Best WordPress Theme based on Material Design - Materialize is a freemium WordPress theme developed by myThem.es

Messa da Requiem eftir Verdi

Söngsveitin Fílharmónía ásamt sinfóníuhljómsveit og glæsilegum hópi einsöngvara flytur eina rómuðustu sálumessu sem samin hefur verið, Messa da Requiem eftir Giuseppe Verdi í Langholtskirkju 10. apríl kl. 20.

Flutningi verksins hefur ítrekað verið frestað vegna Covid-19 faraldursins, en upphaflega stóð til að flytja það vorið 2020 í tilefni af 60 ára afmæli Söngsveitarinnar Fílharmóníu. Í gegnum faraldurinn hefur kórinn haldið færni sinni við að mestu á æfingum í gegnum fjarfundarbúnað, sem mjög hefur reynt á kórmeðlimi jafnt sem stjórnanda.

Það verður því sannarlega hátíðleg gleðistund þegar faraldurinn verður loks kvaddur og stórafmæli fagnað með þessum táknræna hætti með flutningi stórvirkis Verdis fyrir fullri Langholtskirkju.

Sem fyrr segir er umgjörð og uppsetning öll hin glæsilegasta, því auk sinfóníuhljómsveitar sem skipuð er mörgum af færustu hljóðfæraleikurum landsins koma fram nokkrir af bestu einsöngvurum þjóðarinnar: Kristinn Sigmundsson bassi og Gissur Páll Gissurarson tenór hafa báðir sungið verkið oftsinnis áður við góðan orðstír, en Hallveig Rúnarsdóttir sópran og Hildigunnur Einarsdóttir mezzósópran flytja nú verkið í fyrsta sinn, fullar eftirvæntingar.

Konsertmeistari er Sif Margrét Tulinius og stjórnandi Magnús Ragnarsson.

Miðar fást enn á www.tix.is.

Vortónleikar með norrænu yfirbragði

Vetrarstarf Söngsveitarinnar Fílharmóníu hefur litast mjög af heimsfaraldri covid-19 eins og gefur að skilja, allt frá því að við neyddumst til að fresta flutningnum á Sálumessu Verdis í mars í fyrra þegar fyrst var gripið til samkomutakmarkana. Síðan þá hafa æfingar verið með ýmsu móti, fyrst voru þær alveg felldar niður en síðan var æft í smærri hópum sem dreifðu sér um vel loftræsta Langholtskirkju. Í haust tókum við tæknina í okkar þjónustu og streymdum æfingum yfir netið fyrir þau sem ekki treystu sér til að mæta í kirkjuna og einu sinni æfðum við úti undir beru lofti.

Flestar hefðir kórsins hafa orðið að lúta í lægri haldi fyrir veirunni, engir vortónleikar voru haldnir og hvorki hausttónleikar né jólatónleikar, auk þess sem fjölda fyrirhugaðra verkefna var frestað. En þrátt fyrir ástandið höfum við haldið starfseminni gangandi og því langar okkur að ljúka starfsárinu með því að flytja lögin sem við höfum verið að æfa við þessar óvenjulegu aðstæður. Það eru ný og gömul verk eftir norræn tónskáld, allt frá Færeyjum til Finnlands, þar á meðal stjórnanda kórsins, Magnús Ragnarsson.

Tónleikarnir verða í Langholtskirkju sunnudaginn 30. maí kl. 20.

Aðgangur er ókeypis og allur aðbúnaður í samræmi við gildandi leiðbeiningar um sóttvarnir.

Næsta starfsár kórsins stefnir svo í að vera töluvert ólíkt því sem lýkur með þessum tónleikum, en ef áætlanir standast verður dagskráin á þessa leið:

  • Ágúst: Return of the King – bíósýning með lifandi tónlist
  • September: Níunda sinfónía Beethovens með Sinfóníuhljómsveit Íslands
  • Október: Söngleikurinn Chess
  • Nóvember: Tónleikar Andrea Boccelli
  • Desember: Jólatónleikar
  • Janúar: Requiem eftir Verdi – afmælistónleikarnir okkar frá í fyrra
  • Mars: Þýska sálumessan eftir Brahms með Sinfóníuhljómsveit Íslands

Nú er hún Grýla dauð

Söngsveitin Fílharmónía hefur varla getað komið saman til að æfa síðan í mars, þegar sett var á samkomubann um það leyti sem kórinn hugðist flytja Sálumessu Verdis með stórri hljómsveit fyrir fullum sal af fólki. Enn á eftir að koma í ljós hvenær þeir tónleikar geta orðið og þökkum við þeim sem þegar hafa keypt sér miða fyrir biðlundina.

Að undanförnu hafa verið haldnar kóræfingar á netinu, sem fara þannig fram að hver söngvari syngur fyrir framan sína tölvu og heyrir bara í kórstjóranum og sjálfum sér. Þannig höfum við æft jólalögin, þótt enn sé óvíst hvenær og hvernig þau verða flutt. En til að gleðja okkur sjálf og vonandi fleiri tókum við eitt þeirra upp, Grýlu eftir Leif Hauksson og Pétur Gunnarsson, í útsetningu Magnúsar Ragnarssonar. Um klippingu og hljóðblöndun sá Gunnar Freyr Steinsson. Ætli þetta sé ekki glaðlegasta andlátsfregn sem samin hefur verið?

Requiem eftir Verdi – frestað

Okkur þykir leitt að tilkynna að kórinn hefur ákveðið að fresta flutningi á Requiem eftir Verdi um óákveðinn tíma vegna smithættu á Covid-19 veirunni. Ný tímasetning verður tilkynnt um leið og hún liggur fyrir. Miðar sem þegar hafa verið keyptir munu færast á nýja dagsetningu. Sjái einhver sér ekki fært að nýta miðana sína þá verður að sjálfsögðu hægt að fá þá endurgreidda með því að hafa samband á info@tix.is.

Tónleikarnir verða glæsilegir – þegar við loksins fáum að halda þá

FRESTUN til 18. október – Requiem eftir Verdi **uppfært: frestað áfram

Kórinn hefur ákveðið að fresta flutningi á Requiem eftir Verdi fram á haust vegna smithættu á Covid-19 veirunni. Ákvörðun var ekki léttvæg eða auðveld en okkur þótti óhjákvæmilegt að sýna ábyrgð og stefna ekki saman stórum hópi fólks, hvorki í áhorfendasætum né meðal flytjenda, eins og ástandið er.

Unnið er að því að finna nýja dagsetningu fyrir tónleikana og verður hún auglýst um leið og hún hefur verið staðfest. Ný dagsetning er 18. október kl 20:00, en viðburðurinn er óbreyttur að öðru leyti! UPPFÆRT 1.10.2020: Enn er ekki öruggt að halda tónleikana og þeir frestast því áfram um óákveðinn tíma.

Miðar sem þegar hafa verið keyptir munu færast á nýja dagsetningu. Sjái einhver sér ekki fært að nýta miðana sína þá verður að sjálfsögðu hægt að fá þá endurgreidda með því að hafa samband á info@tix.is.