Best WordPress Theme based on Material Design - Materialize is a freemium WordPress theme developed by myThem.es

Kráarviska Fílharmóníunnar

Kórinn stefnir í útrás næsta sumar með þátttöku í kórakeppni í Flórens. Til að afla fjár fyrir ferðina verður haldin kráarviskukeppni (e: pub quiz) 2. nóvember næstkomandi, þar sem umfjöllunarefnið verður ýmislegt tengt einni ástsælustu kvikmynd Íslands; Með allt á hreinu. Frekari upplýsingar er að finna á Facebook viðburðinum.

 

Stuðmenn tilkynna lögreglunni um óvenjulega atburði

Mynd fengin að láni hjá www.isfilm.is

 

Kórinn í föruneyti hringsins eina

Það var nóg að gera hjá Söngsveitinni Fílharmóníu um helgina þegar fyrsta myndin í Hringadróttins-þríleiknum, The Fellowship of the Ring, var flutt í Hörpu með lifandi tónlist. Með okkur á sviðinu var stór sinfóníuhljómsveit, Hljómeyki, Skólakór Kársness og einsöngvarar, að ógleymdum stjórnandanum, Ludwig Wicki, sem hefur sérhæft sig í flutningi kvikmyndatónlistar og gerir fátt annað þessi árin en að stýra óskarsverðlaunatónlist Howards Shore um víða veröld. Eldborg Hörpu var troðfull af tónleikagestum þrjú kvöld í röð og miðað við fagnaðarlætin voru þeir frekar kátir. Það vorum við líka og förum bjartsýn inn í veturinn eftir að hafa komið hringnum eina áleiðis á áfangastað og rutt fáeinum orkum úr veginum.

Inntökupróf 3. september

Inntökupróf í kórinn verða haldin í Langholtskirkju kl. 13:00 þann 3. september 2017.  Framundan er gríðarlega spennandi starfsár, en meðal verkefna má nefna messu í Es dúr fyrir tvöfaldan kór eftir Rheinberger í nóvember, jólatónleika þar sem Oddur Arnþór Jónsson syngur með kórnum, og kórakeppni erlendis næsta sumar.  Kóræfingar fara fram í Langholtskirkju á mánudagskvöldum.

Frekari upplýsingar veitir Magnús Ragnarsson, stjórnandi kórsins, magnus.ragnarsson@gmail.com.

Þýsk sálumessa eftir Brahms

Þann 28. febrúar kl. 20:00 í Norðurljósum í Hörpu, flytur Söngsveitin Fílharmónía eitt mesta stórvirki kórbókmenntanna, Ein deutsches Requiem eftir Johannes Brahms. Einsöngvarar eru Kristinn Sigmundsson og Hallveig Rúnarsdóttir. Verkið er flutt í útsetningu fyrir tvö píanó og pákur. Um píanóleik sjá þær Guðríður St. Sigurðardóttir og Brynhildur Ásgeirsdóttir. Pákuleikari er Eggert Pálsson.
Söngsveitin flutti verkið með Sinfóníuhljómsveit Íslands í Háskólabíói vorið 2008, í söngför til Wrochlaw í Póllandi sama ár og nú síðast árið 2014 í Langholtskirkju. Fyrir þann flutning hlaut kórinn tilnefningu til Íslensku tónlistarverðlaunanna fyrir tónlistarviðburð ársins.

Miðaverð: 4500 kr. og fer miðasala fram á vef Hörpu.
https://www.harpa.is/dagskra/vidburdur/thysk-salumessa-eftir-brahms-songsveitin-filharmonia/

Jólasöngur Fílharmóníunnar

38 dagar til jóla – Er farið að huga að jólaskemmtun í þínu fyrirtæki/stofnun?

Þar sem óðum styttist í jólin vill Söngsveitin Fílharmónía vekja athygli á söngþjónustu sinni.

Söngveitin Fílharmónía er stór, blandaður kór sem hefur verið starfandi síðan 1959. Undanfarna áratugi hefur kórinn flutt fjölda verka með Sinfóníuhljómsveit Íslands en einnig haldið sjálfstæða tónleika og flutt fjölbreytta og lifandi dagskrá, svo sem kletzmer-gyðingatónlist og dægurlög í kórútsetningum.  Stjórnandi kórsins er Magnús Ragnarsson.

Fastur liður í starfsemi Fílharmóníunnar eru jólatónleikarnir okkar þar sem kórinn kemur fram með ýmsum einsöngvurum og flytur hátíðlega jólatónlist.  Þetta árið munum við halda jólatónleika með söngkonunni Diddú.

Í gegnum árin höfum við boðið fyrirtækjum og stofnunum upp á að fá kórinn sem skemmtiatriði í aðdraganda jóla.  Jafnan hefur stjórnandi sett saman minni hópa úr kórnum sem mæta og flytja jólatónlist, hvort sem er hátíðleg verk og hefðbundin eða dægurlagaskotnari tónlist.

Nú erum við farin að taka niður pantanir fyrir komandi jólahátíð og langar af því tilefni að benda þínu fyrirtæki/þinni stofnun á þessa þjónustu.

Hver heimsókn er einstök og gefum við ykkur því verðtilboð eftir því hvert tilefnið er og renna allar greiðslur beint í ferðasjóð kórsins en stefnt er að þátttöku í kórakeppni i Póllandi í júní 2017.

Hafi þitt fyrirtæki/þín stofnun áhuga á jólasöng frá vönu kórfólki er hægt að hafa samband við formann kórsins, Ásdísi Björk Kristjánsdóttur, með töluvupósti (songfilar@gmail.com) eða í gegnum Facebook-síðu okkar, Söngveitin Fílharmónía.

Allar nánari upplýsingar um kórinn sem og tóndæmi má finna á nefndri Facebook-síðu og einnig á heimasíðu kórsins.

Með von um góð viðbrögð,

Stjórn Söngsveitarinnar Fílharmóníujolasongur