Best WordPress Theme based on Material Design - Materialize is a freemium WordPress theme developed by myThem.es

Söngsveitin tekur þátt í kórahátíð!

Söngsveitin Fílharmónía tekur þátt í kóramóti Landssambands blandaðra kóra í Hörpu, helgina 18.-20.október 2013. Þar munu 24 kórar syngja fyrir gesti og gangandi í Norðurljósum og víðsvegar um húsið.

Laugardagur
Á laugardeginum er mikið um að vera í húsinu öllu, þegar kórarnir skiptast á að syngja eigin dagskrá. Röðin kemur að okkur kl.14:00 í Norðurljósum.
Aðgangur er ókeypis.

Sunnudagur
Á sunnudeginum kl. 15 verða sameiginlegir hátíðartónleikar í Eldborg. Þá koma 900 söngvarar fram og syngja saman UPPHAF, lag Hreiðars Inga Þorsteinssonar við ljóð Ingibjargar Haraldsdóttur, íslensk kórlög og sænskt kórverk undir stjórn Robert Sund. Fílharmónía kemur einnig fram á tónleikunum í Elborg með eigin dagskrá; Cloudburst eftir bandaríska tónskáldið Eric Whittacre. Miða á hátíðartónleikana má nálgast hér.

Upplýsingar um kórahátíðina á vef Hörpu má sjá hér.

 

Starfið framundan – haust 2013

Vetrarstarfið fer vel af stað og nú fer Sveitin í ferðalag!

Laugardaginn 28. september liggur leiðin í Mýrdalinn þar sem sungnir verða tónleikar í Skeiðflatarkirkju kl. 16. Kórinn mun hafa stutta viðkomu í Sögusetrinu á Hvolsvelli, skoða Njálurefilinn og taka lagið fyrir saumafólkið! Þá kemur kórinn við á Skógum, skoðar byggðasafnið og tekur lagið í kirkjunni.  Það eru mörg verkefnin sem kórin tekur þátt í og hér má sjá brot af því sem á dagskránni er fram til áramóta.

  • Í október tekur Söngsveitin þátt í söngdagskrá í Hörpunni sem Landsamband blandaðra kóra stendur fyrir. Þar mun kórinn syngja, einn og með öðrum kórum í Norðurljósum og Eldborgarsal.
  • Flutt verður klezmertónlist í Áskirkju ásamt Ragnheiði Gröndal og hljómsveit Hauks Gröndal í nóvember.
  • Kórinn mun að sjálfsögðu syngja inn jólafriðinn í desember, í Kristskirkju fyrir jól og í Háteigskirkju milli jóla og nýárs.
Nánari dagskrá birtist síðar.

Gleðilegt sumar!

Nú er sumar, gleðjist gumar!

Fílharmónían lauk starfsári sínu með aðalfundi þann 3. júní síðastliðinn. Veturinn hefur verið viðburðaríkur og kórinn tekist á við fjölbreytt verkefni að vanda. Tónleikar voru sex talsins en sumir voru haldnir oftar en einu sinni og kom kórinn því fram alls tólf sinnum. Í október fluttum við Maríumúsík eftir Anders Öhrwall og Misa Criolla eftir Ariel Ramirez í Seltjarnarneskirkju og Guðríðarkirkju. Í desember tók kórinn þátt í Frostrósum og söng með á fimm tónleikum sem haldnir voru í Hörpu. Ákveðið var að halda jólatónleika og fóru þeir fram í Kristskirkju þann 27. desember og var efnisskráin fjölbreytt.

Í upphafi nýs árs byrjuðu stífar æfingar á Carmina Burana eftir Carl Orff og naut kórinn aðstoðar fleiri kórsöngvara við það verkefni. Tónleikarnir fóru fram í Hörpu þann 7. febrúar og stjórnaði Hermann Bäumer kórnum og Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Hið klassíska verk, Requiem eftir Gabriel Fauré, var flutt tvisvar: í messu á skírdagskvöld (18. apríl ) í Áskirkju og í Reykholti þann 4. maí. Þann 21. apríl hélt kórinn tónleika í Seltjarnarneskirkju undir heitinu Tíminn og vatnið og var það nokkurs konar þema tónleikanna. Hluti af þeirri efnisskrá var svo fluttur ásamt Requiem í Reykholti.

Á aðalfundinum var kosinn ný stjórn. Agla Ástbjörnsdóttir tók við sem formaður af Lilju Árnadóttur. Í aðalstjórn sitja nú Haukur Kristófersson, Edda Þöll Kentish, Þóra Harðardóttir og Harpa Ósk Valgeirsdóttir. Í varastjórn eru Þengill Ólafsson, Birna Kristín Eiríksdóttir og Guðjón Emilsson.

