Best WordPress Theme based on Material Design - Materialize is a freemium WordPress theme developed by myThem.es

Jólaljós – jólatónleikar Söngsveitarinnar Fílharmóníu

Kórinn heldur árlega jólatónleika sína í Langholtskirkju fimmtudaginn 27. desember kl. 20. Einsöngvari verður Þóra Einarsdóttir og með kórnum leikur tríó skipað píanói, kontrabassa og trompet. Efnisskráin verður í senn hátíðleg og fjörug; frumfluttur verður jólasálmur eftir Arngerði Maríu Árnadóttur og séra Davíð Þór Jónsson en jafnframt verða sungin íslensk þjóðlög og sígild jólalög frá ýmsum löndum. Stjórnandi er Magnús Ragnarsson. Miðaverð er 3.900 kr. og miðar eru seldir hér: https://tix.is/is/event/7195/jolaljos-songsveitin-filharmonia/

Kórfélagar syngja jólalög

 

Senn er komið sólarlag – hausttónleikar

Söngsveitin Fílharmónía heldur hausttónleika sína í Langholtskirkju föstudaginn 26. október kl. 20. Á efnisskránni eru fjölbreytt verk að vanda en þar má meðal annarra nefna The Conversion of Saul eftir Zane Randall Stroope, sem kórinn hefur flutt nokkrum sinnum við góðan orðstír. Hér má sjá kórinn flytja verkið í kórakeppni í Wales 2014:

Auk þess flytur kórinn tvö íslensk verk, Fenja Úhra eftir Hjálmar H. Ragnarsson og Kvölda tekur, sest er sól í útsetningu kórstjórans, Magnúsar Ragnarssonar.

Fleiri spennandi verk eru á dagskrá og er tilvalið að koma og hlýja sér við fallega tóna í haustmyrkrinu.

Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.

Viltu syngja með okkur?

Raddprufur verða hjá Söngsveitinni Fílharmóníu sunnudaginn 2. september 2018.

Fjölbreytt verkefni eru fram undan: hausttónleikar með nýlegum kórverkum, jólatónleikar og Requiem eftir Mozart í dymbilvikunni. Æft er á þriðjudögum kl. 19 til 22 í Langholtskirkju.  Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í starfinu eru beðnir að hafa samband við Magnús Ragnarsson kórstjóra í s. 698 9926.

Jólatónleikar Söngsveitarinnar Fílharmóníu

Jólatónleikar - veggspjald

Kórinn heldur tvenna jólatónleika í Landakotskirkju, miðvikudaginn 27. og fimmtudaginn 28. desember, kl. 20 báða dagana. Flutt verða sígild jólalög í bland við nýrri verk og verður dagskráin í senn hátíðleg og fjörgug. Bassasöngvarinn Oddur Arnþór Jónsson syngur einsöng, en hann var útnefndur Bjartasta vonin á Íslensku tónlistarverðlaununum fyrr á þessu ári fyrir frammistöðu sína í Don Carlo hjá Íslensku óperunni. Eins og undanfarin ár leikur Sophie Schoonjans hörpuleikari bæði einleik og með kórnum, og tónleikagestum gefst færi á að taka þátt í almennum söng. Stjórnandi er Magnús Ragnarsson.

Miðaverð á tónleikana er 3000 kr. í forsölu og 3500 kr. á staðnum. Forsölumiða er hægt að kaupa hjá kórfélögum eða á facebook-síðu kórsins.

Söngur á aðventunni

Nú nálgast jólin óðfluga og fyrirtæki og hinir ýmsu hópar líklega að skipuleggja jólagleði í þessum skrifuðu orðum. Fílharmónían býður upp á jólasöng – ljúfa og hressa tóna í bland – á hvers konar skemmtunum og viðburðum!

Næsta sumar heldur kórinn til Flórens og tekur þátt í kórakeppni. Liður í fjáröflun fyrir ferðina er jólasöngur í fyrirtækjum, stofnunum eða aðventu- og jólafundum félagasamtaka hvers konar á höfuðborgarsvæðinu í nóvember og desember.

Hluti af kórnum mætir þá á staðinn hvort sem er í hádeginu, seinnipartinn eða að kvöldi til, en uppsett verð fyrir 15-20 mín söng er kr. 50.000.