Sumarfrí!

Kaldalón

Eftir frábæra tónleikaferð á Ísafjörð og Þingeyri og frábæran söngvetur erum við komin í sumarfrí. Ferðin vestur var hin skemmtilegasta en haldnir voru tvennir tónleikar, þeir fyrri í Þingeyrarkirkju og seinni í Ísafjarðarkirkju. Þökkum við þeim sem komum á tónleikana fyrir frábærar viðtökur! Á leiðinni vestur var gert stutt stopp í Kaldalóni sem okkar ástkæra skáld, Sigvaldi, kennir sig við. Skyldustopp fyrir hvern þann kór sem á leið um Vestfirði! 🙂

Við erum nú farin á fullt að undirbúa næsta vetur, sem verður sem fyrr undir styrkri stjórn Magnúsar, en dagskráin verður full af spennandi verkefnum. Munum við birta dagskrána hér á síðunni þegar nákvæmar dagsetningar liggja fyrir.

Gleðilegt sumar kæru vinir!

TÓNLEIKAR: Enn syngur vornóttin

Söngsveitin Fílharmónía endar starfsárið með sumartónleikaferð til Vestfjarða, en þar heldur kórinn tvenna tónleika, á Þingeyri 3. júní ogÍsafirði 4. júní. Yfirskrift tónleikana er sótt í ljóð Tómasar Guðmundssonar, Enn syngur vornóttin, sem kórinn syngur ásamt öðrum hugljúfum sumarlegum sönglögum, frá Íslandi og Norðurlöndum. Dagskráin verður einnig flutt í Reykjavík, í Áskirkju þriðjudaginn 31. maí kl. 20, og í Skálholti laugardaginn 28. maí klukkan 16. Stjórnandi Söngsveitarinnar er Magnús Ragnarsson.

Miðaverð er 1500 kr, frítt fyrir börn 12 ára og yngri.

Miðar eru seldir við innganginn. (Enginn aðgangseyrir er á tónleikana í Skálholti, en gestum boðið að styrkja kórinn með framlögum).

Skálholt, laugardag 28.maí kl.16
Áskirkja, þriðjudag 31.maí kl. 20
Þingeyrarkirkja, föstudag 3.júní kl.20
Ísafjarðarkirkja, laugardag 4.júní kl.16

 

Æfingabúðir 4 – 6.mars 2011

Nú fer óðum að styttast  í æfingabúðirnar, 4.-6. mars – vonandi koma sem flestir með!

Verð

9.500 kr. fyrir kórfélaga fyrir gistingu í tvær nætur og mat allan laugardaginn
Verð fyrir þá sem þurfa nauðsynlega að fara heim fyrir árshátíð er 3.900kr
8.000 kr. fyrir maka sem verður með  á árshátíðinni og gistir eina nótt.

Ef eitthvað er óljóst eða ef einhver er með fæðuóþol, hafið þá samband við Þóru: thora@vso.is

Það væri mjög gott ef þið leggið inn sem fyrst .

Reikn.nr:  525 – 26 – 3714
Kt. 5401696679

Sendið kvittun á thora@vso.is og svana@hi.is Ekki gleyma þessu!

Matur

 • Morgunmatur á laugardaginn
 • Hádegisverður,  fiskréttur með fersku salati og hrísgrjónum
 • Kaffihressing,  pönnsur og ferskir ávextir
 • Kaffi, te og engiferseyði allann daginn
 • Þrírétta kvöldverður
  • Salat með parmaskinku og melónu
  • Kalkúnabringur með Waldorfsalati og sætum kartörflum
  • Pavlóva með ferskum ávöxtum

Hvað þarf að hafa með?