Fílharmónían tekur sér frí í sumar og syngur aðallega í grillveislum og útilegum 🙂
Við hlökkum til næsta starfsárs, sem bíður fullt af spennandi áskorunum og skemmtilegum tækifærum.

Gleðilegt sumar!

Tónleikar 4.maí

Tónleikar Fílharmóníu í Reykholtskirkju
4. maí kl 16.00

Söngsveitin Fílharmónía flytur Requiem eftir Gabriel Fauré auk ýmissa annarra verka hinn 4. maí næstkomandi í Reykholtskirkju.

Requiem, eða sálumessa, Fauré var skrifuð undir lok 19. aldar og inniheldur hina vel þekktu Pie Jesu aríu, sem Rakel Edda Guðmundstóttir mun flytja með kórnum að þessu sinni. Lokakafli verksins, In Paradisum, er einstaklega hughljúfur og bjartur áheyrnar og slær á strengi vonar í lok sálumessunnar, um að lífið fyrir handan sé ekki endilok alls heldur þvert á móti.

Verkið sem í heild er ástsælt, angurvært og fallegt í flutningi, en það er til útsett bæði fyrir strengi og kór og fyrir orgel og kór. Að þessu sinni mun orgelleikur Magnúsar Ragnarsson stjórnanda Fílharmóníu berast um Reykholtskirkju í verkinu en gestastjórnandinn Sigurður Árni Jónssons stjórnar þeim hluta tónleikanna.

Auk Sálumessunnar kennir ýmissa grasa á efnisskránni, en meðal annars verður flutt nýtt verk eftir stjórnanda kórsins  sem ber heitið Tíminn og vatnið og er samið við ljóð Steins Steinarrs. Á efnisskránni eru jafnframt fjölbreytt kórverk eftir íslensk og erlend tónskáld. Eitt þeirra er nýstárlegt verk eftir Eric Whitacre. Hann er nokkurs konar „rokkstjarna“ kórheimsins, og verkið ber heitið Cloudburst.

Söngsveitin Fílharmónía var stofnuð árið 1959 í því skyni að flytja stór kórverk með sinfóníuhljómsveit og einsöngvurum en dr. Róbert A. Ottósson var fyrsti stjórnandi hennar. Hún hefur starfað alla tíð síðan og flutt fjölda stórra kórverka, nú síðast í febrúar tók hún þátt í flutningi Carminu Burana með í Eldborg. Að jafnaði eru kórfélagar 60 – 70 talsins.

Miðasala er hjá kórfélögum og við innganginn.
Allar nánari upplýsingar veitir Lilja Árnadóttir formaður kórsins s. 8985290

 

Tónleikar 21.apríl 2013

Söngsveitin Fíharmónía og Duo Harpverk

Tónleikar í Seltjarnarneskirkju sunnudagskvöldið 21. apríl kl. 20.00

Sunnudaginn næstkomandi þann 21. apríl heldur Söngsveitin Fílharmónía tónleika í Seltjarnarneskirkju kl 20. Leiðarstef þeirra er tími og vatn. Á efnisskránni eru fjölbeytt kórverk, íslensk og erlend. Þau eru t.d. eftir Óliver Kentish, Þorkel Sigurbjörnsson, Jón Nordal, Gunnstein Ólafsson og ungt upprennandi tónskáld Gísla Magnússon.Þá verður frumflutt verk eftir stjórnanda kórsins, Magnús Ragnarsson sem ber heitið Tíminn og vatnið og er samið við fyrsta og annað ljóð í bálki Steins Steinars. Af útlendu verkunum ber hæst verkiðCloudburst eftir ameríska tónskáldið Eric Whitacre, sem er nokkurs konar „rokkstjarna“ kórheimsins.

Á tónleikunum kemur jafnframt fram Duo Harpverk með slagverksgjörning. Það er skipað hörpuleikaranum Katie Buckley og slagverksleikaranum Frank Aarnink.

Miðar fást í 12 tónum á Skólavörðustíg, hjá kórfélögum og við innganginn. Þeir kosta kr. 2000,- og hálfvirði er fyrir börn undir 12 ára aldri.

Tónleikarnir verða í Seltjarnarneskirkju (sjá kort) 21. apríl og hefjast klukkan 20. Miðasala er hjá kórfélögum, í 12 tónum og við innganginn. Miðaverð er 2000 kr. en 1000 kr. fyrir börn 12 ára og yngri.