Best WordPress Theme based on Material Design - Materialize is a freemium WordPress theme developed by myThem.es

Sumarið er komið og kórinn er enn að!

by Formaður

Aðalfundur og Llangollen

Í gær var haldinn aðalfundur Söngsveitarinnar Fílharmóníu þar sem farið var yfir starfsemi 54. starfsár kórsins og kosið til stjórnar. Formaður verður áfram Agla Ástbjörnsdóttir og aðalstjórn skipa þau Birna Eiríksdóttir, Haukur K. Bragason, Þóra Harðardóttir og Þórsteinn Ágústsson. Varastjórn skipa Ásdís Björk Kristánsdóttir, Rannveig Magnúsdóttir og Þengill Ólafsson.

Venja er að ljúka starfsárinu með aðalfundi en að þessu sinni eru kórfélagar og stjórnandi hans langt í frá komin í sumarfrí frá indælum söng og nærandi samveru.  Ástæðan er þátttaka í alþjóðlegri tónlistarhátíð sem fram fer í Llangollen í Wales dagana 7.-14. júlí . Þar mun kórinn koma fram á eigin tónleikum auk þess að keppa í tveimur flokkum blandaðra kóra.  Mikil tilhlökkun ríkir í hópnum sem er staðráðinn í að gera sitt besta á mótinu en umfram allt njóta.

Á starfsárinu hefur kórinn komið sextán sinnum fram m.a.  á kóramóti Landssamands blandaðara kóra í Hörpu, á tvennum hausttónleikum, tvennum jóla- og aðventutónleikum og hvorki meira né minna en sjö tónleikum þar sem efnisskrá Walesferðarinnar var flutt, sunnan lands og norðan. Á þrennum tónleikum, í Reykjavík, á Akureyri og í Skálholti, var haft skemmtilegt samstarf við þrjá kóra, Kór Neskirkju, Kór Akureyrarkirkju og kammerkórinn Melodiu.

Næsti vetur

Nú þegar liggja fyrir drög að næsta vetri.  Við munum hefja haustið á því að æfa Sálumessu Brahms – ein Deutches Requiem af fullum þunga fram að tvennum tónleikum í Langholtskirkju, dagana 25. og 26. október. Einsöngvarar á tónleikunum verða þau Kristinn Sigmundsson og Hallveig Rúnarsdóttir og meðleikarar á tvö píanó verða þær Guðríður St. Sigurðardóttir og Brynhildur Ásgeirsdóttir.  Það verður gaman að takast á við þetta verkefni ásamt öðrum spennandi verkefnum á næsta starfsári sem hefst áður en langt um líður. En fram að því óskar Söngsveitin Fílaharmónía þess að velunnarar kórsins njóti sumarsins og þakkar þeim samfylgdina á starfsárinu.

Gleðilegt sumar!

Næst er það Norðurlandið!

by Formaður

Söngsveitin Fílharmónía hefur verið iðin við tónleikahald það sem af er þessu ári og heimsækir næst Siglufjörð og Akureyri helgina 16.-18. maí. Um fimmtíu söngvarar verða með í þessarri söngferð, enda er almennt mikil tilhlökkun í hópnum yfir að heimsækja Norðurlandið fagra og syngja fyrir íbúa Tröllaskaga og Akureyringa.

Kórinn er að undirbúa sig fyrir kórakeppni í Llangollen í Wales í sumar og á  efnisskrá tónleikanna fyrir norðan er að finna lög sem kórinn fer með í keppnina. Á efnisskránni, sem er býsna fjölbreytt, eru bæði íslensk og erlend verk, svo sem eftir norska tónskáldið Ola Gjeilo, Randall Z. Stoope, Báru Grímsdóttur, Gunnstein Ólafsson. Hreiðar Inga Þorsteinsson og Þóru Marteinsdóttur.

Tónleikarnir verða á laugardag kl. 17 í  Siglufjarðarkirkju og kl. 16 á sunnudaginn í Akureyrarkirkju þar sem kór kirkjunnar kemur einnig fram.

Tónleikar í Selfosskirkju

by Formaður

Næstu tónleikar Fílharmóníu verða í Selfosskirkju laugardaginn 26. apríl kl. 17.  Þar mun kórinn flytja fjölbreytta efnisskrá sem einnig verður flutt í kórakeppni í Llangollen í Wales í júlí.Efnisskráin samanstendur af ýmsum verkum íslenskra og erlendra tónskálda, svo sem eftir Ola Gjeilo, Z. Randall Stoope, Báru Grímsdóttur og Hreiðar Inga Þorsteinsson svo fátt eitt sé nefnt. Aðgangseyrir er 2000 kr.