– Nótur
– Sængurföt

 

Um merki söngsveitarinnar

Söngsveitin efndi til samkeppni meðal félaga sinna og aðstandenda þeirra um nýtt merki kórsins fyrir 50 ára afmælisár kórsins. Fjöldi góðra tillagna barst en hlutskörpust var sú sem hér sést, merki hannað af Birgittu Sif Jónsdóttur sem var opinberlega sýnt á auglýsingum og tónleikaskrá fyrir aðventutónleikana í vetur. Henni er þakkað kærlega fyrir framlag sitt.

Í merkinu leikur Birgitta sér með hið sígilda tákn tónlistarinnar, hörpuna, sem hér er full af lífi og hreyfingu. Ef vel er gáð má sjá syngjandi kórfélaga með nótnabækur sínar, í líki hörpustrengjanna.

Birgitta býr og stundar nám í Bretlandi og má sjá fleiri dæmi um verk hennar hér. Birgitta Sif er dóttir Ragnheiðar Guðmundsdóttur sem syngur altrödd í kórnum.

MISSA VOTIVA eftir Jan Dismas Zelenka

MISSA VOTIVA eftir Jan Dismas Zelenka, 20. og 23. mars 2011 í Fella- og Hólakirkju

Glæsilegt barokkverk frumflutt á Íslandi

Söngsveitin Fílharmónía flytur á vortónleikum sínum barokkverkið Missa votiva, eftir Jan Dismas Zelenka, meðBachsveitinni í Skálholti. Einsöngvarar á tónleikunum eru Marta Guðrún Halldórsdóttir, Jóhanna Ósk Valsdóttir, Gissur Páll Gissurarson og Ágúst Ólafsson. Stjórnandi er Magnús Ragnarsson.

Zelenka var fæddur 1679 í Bæheimi (núv. Tékklandi) en starfaði í Dresden, þar sem hann lést 1745. Hann var þannig samtímamaður Bach og Handel, en naut engrar viðlíka hylli meðan hann lifði. Það var ekki fyrr en um miðja tuttugustu öld að stórbrotin tónverk Zelenka voru enduruppgötvuð, og þykja nú meðal helstu perla barokktímans. Zelenka var á margan hátt framúrstefnulegur og djarfur í tónlistarsköpun sinni, verk hans bera einkenni barokktímans en sumt minnir á seinni tíma tónskáld, svo sem Mozart og Schubert. Hann vefur saman hljómsveit og kór með glæsilegum hætti og var ófeiminn við að brjóta upp formfestu barokkhefðarinnar.

Messan hljómar nú í fyrsta sinn á Íslandi. Verkið samdi Zelenka 1739 eftir margra ára erfið veikindi, hann hafði heitið sér því að semja stórbrotna messu ef hann skyldi ná heilsu. Ýmsir hafa þannig borið verkið saman við Sálumessu Mozarts, þar sem bæði verkin bera vitni hverfulleika lífs og í þeim báðum skiptast á dularfullir kaflar þrungnir trega við lotningarfulla lofsöngva. Á meðan greina má vissa örvæntingu í verki Mozarts virðist Zelenka hins vegar leggja meira traust á almættið.

Bachsveitin í Skálholti er af góðu kunn, ekki síst fyrir þátt sinn í metnaðarfullu tónleikahaldi í Skálholti, en Sumartónleikar í Skálholti hlutu nýverið Eyrarrósina, viðurkenningu sem veitt er árlega fyrir framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni. Hljómsveitin leikur á barokkhljóðfæri sem líkust þeim sem notuð voru á upprunatíma barokkverka.

Söngsveitin Fílharmónía er meðal virtustu kóra landsins og og hélt upp á hálfrar aldar afmæli síðasta vor með frumflutningi á nýju íslensku tónverki, Heimsljósi, eftir Tryggva M. Baldvinsson, sem kórinn pantaði af því tilefni. Kórinn hefur flutt í fyrsta sinn á Íslandi mörg helstu kórverk tónlistarsögunnar, svo sem Þýsku sálumessu Brahms, Missa solemnis og 9. sinfóníu Beethoven, Carmina Burana, svo fátt eitt sé nefnt.