Best WordPress Theme based on Material Design - Materialize is a freemium WordPress theme developed by myThem.es

Tónleikar til heiðurs Dr. Róbert A. Ottóssyni, stofnanda Söngsveitarinnar Fílharmóníu.

by Formaður

Söngsveitin Fílharmónína tók þátt ásamt Kór Áskirkju, Hljómeyki, Stúlknakór Reykjavíkur, fleiri kórsöngvurum og einsöngvurum í tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands þar sem flutt var Hringadróttinssinfóníunni 16. og 17. febrúar sl. Óhætt er að segja að flutningurinn hafi tekist vel; Eldborgarsalur Hörpu var þéttsetinn, reyndar fullsetinn bæði kvöldin, og hljómsveit, kórar og stjórnendur hneigðu sig auðmjúklega undir dynjandi lófaklappinu sem ætlaði aldrei að linna. Aðalstjórnandi verksins var Erik Ochsner og mikil ánægja með samvinnuna við hann meðal flytjenda. Flestir hefðu viljað halda fleiri tónleika, þar sem eftirspurnin var mikil eftir miðum, en því varð ekki við komið af ýmsum ástæðum, meðal annars vegna anna erlendu listamannanna sem komu að verkefninu. Við látum okkur það vel lynda og munum minnast þessa viðburðar með þakklæti og ánægju.

——————————-

Og það er líf eftir Hringinn. Næst tekur Söngsveitin til við mikilvægt verkefni: Að heiðra minningu stofnanda kórsins, Róberts Abrahams Ottóssonar. Róbert var af þýskum ættum en flutti hingað til lands 1935 og bjó hér á landi æ síðan þar til hann lést árið 1974. Hann fæddist 17. maí 1912 í Berlín og því verða liðin hundrað ár frá fæðingu hans í maí næstkomandi. Af því tilefni mun Söngsveitin að halda tónleika í apríl, þar sem frumflutt verður nýtt verk Hildigunnar Rúnarsdóttur, sem hún hefur samið fyrir kór, sópransóló og orgel að beiðni Söngsveitarinnar. Verkið hefur hlotið nafnið Náttsöngur og er tileinkað ævistarfi og rannsóknum dr. Róberts.

Á tónleikunum verða einnig fluttar tónsmíðar og raddsetningar  Róberts.

Æfingar eru þegar hafnar og það verður gaman að takast á við íslensk verk að nýju eftir að hafa verið niðursokkin í álfísku (e. elvish) undanfarnar vikur! Það er heiður fyrir Söngsveitina að minnast stofnanda síns, enda ófá verkefni sem kórinn hefur tekist á við á ríflega fimmtíu ára starfsferli.

 

Hringadróttinssinfónían

by Formaður

Nú er jólaleyfi að baki og Söngsveitin byrjuð að æfa aftur. Fyrsta æfing þessrar annar var mánudaginn 9.janúar og var það jafnframt fyrsta æfing á Hringadróttinssinfóníunni eftir Howard Shore.

Söngsveitin syngur þetta stórbrotna verk ásamt kór Áskirkju, Hljómeyki, Stúlknakór Reykjavíkur og fleiri kórsöngvurum og eru þátttakendur því samtals yfir 150 talsins.

Flestir hafa hlustað á og stúderað verkið yfir jólin, svo sem í heimahúsum, bílnum, í vinnunni og í ræktinni, með öðrum orðum hvenær sem tækifæri gefst, og eru allir fullir tilhlökkunar að taka þátt í þessu stóra verkefni með Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Tónleikarnir fara fram í Eldborgarsal Hörpu 16. og 17. febrúar næstkomandi og er nú hver síðastur að ná sér í miða enda bara örfá sæti laus!

Jólafrí

by Formaður

Aðventutónleikar Söngsveitarinnar eru nú afstaðnir og gengu eins og í sögu. Áheyrendur kunnu að meta kertaljósin og notalegheitin sem, ásamt ljúfum söngnum, fylltu Langholtskirkju sönnum jólaanda. Gissur Páll söng einsöng og heillaði gesti upp úr skónum og Steingrímur Þórhallsson spilaði á orgel og píanó af alkunnri snilld sinni. Kórinn fer því sáttur og sæll í sitt hefðbundna jólafrí, þótt búast megi við að raddböndin verði þanin yfir pottum og pökkum.

Starfið hefst svo aftur af fullum krafti undir stjórn Magnúsar Ragnarssonar í byrjun nýárs og mun Söngsveitin meðal annars takast á við Hringadróttinssinfóníu Howards Shore, ásamt fleiri kórum og Sinfóníuhljómsveit Íslands. Síðar mun kórinn heiðra stofnanda Söngsveitarinnar, Róbert Abraham Ottósson, á aldarafmæli hans í vor. Kórinn er fullur tilhlökkunar og ljóst að 2012 verður fullt af nýjum ævintýrum og áskorunum.

Söngsveitin Fílharmónía óskar landsmönnum innilega gleðilegra jóla og farsæls nýárs. Við þökkum fyrir árið sem er að líða og allar góðu stundirnar sem við höfum átt með tónleikagestum, vinum, samstarfsfólki og hvert öðru.

Aðventutónleikar – Hin fegursta rósin er fundin

by Formaður

Sunnudaginn 11. des. kl. 17.00 og

þriðjudaginn 13. desember kl. 20.00

verða í Langholtskirkju hinir árlegu aðventutónleikar okkar og í ár hefur þeim verið valin yfirskriftin  Hin fegursta rósin er fundin.

Í mörg ár hefur Söngsveitin haldið tónleika á aðventu og jafnan lagt áherslu á að kynna fjölbreytileg verk sem henta til flutnings á aðventu. Í tilefni þess að í vor verða liðin hundrað ár frá fæðingu dr. Róberts Abrahams Ottóssonar, stofnanda kórsins, verða fluttar á þessum tónleikum raddsetningar hans á gömlum sálmalögum . Einnig verða flutt íslensk verk frá ýmsum tímum og er það nýjasta Svalt er á heimsins hjarni eftir Martein H. Friðriksson, sem stjórnaði Söngsveitinni 1976 – 1980.  Þá verða á tónleikunum erlend þekkt verk sem tónleikagestir ættu að kunna vel að meta.Fastur liður aðventutónleika Fílharmóníu er að salurinn sameinast í söng með kórnum í nokkrum lögum.

Einsöngvari verður Gissur Páll Gissurarson. Steingrímur Þórhallsson spilar á orgel í nokkrum verkanna og stjórnandi erMagnús Ragnarsson.

Miðar fást hjá kórfélögum, í 12 Tónum á Skólavörðustíg 15 og við innganginn. Miðaverð er 2900 kr. en verð fyrir 12 ára og yngri er 1000 kr.

 

Söngsveitin komin í jólaskap…

by Formaður

Þá er fyrstu tónleikum vetrarins lokið. Jazzmessa Miskinis heppnaðist með ágætum og það sama má segja um tónlist Gerschwin. Einsöngvararnir Valdís og Einar voru frábær og hljómsveitin sömuleiðis. Eftir tónleika snæddum við á veitingastaðnum Uno og allir voru glaðir.

Félagar mættu síðan hressir og kátir á fyrstu æfinguna fyrir aðventutónleika á miðvikudaginn 2.nóvember og sungu jólalög af miklum krafti og gæddu sér á kaffi og piparkökum í hléinu. Ekki amalegt það! Kórstarfið heldur áfram að vera lifandi og skemmtilegt og jólalög lífga heldur betur upp á skammdegið. Kórinn er að komast í jólaskap!