Best WordPress Theme based on Material Design - Materialize is a freemium WordPress theme developed by myThem.es

Annasamt starfsár

Vetrarstarfið hefst af krafti hjá Söngsveitinni Fílharmóníu en í vetur fagnar kórinn sextíu ára afmæli sínu.

Þann 30. ágúst tók kórinn þátt í Klassíkinni okkar með Sinfóníuhljómsveit Íslands og má nálgast upptökur af þeim flutningi á vef Ríkisútvarpsins. Kórinn flutti þar meðal annars valda kafla úr sálumessu Mozarts, en Hallveig Rúnarsdóttir söng einsöng.

Þann 22. september flutti kórinn svo Níundu sinfóníu Beethovens ásamt Ungsveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands og hópi æskukóra, og í kjölfarið mun hver viðburðurinn rekja annan.

Frá flutningi á Níundu sinfóníu Beethovens
Mynd fengin af vef, og birt með góðfúslegu leyfi Sinfóníuhljómsveitar Íslands

Við hvetjum unnendur góðrar kórtónlistar að fylgjast með, hér á heimasíðunni og á Facebook-síðu kórsins, þar sem allir tónleikar verða kynntir sérstaklega, en næst á dagskrá eru hausttónleikar 2. nóvember. Auk þess erum við nú komin á Instagram þar sem birtast reglulega skemmtilegar myndir úr kórstarfinu.

Gleðilegan söngvetur!

Samstarfsverkefnið Requiem eftir Mozart

Vormisserið 2019 var helgað Requem eftir Wolfgang Amadeus Mozart sem Söngsveitin Fílharmónía flutti fyrir fullu húsi í Hofi á Akureyri og Langholtskirkju í Reykjavík ásamt Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, Kammerkór Norðurlands og einvala liði einsöngvara: Garðari Thór Cortes, Hönnu Dóru Sturludóttur, Ágústi Ólafssyni og Helenu Guðlaugu Bjarnadóttur. Um tónsprotann hélt finnski hljómsveitarstjórinn Anna Maria Hellsing, sem er eftirsótt um allan heim þessi árin og heillaði bæði flytjendur og áhorfendur upp úr skónum.

Ljósmynd: https://www.arcticshots.is

Söngsveitin Fílharmónía hefur átt farsælt samstarf við Sinfóníuhljómsveit Norðurlands að undanförnu, meðal annars við uppfærsluna á fyrstu tveimur kvikmyndunum úr Lord of the Rings-þríleiknum í Hörpu með lifandi tónlist. Gaman var að fylgja því vel heppnaða verkefni eftir með flutningi á sálumessu Mozarts, einni af skærustu perlu tónbókmenntanna, og aldrei að vita nema framhald verði á samstarfinu.

Jólaljós – jólatónleikar Söngsveitarinnar Fílharmóníu

Kórinn heldur árlega jólatónleika sína í Langholtskirkju fimmtudaginn 27. desember kl. 20. Einsöngvari verður Þóra Einarsdóttir og með kórnum leikur tríó skipað píanói, kontrabassa og trompet. Efnisskráin verður í senn hátíðleg og fjörug; frumfluttur verður jólasálmur eftir Arngerði Maríu Árnadóttur og séra Davíð Þór Jónsson en jafnframt verða sungin íslensk þjóðlög og sígild jólalög frá ýmsum löndum. Stjórnandi er Magnús Ragnarsson. Miðaverð er 3.900 kr. og miðar eru seldir hér: https://tix.is/is/event/7195/jolaljos-songsveitin-filharmonia/

Kórfélagar syngja jólalög

 

Senn er komið sólarlag – hausttónleikar

Söngsveitin Fílharmónía heldur hausttónleika sína í Langholtskirkju föstudaginn 26. október kl. 20. Á efnisskránni eru fjölbreytt verk að vanda en þar má meðal annarra nefna The Conversion of Saul eftir Zane Randall Stroope, sem kórinn hefur flutt nokkrum sinnum við góðan orðstír. Hér má sjá kórinn flytja verkið í kórakeppni í Wales 2014:

Auk þess flytur kórinn tvö íslensk verk, Fenja Úhra eftir Hjálmar H. Ragnarsson og Kvölda tekur, sest er sól í útsetningu kórstjórans, Magnúsar Ragnarssonar.

Fleiri spennandi verk eru á dagskrá og er tilvalið að koma og hlýja sér við fallega tóna í haustmyrkrinu.

Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.

Viltu syngja með okkur?

Raddprufur verða hjá Söngsveitinni Fílharmóníu sunnudaginn 2. september 2018.

Fjölbreytt verkefni eru fram undan: hausttónleikar með nýlegum kórverkum, jólatónleikar og Requiem eftir Mozart í dymbilvikunni. Æft er á þriðjudögum kl. 19 til 22 í Langholtskirkju.  Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í starfinu eru beðnir að hafa samband við Magnús Ragnarsson kórstjóra í s. 698 9926.