Best WordPress Theme based on Material Design - Materialize is a freemium WordPress theme developed by myThem.es

Draumsýn

Plakat_Draumsyn2Söngsveitin Fílharmónía og Duo Harpverk flytja nýja og spennandi tónlist í Háteigskirkju sunnudaginn 8. nóvember 2015 kl. 17.

Á efnisskránni er að þessu sinni tónlist ungra íslenskra höfunda og vinsæl kórverk eftir vel þekkt erlend tónskáld. Fyrst er að nefna frumflutning á nýju verki Sigurðar Árna Jónssonar, Vaknaðu, við samnefnt ljóð Snorra Hjartarsonar. Það er samið fyrir Söngsveitina og skrifað fyrir kór, víbrafón og hörpu. Þá flytur kórinn verkin Upphaf eftir Hreiðar Inga Þorsteinsson og Nú legg ég þér í lófa eftir Þóru Marteinsdóttur, en Þóra er jafnframt félagi í Söngsveitinni. Stars eftir lettneska tónskáldið Ērik Ešenvalds er dulúðugt verk þar sem höfundur notar m.a. glasahljóm til að seiða fram mynd af stjörnubjartri nótt. Í verkinu Helletused leikur Eistlendingurinn Veljo Tormis sér með vinsælt þjóðlag sem á uppruna sinn í kalli eistneskra kúasmala. Tónleikunum lýkur síðan með tveimur verkum eftir bandaríska tónskáldið Eric Whitacre: Cloudburst og Leonardo dreams of his flying machine. Í hinu fyrra er því lýst hvernig himnarnir opnast og langþráð regnið fellur, en seinna verkið er mynd af glímu Leonardos da Vinci við hina miklu draumsýn mannsins, að geta hafið sig til flugs.

Slagverksleikarinn Frank Aarnink og Katie Buckley hörpuleikari hafa starfað saman undir nafninu Duo Harpverk frá árinu 2007 og komið víða fram jafnt innanlands sem utan. Oftar en ekki flytja þau tónlist sem samin hefur verið sérstaklega fyrir þau. Duo Harpverk leggur Söngsveitinni Fílharmóníu lið í þremur verkum á þessum tónleikum og leikur auk þess eigin dagskrá.

Einsöngvarar á tónleikunum eru allir úr röðum kórfélaga: Vigdís Sigurðardóttir, Elva Rakel Jónsdóttir, Arndís A. K. Gunnarsdóttir og Heimir Þór Kjartansson.
Stjórnandi Söngsveitarinnar Fílharmóníu er Magnús Ragnarsson.

Miðasala er hjá kórfélögum, í 12 tónum og við innganginn.

Almennt miðaverð: 2.500 kr.

Verð í forsölu: 2.000 kr.

Eldri borgarar og námsmenn: 1.500 kr.

Börn 12 ára og yngri greiða ekki aðgangseyri

Söngsveitin Fílharmónía og Sinfóníuhljómsveit áhugamanna

Sinfóníuhljómsveit áhugamanna undir stjórn Oliver Kentish og Söngsveitin Fílharmónía undir stjórn Magnúsar Ragnarssonar stilla saman strengi sína á tvennum tónleikum í Seltjarnarneskirkju í marsmánuði.

Efnisskrá tónleikanna er tvískipt. Fyrir hlé flytur Sinfóníuhljómsveit áhugamanna strengjaverkið “Hymni” eftir Snorra Sigfús Birgisson. Verkið er samið árið 1982 fyrir Nýju strengjasveitina. Eftir hlé munu hljómsveit og kór ásamt fjórum einsöngvurum flytja Messu í B-dúr eftir Joseph Haydn. Verkið, sem er ein af fjórtán messum eftir Haydn, var samið árið 1799 og frumflutt í september sama ár. Messa í B- dúr er jafnan kölluð Theresíumessan en það var einmitt María Theresa, eiginkonu Franz II sem söng sópran í frumflutningi verksins í Vínarborg.

Það hefur verið sagt um Theresíumessu Haydns að hún beri sterk höfundareinkenni hans og komi á óvart með skyndilegum og óundirbúnum styrkleikabreytingum og tóntegundaskiptum.

Einvalalið söngvara syngur einsöngshlutverk í verkinu en það eru þau Hallveig Rúnarsdóttir, Hildigunnur Einarsdóttir, Þorbjörn Rúnarsson og
Viðar Gunnarsson.

Konsertmeisari er Hildigunnur Rúnarsdóttir.

Eins og áður segir verða tónleikarnir tvennir. Þeir fyrri, sunnudaginn 29. mars kl. 20 og þeir seinni þriðjudaginn 31.mars kl. 20.

Báðir tónleikarnir verða í Seltjarnarneskirkju.

Miðaverð er 3000 kr í forsölu hjá kórfélögum og 3500 kr á midi.is og við inngang á tónleikadegi.

Kórveisla á góunni

Kammerkór Seltjarnarneskirkju, Kór Neskirkju, Söngfjelagið, Dómkórinn og Söngsveitin Filharmónía ætla að bjóða upp á hressilega tónleikaveislu laugardaginn 28. febrúar í Seltjarnarneskirkju klukkan 17.

Flutt verða verk frá barokktímanum til dagsins í dag, íslensk verk í bland við verk frá Eistlandi, Svíþjóð, Japan og Bandaríkjunum. Hver kór syngur sér og síðan syngja allir fimm kórarnir saman í lokin.

Þessi magnaði tónlistarkokteill kostar aðeins 1.000 kr. Miðasala verður við innganginn í Seltjarnarneskirkju. Hlökkum til að gleðjast með ykkur á góunni!

Söngsveitin Fílharmónía ásamt Elmari og Sophie

Jólatónleikar Söngsveitarinnar Fílharmóníu

Háteigskirkja, laugardaginn 20.desember kl. 20
Kristskirkja við Landakot 29.desember kl. 20

Á jólatónleikunum í ár flytur kórinn íslensk og erlend jólalög í bland við hátíðlega tónlist. Kórinn fær jafnan eðal tónlistarfólk til liðs við sig á jólatónleikum og að þessu sinni er ekki brugðið út af þeim góða vana. Einsöngvari með kórnum á báðum tónleikum er tenórinn Elmar Gilbertsson sem sló eftirminnilega í gegn í óperu Gunnars Þórðarsonar, Ragnheiði. Meðleikari á hörpu er Sophie Schoonjans og stjórnandi er Magnús Ragnarsson.

Miðaverð er 2.400 kr. hjá kórfélögum en 2.900 kr. á midi.is og við innganginn

Jólatónleikar 2014