu.“

Söngsveitin Fílharmónína tók þátt ásamt Kór Áskirkju, Hljómeyki, Stúlknakór Reykjavíkur, fleiri kórsöngvurum og einsöngvurum í tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands þar sem flutt var Hringadróttinssinfóníunni 16. og 17. febrúar sl. Óhætt er að segja að flutningurinn hafi tekist vel; Eldborgarsalur Hörpu var þéttsetinn, reyndar fullsetinn bæði kvöldin, og hljómsveit, kórar og stjórnendur hneigðu sig auðmjúklega undir dynjandi lófaklappinu sem ætlaði aldrei að linna. Aðalstjórnandi verksins var Erik Ochsner og mikil ánægja með samvinnuna við hann meðal flytjenda. Flestir hefðu viljað halda fleiri tónleika, þar sem eftirspurnin var mikil eftir miðum, en því varð ekki við komið af ýmsum ástæðum, meðal annars vegna anna erlendu listamannanna sem komu að verkefninu. Við látum okkur það vel lynda og munum minnast þessa viðburðar með þakklæti og ánægju.
Nú er jólaleyfi að baki og Söngsveitin byrjuð að æfa aftur. Fyrsta æfing þessrar annar var mánudaginn 9.janúar og var það jafnframt fyrsta æfing á Hringadróttinssinfóníunni eftir Howard Shore.