Söngur á aðventunni

Nú nálgast jólin óðfluga og fyrirtæki og hinir ýmsu hópar líklega að skipuleggja jólagleði í þessum skrifuðu orðum. Fílharmónían býður upp á jólasöng – ljúfa og hressa tóna í bland – á hvers konar skemmtunum og viðburðum!

Næsta sumar heldur kórinn til Flórens og tekur þátt í kórakeppni. Liður í fjáröflun fyrir ferðina er jólasöngur í fyrirtækjum, stofnunum eða aðventu- og jólafundum félagasamtaka hvers konar á höfuðborgarsvæðinu í nóvember og desember.

Hluti af kórnum mætir þá á staðinn hvort sem er í hádeginu, seinnipartinn eða að kvöldi til, en uppsett verð fyrir 15-20 mín söng er kr. 50.000.

Rheinberger í góðum félagsskap 14. nóvember

Rheinberger verður í góðum félagsskap 14. nóvember

14. nóvember næstkomandi flytur kórinn dásamlega fallega messu í Es dúr sem Joseph Rheinberger samdi fyrir tvöfaldan kór. Rheinberger var undrabarn í tónlist og aðeins 7 ára gamall var hann organisti í kirkju í sínum heimabæ í Lichtenstein. Ásamt messunni munum við færa áheyrendum verk eftir Rachmaninoff, Villette og Þorvald Örn Davíðsson.

Tónleikarnir hefjast kl 20 í Langholtskirkju. Miðasala fer fram við innganginn á tónleikadag, á Facebook síðu kórsins og hjá söngfélögum. Miðaverð er kr. 2000.

Kráarviska Fílharmóníunnar

Kórinn stefnir í útrás næsta sumar með þátttöku í kórakeppni í Flórens. Til að afla fjár fyrir ferðina verður haldin kráarviskukeppni (e: pub quiz) 2. nóvember næstkomandi, þar sem umfjöllunarefnið verður ýmislegt tengt einni ástsælustu kvikmynd Íslands; Með allt á hreinu. Frekari upplýsingar er að finna á Facebook viðburðinum.

 

Stuðmenn tilkynna lögreglunni um óvenjulega atburði

Mynd fengin að láni hjá www.isfilm.is

 

Kórinn í föruneyti hringsins eina

Það var nóg að gera hjá Söngsveitinni Fílharmóníu um helgina þegar fyrsta myndin í Hringadróttins-þríleiknum, The Fellowship of the Ring, var flutt í Hörpu með lifandi tónlist. Með okkur á sviðinu var stór sinfóníuhljómsveit, Hljómeyki, Skólakór Kársness og einsöngvarar, að ógleymdum stjórnandanum, Ludwig Wicki, sem hefur sérhæft sig í flutningi kvikmyndatónlistar og gerir fátt annað þessi árin en að stýra óskarsverðlaunatónlist Howards Shore um víða veröld. Eldborg Hörpu var troðfull af tónleikagestum þrjú kvöld í röð og miðað við fagnaðarlætin voru þeir frekar kátir. Það vorum við líka og förum bjartsýn inn í veturinn eftir að hafa komið hringnum eina áleiðis á áfangastað og rutt fáeinum orkum úr veginum.

Inntökupróf 3. september

Inntökupróf í kórinn verða haldin í Langholtskirkju kl. 13:00 þann 3. september 2017.  Framundan er gríðarlega spennandi starfsár, en meðal verkefna má nefna messu í Es dúr fyrir tvöfaldan kór eftir Rheinberger í nóvember, jólatónleika þar sem Oddur Arnþór Jónsson syngur með kórnum, og kórakeppni erlendis næsta sumar.  Kóræfingar fara fram í Langholtskirkju á mánudagskvöldum.

Frekari upplýsingar veitir Magnús Ragnarsson, stjórnandi kórsins, magnus.ragnarsson@gmail.com.